Menningarhús í Skagafirði

Laust fyrir síðustu aldamót kynnti ríkisstjórn Íslands áform um að styðja við byggingu menningarhúsa í fimm sveitarfélögum, og var Skagafjörður þar með talinn. Sums staðar voru byggð ný hús, eins og Hof á Akureyri, annars staðar voru eldri hús gerð upp eins og á Ísafirði. 

Við Skagfirðingar ákváðum að fara svipaða leið og Ísfirðingar, þó að okkar tillaga gerði einnig ráð fyrir nýbyggingu á Sauðárkróki.

Tillaga okkar var þríþætt:

1.         Menningarmiðstöð á Sauðárkróki.
2.         Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Miðgarður, Varmahlíð.
3.         Sviðslistahúsið Bifröst, Sauðárkróki.

Á þessum tíma hafði sveitarfélagið þegar lokið endurbótum á Bifröst og árið 2005 var skrifað undir samning við ríkið um Miðgarð, sem byggður var á áætlun frá vorinu 2004. Samkvæmt þeirri áætlun átti heildarkostnaður við Menningar-húsin að vera 462 milljónir (362 m. á Sauðárkrók og 100 m. í Miðgarð) og átti ríkið að fjármagna 60% af byggingarkostnaði. Hefjast átti handa sem fyrst við Miðgarð og síðan við Safnahúsið í beinu framhaldi.

Þegar ég hætti í sveitarstjórn og þar með sem formaður byggingarnefndar vorið 2006, þá var búið að bjóða út endurbætur á Miðgarði, sem hófust árið 2007 eftir nokkra kyrrstöðu hjá sveitarstjórninni sem tók við.

Því miður varð kyrrstaðan varanlegri á Sauðárkróki, en nú heyrist að taka eigi málið upp á ný og eru það góðar fréttir.  Það hefði vissulega þurft að gera áður en sveitarfélagið fór í þær breytingar sem gerðar voru á Safnahúsinu.

Á síðasta fundi bygginganefndar vorið 2006 lagði ég fram teikningar sem Ivon Stefán Cilia (sá sem teiknaði upp Miðgarð) gerði  af menningarmiðstöð á Sauðárkróki. Þessar teikningar voru aðeins frumdrög, en samkvæmt þeirri hugmynd átti að byggja nýtt hús sunnan safnahússins og tengja húsin saman með glerhýsi, sem átti að vera nokkurs konar yfirbyggt torg.

Þó að áform ríkisstjórnarinnar hafi gert ráð fyrir tíu ára ferli vona ég að ríkið standi við það sem um var samið árið 2005 og að menningarmiðstöðin rísi á Sauðárkróki. Vona einnig að þau sem taka við keflinu kynni sér þá vinnu og þau gögn sem til eru í málinu.

Gísli Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir