Menntun án staðsetningar - Tækifæri í heimabyggð
Að ljúka framhaldsnámi er sterkur grunnur til framtíðar bæði fyrir þá sem fara beint út á vinnumarkaðinn og þá sem fara í frekara nám. Þegar nýútskrifaðir framhaldsskólanemar ákveða að fara í framhaldsnám leiðir það til flutninga til svæða sem bjóða upp á slíkt. Samfélagið okkar verður fyrir tímabundnum og oft varanlegum missi af þessum völdum. Hjá þessu unga fólki verður tengingin við gamla samfélagið alltaf til staðar en tengsl myndast við það nýja sem verður erfitt að rjúfa.
Eftir sitjum við með færri einstaklinga, því aðeins brot af þessu unga fólki flytur til baka með þekkinguna sem það hefur aflað sér. Þarna erum við að missa frá okkur mikilvægan samfélagshóp, fólk sem tilheyrir aldurshópnum sem algengast er að hugi að fjölskyldulífi og fjölgun.
Getum við breytt þessari þróun og haldið nýútskrifuðu framhaldsskólanemunum innan okkar samfélags?
Það hefur verið ákall til háskólasamfélagsins að færa kennsluhætti yfir í nútíma lausnir og því ákalli hefur í sumum námsgreinum verið svarað með fyrirkomulagi sem við köllum fjarnám eða lotubundið nám. Nemendur stunda þá sitt nám hvar sem þeir kjósa, en sækja lotur með reglubundnu millibili í háskólana. Margt er í boði hjá háskólastofnunum landsins en það er að verða krafa í þjóðfélaginu að allt nám verði mögulegt í fjarnámi. Síðustu ár hafa kennt okkur að tæknin gerir okkur kleift að starfa hvar sem er, óháð staðsetningu. Það er því óhætt að fullyrða að menntun verði líka óháð staðsetningu á komandi árum.
Í Skagafirði höfum við öll skólastigin á svæðinu og að auki Farskóla Norðurlands vestra. Farskólinn vinnur frábært starf í námskeiðshaldi og býður upp á aðstöðu fyrir fólk í námi. Skólinn er ekki stór en hefur sinnt hlutverki sínu vel til þessa og sannað gildi sitt.
Þarna tel ég að dýrmæt tækifæri leynist.
Með þekkingu Farskólans að vopni getur sveitarfélagið unnið að því að koma á laggirnar háskólasetri sem sérhæfir sig í þjónustu við fólk sem vill stunda háskólanám. Þessi þjónusta getur boðið upp á leiðsögn fyrir nemendur um námsframboð hjá háskólum landsins og jafnvel aðstoðað einstaklinga við umsóknir.
Í fjarnámi þarf fyrst og fremst aga og skipulag til að námið gangi upp. Hér þekki ég til verandi búinn með 8 af síðustu 10 árum í fjarnámi og lotunámi. Sérstök aðstaða myndi gera nemendum kleift að mæta saman í stofur óháð námi, mynda þannig félagsleg tengsl og skapa sér fasta rútínu í gegn um námið. Hver nemandi fengi vinnuaðstöðu þar sem starfsmaður setursins myndi aðstoða og jafnvel vera tengiliður við kennara hjá hverjum og einum. Þarna gæti félagslíf orðið sterkt og fjölbreyttar vettvangsferðir skipulagðar af háskólasetrinu lífgað upp á námið. Félagsleg einangrun í fjarnámi er áhættuþáttur sem verður að horfa til en fyrirkomulag af þessu tagi getur minnkað áhættuna.
Sveitarfélagið getur líka stutt þessa nemendur á öðrum sviðum. Að bjóða nemendum hlutastörf innan sveitarfélagsins gæti minnkað eða dregið úr þörf þeirra á að taka námslán. Á sama tíma fáum við aukinn mannauð inn á vinnumarkaðinn og getum mögulega dregið úr álagi þar. Að komast jafnvel í hlutastarf í þeirri grein sem viðkomandi er að læra getur verið mikill fengur. Reynslan á gólfinu gefur aðra nálgun á námið sjálft.
Svona starfsemi þyrfti heldur ekki endilega að einskorðast við sérstaka staðsetningu. Þó setrið myndi byggjast upp á einum stað þá gefur tæknin okkur þann möguleika að opna netfundi þar sem nemendur geta verið hvar sem er og fylgst með allan daginn ef þörf krefur. Sveitarfélagið á byggingar um allan fjörð sem eru lítið notaðar og ljósleiðari er kominn að þeim flestum. Þarna er tilvalin hugmynd um nýtingu þessara bygginga, sem jafnframt gæti dreift nemendum um fjörðinn.
Það sem skiptir mestu máli er að með þessari þjónustu getum við vonandi haldið stórum hluta fólks innan héraðsins og byggjum með því fjölskylduvænan grunn að framtíðinni. Með stofnun svona háskólaseturs getum við líka gengið lengra og orðið þrýstiafl gagnvart háskólasamfélaginu á að allt nám verði í boði í fjarkennslu.
Helgarkennsla síðustu árin við Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra hefur kennt mér hversu dýrmætt það er að mæta þörfum þjóðfélagsins. Til okkar koma einstaklingar hvaðanæva af á landinu og læra verklegar greinar samhliða vinnu. Fólk sem hefði annars ekki tök á að mennta sig, fólk með fjölskyldur og skuldbindingar sem gefur því ekki kost á hefðbundnu námi. Í þessu felast tækifæri sem við þurfum að grípa og efla enn frekar.
Að hafa Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra og Háskólann á Hólum hér á svæðinu er einstakt. Mikill ávinningur gæti orðið af því að leiða þessi skólastig meira saman. Ef mögulegt er að byggja upp og efla nám í raun- og tæknigreinum á öllum skólastigum getur það orðið mikið aðdráttarafl fyrir samfélagið og skapað verðmæti fyrir atvinnulífið. FNV útskrifar nemendur af fjölbreyttum námsbrautum og við verðum að geta gefið öllu þessu fólki kost á áframhaldandi námi í heimabyggð, hvort sem það væri við háskólasetur eða í Háskólanum á Hólum.
Það er síðan nauðsynlegt að leggja línurnar strax á grunnskólastigi með því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast mismunandi námsgreinum í góðri aðstöðu og með sköpun að leiðarljósi.
Tækifærin í menntamálum í Skagafirði eru gríðarleg og það að gefa fólki kost á eins mikilli menntun í heimabyggð og mögulegt er gæti orðið lykillinn að því að halda verðmætum hópi fólks innan samfélagsins til frambúðar. Aðlaðandi menntasamfélag gerir okkur eftirsóknarverðan búsetukost og bætir mannauðinn fyrir Skagafjörð í heild sinni.
Lausnamiðuð umræða er það besta sem við getum gert fyrir okkar sameinaða Skagafjörð.
Eyþór Fannar Sveinsson
Skipar 3. sæti á ByggðaLista xL fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. Maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.