Pistill um ekki neitt - Áskorendapenninn Dagný Marín Sigmarsdóttir, Skagaströnd

Þegar Marín frænka hringir og virðist hafa þá ofurtrú að það sé upplagt að þú setjist við skriftir og taki áskorun hennar um að skrifa pistil í Feyki, hvað getur maður sagt. Allavega tók ég þeirri áskorun og hélt að þetta yrði nú ekkert vandamál. En fljótlega varð ég alveg mát, um hvað átti ég eiginlega að skrifa. Eitthvað jákvætt og skemmtilegt og alls ekki pólitík, lagði dóttir mín til.

Eftir mikil heilabrot og allskonar hugmyndir var ég komin á þá skoðun að skrifa bara um ekki neitt, en má það og er það hægt?  Varla, þar sem sá pistill myndi án efa vera um ekki neitt og þar af leiðandi strax komið umfjöllunarefni og væri þá ekki lengur um ekki neitt. Það væri nú líka bara sóun á pappír og uppljóstrun á hvað ég væri lélegur penni. 

En stundum lítur út fyrir að það sé  bara  ekkert að ske og við ekki að gera neitt. Oft þegar við erum spurð; hvað ertu að gera?  þá er svarið; ekki neitt! En er það rétt?  Við erum þá allavega ekki að gera neitt, þannig að í raun erum við að gera eitthvað, þ.e.s ekki neitt. Innheimtuþjónusta nokkur notar slagorðið „ekki gera ekki neitt“ þegar við höfum gleymt að greiða reikningana okkar og það á vel við þegar maður lendir í svoleiðis veseni. Stundum  getum við lent í aðstæðum þar sem beinlínis er stórhættulegt að gera ekki neitt. Sem sagt það er ekki hægt að gera ekki neitt? 

Nei, við erum alltaf að gera eitthvað og flestir hafa allt of mikið að gera. Aðgerðarleysi er yfirleitt heldur ekki talið gott en getur stundum bara verið betra. En á sama hátt getum við spurt hvort sá sem þegir sé ekki að segja neitt. En er það rétt? Þögn er sama og samþykki, er oft sagt, og betra er að segja ekki neitt en að blaðra einhverja vitleysu. Akkúrat, ég hefði aldrei átt að byrja á þessum skrifum um ekki neitt. Af hverju skipti ég ekki um skoðun ?

Gerum meira af því að gera ekki neitt þegar það á við og svo líka allt annað. Höfum skoðanir  og segjum hvað okkur finnst en við þurfum samt ekki að tjá okkur um alla skapaða hluti, stundum er betra bara að þegja. 

Í þessum pistli kemur orðasamsetningin „ekki neitt“ fyrir 14 sinnum svo líklega er markmiðinu náð að skrifa um ekki neitt.

Takk fyrir og góðar stundir.

Ég skora á Veru Ósk Valgarðsdóttir, skólastjóra í Höfðaskóla hér á Skagaströnd að taka við áskorendapennanum.

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir