Prófkjörsþankar eftir Jón Magnússon

Jón Magnússon

Um þessar mundir fara fram prófkjör og forvöl hjá flestum stjórnmálflokkum á landinu. Aðferðafræðin er mismunandi en markmiðið hið sama, að velja fólk til forystusæta á listum flokkanna fyrir komandi Alþingiskosningar. Hér í Norðvesturkjördæmi fer fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum laugardaginn 21. mars n.k. Kosningarétt hefur allt flokksbundið Sjálfstæðisfólk í kjördæminu.

 

 

 

 

 

Það sem einkennir stjórnmál dagsins í dag er krafan um endurnýjun. Kjósendur vilja sjá nýja fulltrúa á Alþingi og á þetta ekki hvað síst við hjá Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur verið persónugerður fyrir þær hamfarir sem íslenskt efnahagslíf má þola um þessar mundir. Hvort þær ásakanir eru með öllu réttmætar ætla ég ekki að fjalla um hér. Sannleikurinn verður leiddur í ljós af þeim fjölmörgu sérfróðu aðilum sem hafa þau mál til skoðunar.

 

Hins vegar ber að fagna þeim viðbrögðum Sjálfstæðisfólks í kjördæminu, að verða við ákalli stuðningsmanna flokksins um endurnýjun í röðum frambjóðenda til setu á lista flokksins. Alls hafa 17 frambjóðendur gefið kost á sér til prófkjörs flokksins og í þeim hópi er aðeins einn núverandi þingmaður. Þessi fjöldi mjög frambærilegs fólks endurspeglar þann mannauð sem býr í Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi. Ég er stoltur af því að vera með í hópi þessara afbragðs frambjóðenda, sem koma víðs vegar að úr kjördæminu.

 

En það er einmitt stærð kjördæmisins sem veldur vaxandi áhyggjum varðandi niðurstöðu prófkjörs Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki sjálfgefið að hagsmunir, væntingar og þarfir allra svæða innan kjördæmisins séu af svo einsleitum toga, að þeim verði fullnægt af örfáum þingmönnum okkar. Vaxandi efasemdir eru uppi um það. Því miður sanna dæmin, að prófkjörsleiðin er síst til þess fallin að jafna dreifingu kjörinna fulltrúa af öllum svæðum kjördæmisins til setu í efstu sætum á listum flokkanna. Þetta þekkjum við hvað best hér í okkar gamla kjördæmi Norðurlands vestra.

 

Það blasir við í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í okkar stóra kjördæmi, að þeir sem hafa rétt til þátttöku úr fyrrum Norðurlandi vestra eru aðeins 16% af kjörgengum félögum Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Vissulega veldur þetta mér nokkrum áhyggjum, þar sem ég sækist eftir því að ná kjöri í eitt af þremur efstu sætum listans. En ég treysti Sjálfstæðisfólki í Norðvesturkjördæmi til skynsamlegrar niðurstöðu í prófkjöri okkar og stefni því ótrauður að settu markmiði.

 

Jón Magnússon

frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.    

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir