Nýtum tækifærin og náum árangri saman

Garðar Víðir Gunnarsson

 

 

 

Nú á laugardaginn 21. mars munu sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi velja hverjir skuli skipa lista flokksins fyrir komandi kosningar til Alþingis. Það er mikið verk fyrir höndum og mikilvægt að til starfans veljist öflugt fólk. Ég vil leggja mitt af mörkum. Það skiptir máli að til starfans veljist fólk með sterka framtíðarsýn, fólk sem er reiðubúið að nýta þau tækifæri sem til staðar eru með hagsmuni Íslands og íslendinga fyrir augum. Jafnframt þarf að draga lærdóm af því sem miður fór. Íslendingar eru dugnaðarþjóð og þegar erfiðleikar og þrengingar vofa yfir þá brettir fólk upp ermar og tekst á við það sem að höndum ber með krafti og æðruleysi. Með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar hef ég fulla trú á að okkur muni takast að vinna bug á þeim vanda sem við blasir og sýna öllum hvað í Íslendingum býr.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur sem setur traust sitt og trú á sérhvern einstakling í samfélaginu í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig allra fram. Því miður er aðstaðan nú þannig að ekki allir sjá þennan tilgang. Ég vil vinna í anda sjálfstæðisstefnunnar að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Þannig hjálpum við fólki að finna þennan tilgang á ný, þannig hjálpum við íslensku þjóðinni að öðlast aftur trúna á sjálfa sig.

 

Prófkjör eru ykkar leið til þess að hafa áhrif, ykkar leið til þess að veita nýju fólki með nýjar hugmyndir og nýjar áherslur brautargengi. Það er mikið verk fyrir höndum. Ég vil tryggja að hin góðu gildi sjálfstæðisstefnunnar verði hornsteinn þess endurreisnarstarfs sem framundan er. Ég vil ganga til þessa verks í ykkar umboði og nýta þau tækifæri sem til staðar eru og ná árangri. Ég treysti á ykkar stuðningi í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þann 21. mars 2009.

 

Garðar Víðir Gunnarsson frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir