Leikskólar í Skagafirði og tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar

Í Skagafirði höfum við þrjá frábæra leikskóla þar sem um 80 starfsmenn kenna 240 börnum. Í leikskólunum er unnið faglegt og metnaðarfullt starf sem undirbýr börnin okkar undir lífið og áframhaldandi nám. Þó að leikskólarnir okkar séu frábærar menntastofnanir þá felast áskoranir í því að að reka svo stórar einingar í kviku samfélagi. Leikskólarnir hafa undanfarið glímt við margskonar áskoranir, meðal annars manneklu og fækkun á menntuðu starfsfólki. Ljóst er að með nýju leyfisbréfi sem tók gildi nú um áramótin geti sú staða jafnvel versnað. Af þeim sökum óskaði fræðslunefnd eftir því síðastliðið haust að skipaður yrði starfshópur um starfsumhverfi leikskólanna. Var starfshópurinn skipaður stjórnendum, deildarstjórum og kennurum úr leikskólum Skagafjarðar auk starfsmönnum fræðsluþjónustu. Starfshópurinn vann hratt og vel og skilaði niðurstöðum til nefndarinnar í lok síðasta árs.

Þær tillögur starfshópsins sem við í meirihluti fræðslunefndar höfum lagt til að komi nú til framkvæmda eru fjölbreyttar. Við höfum þegar samþykkt að undirbúningstími verði aukinn og samræmdur á öllum deildum. Að starfsmaður Þjónustumiðstöðvar sinni starfi húsvarðar í allt að fjóra tíma á viku í Ársölum. Að milli jóla og nýárs verði lágmarksstarfsemi í Ársölum og leitað eftir skráningu barna þá daga. Á móti verður foreldrum boðið upp á niðurfellingu leikskólagjalda fyrir þessa daga. Einnig verður horft til tillagna hópsins um breytt rýmisviðmið við breytingar á húsnæði eða nýbyggingar hjá leikskólum í Skagafirði.

Ljóst er að allar tillögurnar sem starfshópurinn lagði fram eru mikilvægar en mest áhersla var lögð á tillögu hópsins um styttingu vinnuvikunnar. Tillagan hljóðaði upp á að starfsmaður leikskólans í 100% starfi fengi 3ja tíma styttingu vinnutímans á viku og myndi því ljúka sínum vinnudegi kl. 13:00 einn dag í viku. Við teljum að með þessu fyrirkomulagi aukist sveigjanleiki í starfi og að starfsánægja og almenn vellíðan aukist sömuleiðis. Vonir standa til að fyrirkomulagið auki ásókn í 100% starf, að auðveldara verði að ráða inn nýja starfmenn, starfsmannavelta minnki og að minna verði um tímabundna fjarveru starfsmanna á vinnutíma. Er það okkur, fulltrúum meirihlutans í fræðslunefnd, mikil ánægja að tryggja að framgang þessarar tillögu og að hún verði að veruleika nú í sumar. Með tilraunaverkefni af þessu tagi verður hægt að meta markvisst árangurinn af styttingu vinnuvikunnar og þau áhrif sem hún hefur á starfsánægju og fleiri þætti. Tilraunaverkefnið hefst í síðasta lagi 1. maí og verður út árið með möguleika á framlengingu gefi það góða raun.

Mikil áhersla hefur verið lögð á styttingu vinnuvikunnar í samfélaginu okkar á undanförnum misserum. Íslendingar vinna að jafnaði mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Teljum við að með þessari aðgerð getum við gert starfið í leikskólum Skagafjarðar fjölskylduvænna. Rannsóknir sýna einnig að styttri vinnuvika leiði til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Hefur töluverð reynsla fengist í sambærilegum verkefnum t.d. hjá Reykjavíkurborg. Niðurstöður tilraunaverkefnisins hjá Reykjavíkurborg sýna jákvæð áhrif verkefnisins t.d. aukna starfsánægju, bætta andlega og líkamlega heilsu auk þess sem að stytting vinnuvikunnar auðveldaði barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf.

Það er okkur í meirihlutanum mikil ánægja að leggja fram þetta metnaðarfulla verkefni um styttingu vinnuvikunnar í leikskólum Skagafjarðar ásamt öðrum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi starfsmanna, kennara og nemenda leikskólans. Verkefnið er vel ígrundað, útfært og fjármagnað. Að verkefninu hafa komið fjölmargir einstaklingar og þökkum við starfshópnum, starfsmönnum sveitarfélagsins og öðrum sem að verkefninu hafa komið fyrir þeirra framlag. 

Það er ósk okkar að verkefnið skili þeim jákvæðu áhrifum sem vonir standa til um og að það muni styrkja faglegt starf leikskólanna okkar enn frekar. Það er mikilvægt að búa vel að starfsfólki leikskólans, að þar sé okkar frábæra starfsfólk að hlúa að framtíðinni, börnunum okkar, og að í leikskólunum okkar líði öllum vel.

Laufey Kristín Skúladóttir, fulltrúi Framsóknarflokks og formaður fræðslunefndar
Elín Árdís Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og varaformaður fræðslunefndar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir