Mikill áhugamaður um íþróttir

Þingmaðurinn - Ásmundur Einar Daðason Framsóknarflokki

Ásmundur Einar Daðason kom á ný inn í þingflokk Framsóknarflokksins í síðustu kosningum eftir árs fjarveru og er nú oddviti flokksins og 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis. Ásamt þingstörfum gegnir hann starfi ráðherra félags- og jafnréttismála í velferðarráðuneytinu. Ásmundur býr, ásamt konu sinni, Sunnu Birnu Helgadóttur í Borgarnesi og saman eiga þau þrjár dætur. Ásmundur Einar er þingmaðurinn í Feyki þessa vikuna.

Ásmundur Einar og dæturnar þrjár. Mynd úr einkasafni.

 Menntun: -Búfræðingur frá Landbúnaðurháskólanum á Hvanneyri og með B.Sc. í Almennum búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Starf áður en þingmennskan kallaði: -Landbúnaður og nám

Hvenær og hvernig vaknaði áhugi þinn á pólitík? -Ég byrjaði mjög snemma að taka þátt í félagsmálum og hef alltaf látið mig samfélagsmál varða, t.d. í stúdentapólitík, íþróttastarfi, sveitastjórnarmálum o.fl. Sem ungur drengur fylgdist ég alltaf með stjórnmálaumræðum í landsmálunum. Síðan jókst áhugi á landsmálapólitík jafnt og þétt og ég steig mín fyrstu skref og tók þátt í að skipuleggja kosningabaráttu með Jóni Bjarnasyni í Norðvesturkjördæmi sem þá leiddi lista Vinstri Grænna. Það skemmtilega við það er að við unnum þá saman ég og Guðmundur Ingi sem nú er Umhverfisráðherra en hann var þá aðalkosningastjóri VG í kjördæminu. Því má segja að Jón eigi tvo nemendur á ráðherrabekknum í ríkisstjórninni.

Hvenær settist þú fyrst á þing? -Árið 2009.

Hvaða máli værir þú líklegur til að beita þér fyrir á Alþingi framar öðrum? -Jafnrétti landsmanna til að geta sótt sér þjónustu hins opinbera. Hvort heldur er menntun, heilbrigðisþjónusta o.fl. Við verðum að ná fram auknu byggðajafnrétti á Íslandi. Það er ekki bara mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki í dreifðum byggðum landsins heldur skiptir þetta þjóðhagslega miklu máli að landið allt sé í byggð.

Telur þú að stjórnmálaumhverfið hafi breyst eða sé að breytast frá því sem áður var?

-Ég held að stjórnmálaumhverfið sé alltaf að breytast en ég held að það hafi breyst hraðar á undanförnum áratug heldur en fyrr á tímum. Þarna er breytt umhverfi netmiðla, samskiptamiðla o.fl. að hafa mikil áhrif. Á árum áður þá fékkstu bara flokkslínuna úr „þínu“ blaði en í dag er þetta miklu opnara og nándin orðin meiri.

Telur þú að fjölmiðlar, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar, hafi áhrif á skoðanir og gjörðir þingmanna? -Oft er sagt að stjórnmálamenn eigi ekki að láta svona lagað hafa áhrif á sig og flestir vinna eftir því. Það er hins vegar svo með mannlegt eðli að allt í umhverfi okkar hefur áhrif og mótar okkar skoðanir. Auðvitað eru fjölmiðlar, facebook o.fl. ekki undanskilið hvað það snertir.

Hvaða verkefni bíður helst íbúa Norðvesturkjördæmis að þínu mati? -Uppbygging innviða á sviði samgangna, fjarskipta o.fl. Við þurfum að auka byggðajafnrétti á öllum sviðum og í því sambandi að stíga skref í þá átt að taka upp norska byggðastefnu þar sem ýmsum fjárhagslegum hvötum er beitt. Ríkisvaldið þarf að standa með atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og vinna með sveitarstjórnum þegar kemur að þeim málum.

Hvaða málefni telur þú að brenni helst á íbúum Norðurlands vestra? -Stjórnvöld þurfa að standa með grunnatvinnugreinum svæðisins landbúnaði og sjávarútvegi og hvetja til sóknar og nýsköpunar. Stjórnvöld þurfa að standa við bakið á sveitarfélögunum á svæðinu varðandi það að nýta orku úr héraði til atvinnuuppbyggingar. Ferðaþjónustan er líka í sókn og þar er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að samgöngur bæði á landi og lofti séu tryggar. Samstaðan sem hefur verið að myndast milli sveitarstjórna um helstu áherslur eru mikilvægar til að ná árangri og á þeim grunni getum við saman komið góðum málum áfram.

Hvaða áhugamál áttu fyrir utan pólitíkina? -Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og fer á mjög marga körfuboltaleiki og hef gaman af. Jafnframt hef ég gaman af því að veiða og ferðast.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn? -Villi Vill (Vilhjálmur Vilhjálmsson).

Hver er uppáhalds kvikmyndin? -Af íslenskum myndum þá er það klárlega Dalalíf en enginn sérstök erlend mynd í uppáhaldi. Finnst alltaf gaman að horfa á Beverly hills cop eða Die hard myndirnar.

Hvert er uppáhalds íþróttafélagið? -Skallagrímur í Borgarnesi og Swansea í enska boltanum.

Ein góð saga í lokin: -Þær eru margar góðar en læt þær bíða næsta opna fundar á svæðinu.

Áður birst í 5. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir