Látum ekki kúga okkur lengur í krafti einokunar og auðs!

Þar sem atvinnulíf er einhæft ráða eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna því hverjir fá störfin í samfélaginu og hverjir ekki og hverjir eru reknir og hverjir ekki. Þetta vita allir sem þar búa og þeir sem valdið hafa, í krafti einokunar og auðs, þurfa ekki að segja þetta upp hátt og enn síður að hóta einhverjum með berum orðum því hver treystir sér til að gagnrýna fyrirtæki, eigendur þess eða stjórnendur þegar hann veit að það getur kostað hann starfið og að það er enga aðra vinnu að hafa? Hvernig á hann þá að framfleyta sér og fjölskyldu sinni?

Fólk á þannig ekki aðeins störf sín og framfærslu og framtíð undir náð og miskunn eigenda og stjórnenda fyrirtækjanna, heldur þarf það að þola mjög miklar skerðingar á skoðana- og tjáningarfrelsinu, mannréttindum sem eru súrefni heilbrigðs lýðræðis í sérhverju samfélagi.

Þetta ofurvald eigenda fyrirtækjanna stendur byggðunum stórkostlega fyrir þrifum og er gríðarlega óréttlátt gagnvart íbúunum, óheilbrigt og ólíðandi.

Sósíalistaflokkurinn ætlar að losa fólk og byggðirnar úr þessu kyrkingartaki með því að taka valdið frá fyrirtækjunum og færa það til fólksins, þar sem það á að vera og hvergi annars staðar.

Til að gera þetta verðum við að fá stuðning þinn!
Það geturðu gert með mjög einföldum og áhrifaríkum hætti:

Kjóstu Sósíalistaflokkinn!

Árni Múli Jónasson
Höfundur er í öðru sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir