Meiri frásögur af keppni á hestum - Kristinn Hugason skrifar
Nú hverfum við aftur þar sem frá var horfið í þarsíðasta pistli og sagði frá kappreiðunum miklu á Kili þar sem leysinginn Þórir dúfunef á stokuhryssunni Flugu, sem hið forna höfuðból Flugumýri heitir eftir, sigraði mikinn og margefldan hestamann, Örn að nafni, kallaður landshornamaður, á hestinum Sini, það voru fyrstu kappreiðarnar á Íslandi sem enn lifa í sögnum.
Í þeim mikla sagnabálki Horfnum góðhestum eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp er fjöldi frásagna af keppni manna á hestum, oftast þó heldur óformlegar og hvorki á eiginlegum reiðvelli né útmældum. Um stöku keppni er þó getið þar sem menn settu niður sprettfærið og afmörkuðu það, t.d. með svipunni og höfðu jafnvel svo mikið við að festa á hana rauðan tóbaksklút svo hæglegar sæist. Þegar fór svo að síga að lokum ritverks Ásgeirs, þ.e. að færast fram yfir aldamótin 1900 og hvað þá nær ritunartíma verksins, en það kom út í tveimur bindum, 1946 fyrra bindið og 1948 hið síðara, segir svo jafnvel frá stöku formlegum kappreiðum.
Í greininni sem ég var að vitna í og birtist í 22. tbl. Feykis, 5. júní sl. sagði og frá að fyrsta eiginlega tilraun manna til að vekja athygli á íslenska reiðhestinum, hraða hans og keppnishörku hafi verið gerð á Oddeyri á Akureyri þjóðhátíðarsumarið 1874 en þá var minnst þúsund ára byggðar á Íslandi og skemmtisamkomur haldnar víða um land af því tilefni. Frá keppninni á Oddeyrinni er sagt í Kappreiðaannál eftir Einar E. Sæmundsen sem birtist í bókinni Fákur – Þættir um hesta, menn og kappreiðar, búin til prentunar af Einar E. Sæmundsen og Hestamannafélagið Fákur gaf út í tilefni af aldarfjórðungsafmæli sínu og kom út í Reykjavík árið 1949.
Stofnun hestamannafélaga og LH
Í riti sínu greinir Einar E. Sæmundsen frá mörgum fleiri atburðum af svipuðum toga og þeim á Oddeyrinni og er sumt byggt á frásögum úr Horfnum góðhestum Ásgeirs en annað á útgefnum blöðum frá þessum tíma. Festa komst hins vegar ekki á þessi mál fyrr en með stofnun hestamannafélaga í landinu.
Elsta félagið eða það sem fyrst var stofnað var Hestamannafélagið Fákur í Reykjavík en stofnfundur þess var haldinn 24. apríl 1922. Megin stefnumið félagsins í byrjun voru tvenn; í fyrsta lagi að koma upp skeiðvelli og efna þar til kappreiða og í öðru lagi að tryggja félagsmönnum góða sumarhaga fyrir hesta sína. Fleiri félög bættust svo fljótlega við; árið 1928 voru félögin Léttir á Akureyri og Glaður í Dalasýslu stofnuð, árið eftir Sleipnir í Árnessýslu og svo 1933 Hestamannafélögin Faxi í Borgarfirði og Léttfeti á Sauðárkróki, félögunum fjölgaði svo jafnt og þétt og stofnuðu þau í sameiningu Landssamband hestamannafélaga (LH) 18. desember 1949. Stofnfélögin voru Faxi í Borgarfirði, Fákur í Reykjavík, Dreyri á Akranesi, Geysir í Rangárvallasýslu, Léttfeti á Sauðárkróki, Léttir á Akureyri, Neisti í Austur-Húnavatnssýslu, Sindri í V-Skaftafellssýslu, Sleipnir á Selfossi, Smári í Árnessýslu, Stígandi í Skagafirði og Sörli í Hafnarfirði. Skömmu síðar gengu svo Glaður í Dalasýslu og Hörður í Kjósarsýslu í sambandið.
Inntak starfsemi hestamannafélaganna var áþekkt hvarvetna, þ.e. að vinna að sameiginlegum hugðar- og hagsmunamálum hestamanna, hagamálin brunnu eðlilega heitar á mönnum í þéttbýlisfélögunum en allsstaðar var hins vegar þörf á að koma sér upp aðstöðu til hestaþinga sem á þessum tíma voru fyrst og fremst kappreiðar og vallarsvæðin almennt kölluð skeiðvellir.
Kappreiðar í Bolabás
Til vitnis um metnað manna og kapp á þessum tíma skal hér rakin stuttlega áhugaverð frásögn sem kemur fyrir í riti Einars E. Sæmundsen, sjá hér framar í greininni, kallast hún einfaldlega Þingvallakappreiðarnar og þar segir frá því framtaki Fáks að efna til kappreiða á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930 en þá var þess minnst að þúsund ár voru liðin frá því að alþing var þar fyrst sett. Um þetta framtak segir í téðu riti: „Mundi eigi á annan hátt betur vakin athygli á þeim merkilega þætti í sambúð hests og manns. Er studdi að því um aldaraðir, að í sólmánuði sumar hvert lágu allar leiðir á Þingvöll.“
Stórhuga undirbúningur Fáksmanna hófst með löngum fyrirvara sem fólst m.a. í að hvetja til stofnunar hestamannafélaga í helstu hrossasveitum, í þeim tilgangi að fá þaðan þátttakendur og hvatningu til félagsmanna að herða sig og bæta undirbúning eigin hrossa, einkum hvað þjálfun á vekringum varðaði en skeiðíþróttin þótti þá í mikilli lægð. Einnig voru í góðum tíma hafnar viðræður við afmælisnefndina, fundinn nothæfur keppnisvöllur, að mestu frá náttúrunnar hendi, inni í Bolabás og hann undirbúinn af stórhug miklum; hreinsaður af kjarrgróðri, sléttaður eftir þörfum og þjappaður. Mældur var út 400 m völlur og 25 m breiður og gert ráð fyrir að 10 til 12 hestar gætu keppt í senn. Byggður var dómpallur og hús fyrir veðbankann auk þess sett upp stúka fyrir fyrirmenni. Jafnframt var beitt sér fyrir lagningu vegar af megin hátíðarsvæðinu inn að kappreiðasvæðinu og girt girðing til að beina áhorfendum að formlegum inngangi inn á sjálft kappreiðasvæðið.
Þrátt fyrir þetta allt fór framkvæmdin nokkuð út um þúfur á hátt sem segja má svo „grátlega íslenskan“, eins og svo margir kannast við sem staðið hafa í eða fylgst með mótahaldi hestamanna eða almennu útihátíðahaldi hérlendis í gegnum áratugina. Þrátt fyrir mikinn stórhug Fáksmanna hvað verðlaunafé varðaði (heildarupphæð þess nam 3700 kr sem er á núvirði rúmlega ein milljón króna) varð minna um skráningar hrossa utan Fáks en við var búist, hrossin skiluðu sér að auki seint og illa til keppninnar en margir skráðir hestar sáust aldrei á mótsstað.
Ekkert varð því úr lokaæfingu. Kvöldið fyrir keppnina, en hún fór fram kl. 10 árdegis annan dag hátíðarhaldanna (föstudaginn 27. júní), var kuldi og krepjuhríð þó úr rættist morguninn eftir. Þegar keppnin átti svo að hefjast tók ekki betra við, örtröð myndaðist um þá fáu kassabíla til fólksflutinga sem til staðar voru, þúsundir manna gengu því inn Sleðaásshraun til að komast á keppnisstaðinn, þ.m.t. flestir starfsmenn kappreiðanna. Riðluðust menn yfir girðinguna þar sem að var komið og merkjasala Fáks (ígildi aðgöngumiða) sem ásamt með veðbankanum átti að standa undir kostnaðinum fór úr böndunum þó fjöldi skáta væri á svæðinu í þessu skyni að selja merki. Ýmsir svöruðu jafnvel með þjósti að þeim bæri engin merki að kaupa þar eð þeir væru þjóðhátíðargestir! Veðbankanum þurfi svo að loka eftir tvo fyrstu sprettina því afgreiðslan öll stíflaðist vegna ásóknar í veðmiða en tímaramminn sem kappreiðunum var ætlaður á dagskránni var afar knappur, kappreiðarnar varð því að drífa áfram.
Hvað völlinn sjálfan varðaði kom í ljós er að keppninni dró að hann var laus til vansa á þeim köflum er hann var sem sendnastur, hafði verið sléttaður og/eða kjarrgróður burthreinsaður, en einungis frekar lítill valti var á staðnum en hann var notaður til að þjappa völlinn dögum saman. Voru því gerðar ráðstafanir til að fá öflugan valtara frá Reykjavík en vöruflutningabíllinn með valtarann sat fastur í umferðarþvargi þegar svo var komið að bílar máttu ekki aka niður Almannagjá.
Þó svo sannarlega gæfi á bátinn eins og hér er rakið eru kappreiðarnar í Bolabás á sjálfri Alþingishátiðinni á Þingvöllum árið 1930 merkur atburður og vitna um kjark og stórhug þeirra manna er að stóðu.
Í næstu greinum verður vefur keppnissögunnar ofinn áfram.
Kristinn Hugason.
Áður birst í 33. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.