Meistaradeildarsæti væri mjög sexy - Liðið mitt Eysteinn Ívar Guðbrandsson

Eysteinn Ívar 8 ára á eldra árinu í 7. flokki á Króksmóti 2009. Aðsend mynd.
Eysteinn Ívar 8 ára á eldra árinu í 7. flokki á Króksmóti 2009. Aðsend mynd.

Eysteinn Ívar Guðbrandsson er mörgum kunnur þrátt fyrir ungan aldur en hann hefur margoft stigið á svið með Leikfélagi Sauðárkróks og Leikhópi NFNV. Þá hefur hann getið sér góðs orðs í lýsingum leikja Tindastóls TV, bæði í fót- og körfubolta. Eysteinn er ekki alveg ókunnur Feyki því hann vann sem afleysingablaðamaður sumarið 2019 en í sumar vann hann í Sumartím en sem stendur er hann nemi við FNV ásamt því að starfa í Húsi frítímans.

Jóhann Daði Gíslason svaraði spurningum í Liðinu mínu áður en enska boltanum lauk síðasta tímabili og skoraði hann á Eystein að hefja leik þetta tímabilið. Fyrir þá sem ekki til þekkja eru foreldrar Eysteins þau Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Guðbrandur Jón Guðbrandsson.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum? -Það myndi vera bikarmeistararnir sjálfir og samfélagsskjaldarmeistararnir Arsenal. Ætli gamli hafi ekki hjálpað til í því, það var eiginlega bara hluti af uppeldinu.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég er virkilega bjartsýnn fyrir tímabilinu. Hef reyndar alltaf verið mjög bjartsýnn fyrir hvert tímabil en árangurinn kannski ekki sá sami og ég hef vonast eftir. En meistaradeildarsæti væri mjög sexy, myndi ég segja.  

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Já, myndi segja það. Erum með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar, eigum reyndar erfiðan leik framundan á móti Englandsmeisturunum Liverpool en við tökum það.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já, já, maður lendir alltaf í einhverjum deilum en það er líka skemmtilegt við boltann að það eru ekki allir sammála um allt. Mjög svipað með pólitíkina en ég ætla nú ekkert að fara tala um hana því þá væri ég nú bara að tala í gegnum rassgatið á mér.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Það myndi vera sjálfur kóngurinn, Thierry Henry.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, ekki ennþá en fljótlega munum við feðgar gera okkur ferð á fallegasta leikvang á Englandi, Emirates stadium, til þess að sjá okkar menn.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Heyrðu, ég á nokkrar treyjur, armbönd, trefil, húfu, bara þetta klassíska. 

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Gengur bara mjög vel.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -NEI!!!

Uppáhalds málsháttur? -Úfff, það er svo langt síðan ég fékk páskaegg, hefði getað bjargað mér með þeim málshætti.

Einhver góð saga úr boltanum? -Ég var nú með skrautlega þjálfara í gegnum yngri flokka Tindastóls. Sumarið 2012 þegar ég var í 5. flokki vorum við að spila á Eskifirði, við Fjarðabyggð. Þjálfari okkar í þessari ferð var Ben Everson sóknarmaður Tindastóls, við byrjuðum að spila leikinn og allt bara mjög eðlilegt og var spilaður virkilega fallegur og góður fótbolti. Svo í hálfleik tilkynnir Ben okkur að hann þurfi að fara aftur á Sauðárkrók til þess að fara á æfingu hjá Tindastól, nýbúinn að keyra fimm tíma austur. Daginn eftir var hann genginn í raðir Breiðabliks. En aftur að leiknum, við kláruðum hann þjálfaralausir og töpuðum stórt en fórum í sund eftir leik og það var voða gaman.  

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Ég á það til að hringja nokkur símtöl í vini mína sem Páll Óskar og hef verið að bjóða þeim á fimmtugstónleikana hans Palla.

Spurning frá Jóhanni Daða: -Hvenær ætlar þú að slá markametið sem pabbi þinn á fyrir Tindastól? Það er mjög góð spurning. Ætli ég verði ekki að byrja á því að taka fram skónna fyrst almennilega og svo sjáum við bara til. Annars er þetta nú bara fínt met hjá þeim gamla, stoppaði á uppáhaldstölunni sinni 69.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Konráð Frey Sigurðsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hvenær ætlið þið að feta í fótspor stelpnanna í Tindastól og spila í efstu deild?

Áður birst í 38. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir