Nauðsynlegar leiðréttingar | Friðbjörn Ásbjörnsson skrifar

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood. AÐSEND MYND
Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood. AÐSEND MYND

Síst af öllu vill FISK Seafood troða illsakir við eigendur smábáta í Skagafirði enda er fjölbreytileikinn í sjósókn okkar, eins og raunar allra landsmanna, afar mikilvægur. Þess vegna olli grein Magnúsar Jónssonar, formanns Drangeyjar, í Feyki í gær vonbrigðum. Bæði hallaði hann þar réttu máli og skautaði framhjá augljósum aðalatriðum. Til viðbótar hengir hann bakara fyrir smið þegar hann gerir FISK Seafood ábyrgt fyrir því að tillögur sveitarfélagsins um dreifingu byggðakvótans fáist ekki samþykktar af stjórnvöldum.

Nauðsynlegt er að leiðrétta nokkur atriði í grein Magnúsar. Aðallega er samt fyrir löngu orðið tímabært og nauðsynlegt að leiðrétta vinnulag sem í langan tíma hefur viðgengist hér á Sauðárkróki en stenst í raun ekki skoðun. Í þeim efnum vegur þyngst að í mörg ár hefur grundvallarreglan um að byggðakvóta sé úthlutað með skilyrðum um að aflanum sé landað til vinnslu heima í héraði verið brotin. Ekki einungis þarf að landa aflanum í heimahöfn heldur einnig vinna hann á heima í héraði sé fiskvinnsla á annað borð til staðar. Tilgangur og markmið byggðakvótans er þannig að efla fiskvinnsluna en ekki fyrst og fremst útgerðina. Þess vegna stingur það í augun, enda þótt það sé hárrétt, að sjá það í ályktun Drangeyjar að „á liðnum árum hefur [byggðakvótinn] að mestu leyti farið til útgerða smábáta á Sauðárkróki.“

Staðreyndin er sú að FISK Seafood hefur af tillitssemi við smábátaútgerðina sætt sig við sérreglur sveitarstjórnarinnar síðustu árin um dreifingu byggðakvótans. Hins vegar verður ekki lengur við það unað að afli smábátanna sé ekki settur í vinnslu hér á Sauðárkróki eins og skýr krafa er gerð um í lögum um byggðakvótann. Á þessa alvarlegu brotalöm var ráðuneytinu bent. Sú ábending hefur kallað á umræðu á milli sveitarfélagsins og ráðuneytisins sem er FISK Seafood í raun óviðkomandi.

Það er ekki rétt hjá formanni Drangeyjar að FISK Seafood sækist eftir óskiptum skýlausum rétti sínum til byggðakvótans. Þvert á móti höfum við rétt út sáttahönd og tilkynnt fulltrúum sveitarfélagsins Skagafjarðar að við séum reiðubúin til þess að gefa eftir u.þ.b. helming þeirra þorskígildistonna sem við eigum rétt á svo byggðakvótinn nýtist smábátaeigendum að hinum helmingnum til. Við gerum hins vegar kröfu um að öllum aflanum verði landað til vinnslu á Sauðárkróki sbr. ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða en þar segir m.a. að fiskiskipum sé „... skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. og skal úthlutun þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt skv. nánari reglum sem ráðherra setur.“

Reglurnar eru skýrar og eftir þeim er farið í hvívetna víðast um land. Enda þótt FISK Seafood sé reiðubúið til þess að koma til móts við eigendur smábáta verður það að rúmast innan þeirra laga og reglna sem um byggðakvótann gilda. Annað er einfaldlega útilokað.

Friðbjörn Ásbjörnsson
Framkvæmdastjóri FISK Seafood

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir