Raforkuöryggi, samtal og samráð - Blöndulína 3, tenging á milli Blöndu og Akureyrar

Undanfarið hafa birst greinar um tengingu sem fyrirhuguð er milli Blöndu og Akureyrar,  Blöndulínu 3, línu sem ætlað er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi og er mikilvægur hlekkur í framtíðarflutningskerfinu. Fram hefur komið að Blöndulína 3 sé ekki á þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets og er það rétt en mikilvægt er að átta sig á að Kerfisáætlun Landsnets skiptist í tvennt, þ.e. þriggja ára framkvæmdaáætlun og  tíu ára áætlun. Blöndulína 3 er því í Kerfisáætluninni þó hún sé ekki áætluð til framkvæmda innan þriggja ára. Gert er ráð fyrir að línan komi í beinu framhaldi af framkvæmdum við Hólasandslínu 3 sem farið verður í eftir að Kröflulína 3 verður að veruleika á næstu misserum.  Kerfisáætlun er endurskoðuð árlega.

Þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 sé til staðar hefur Landsnet ákveðið að endurtaka það. Ekki er óalgengt, í verkefnum sem þessu, að skipulagsvinnan sé unnin á undan umhverfismatinu. Í skipulagsferlinu, sem er stefnumótun sveitarfélagsins, er samhliða unnið umhverfismat skipulagsáætlunarinnar sem m.a. getur falið í sér valkostagreiningu. Leiði umhverfismat framkvæmdarinnar sjálfrar síðar til annarrar niðurstöðu þarf samtal að eiga sér stað, milli framkvæmdaraðila og sveitarfélags, um hvort tilefni sé til að gera  einstaka breytingar á aðalskipulagi.

Allir geta verið sammála um að raforkuöryggi sé þjóðaröryggi og skipti því miklu máli.  Í dag er Byggðalínan á mörgum stöðum yfirlestuð og því mikilvægt að styrkja hana. Flutningskerfi raforku er eitt samtengt kerfi og nýtist öllum raforkunotendum á Íslandi, hvort sem um ræðir stóra eða smáa notendur. Hvort kerfið sé í lofti eða jörð ræðst ekki af notendum heldur af raftæknilegum takmörkunum, stefnu stjórnvalda og niðurstöðum umhverfismats.

Blöndulína mun fara um fimm sveitarfélög;  Akureyrarkaupstað, Hörgársveit, Akrahrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð og Húnavatnshrepp. Með tilkomu línunnar breytist hlutverk núverandi Byggðalínu á svæðinu og getur línan þá þjónað verulega auknum flutningi til Skagafjarðar frá Blöndu annars vegar og tengivirkinu Rangárvöllum hins vegar. Staðsetning línunnar í Skagafirði er miðuð við að hægt sé að tengja Skagafjörð beint inn á línuna hvenær sem þörf skapast.

Rætt hefur verið um að það þurfi óháðan aðila til að leggja mat á möguleika jarðstrengslagna á svæðinu. Tvisvar hefur Skipulagsstofnun óskað eftir úttekt óháðs aðila á niðurstöðum Landsnets varðandi jarðstrengslagnir. Í fyrra skiptið vegna Sprengisandslínu og síðara skiptið vegna Kröflulínu 3.  Í síðarnefnda tilvikinu voru einnig til skoðunar jarðstrengsmöguleikar í Hólasandslínu 3. Í báðum tilvikum studdu  úttektirnar niðurstöður Landsnets.

Þegar kemur að jarðstrengjum er ekki um geðþóttaákvarðanir að ræða hjá Landsneti heldur er stuðst við raforkulög varðandi uppbyggingu flutningskerfisins og þar með stefnu stjórnvalda um það hvar beri að skoða jarðstrengi. Enn fremur er nauðsynlegt að líta til þeirra raftæknilegu takmarkana sem raforkukerfið setur jarðstrengslögnum.

Í úttekt Landsnets á lagningu jarðstrengja á hærri spennu í raforkuflutningskerfinu frá árinu 2015 er úttekt á lagningu jarðstrengs á Sprengisandsleið. Þar kemur fram að á 200 km leið sé mögulegt að leggja að hámarki 50 km af 220 kV jarðstreng.  Við höfum verið spurð að því hvers vegna við teljum þá að einungis 3–5 km sé hámark á jarðstrengjalögn á lagnaleið Blöndulínu 3. Meginmunurinn á þessu liggur í styrk kerfisins. Sprengisandslína, ef af verður, mun liggja frá Þjórsár-/Tungnaársvæðinu sem er lang sterkasti hluti kerfisins. Skammhlaupsafl (mælikvarði á kerfisstyrk) er um 5x hærra í Búrfelli en Blöndu og 7x hærra en á tengivirkinu Rangárvöllum sem staðsett er á Akureyri. Auk þess eru möguleikar til spennustýringar á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu mun meiri en í Blöndu. Þeir möguleikar vega afar þungt þegar um er að ræða jarðstrengslagnir.

Blöndulína 3 er hluti af fyrirhuguðu samhangandi kerfi milli Blöndu og Fljótsdals. Leiðin milli Blöndu og Akureyrar er kerfislega veikust og því er svigrúm til jarðstrengslagna þar minnst á þessari leið. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kröflulínu 3 styðst stofnunin við niðurstöður fyrrgreindrar óháðrar úttektar á jarðstrengsmöguleikum í fyrirhuguðu 220 kV flutningskerfi á milli Blöndu og Fljótsdals. Segir stofnunin að ljóst sé að jarðstrengi verði einungis hægt að leggja á mjög afmörkuðum köflum á þessari leið og telur mikilvægt að horft sé heildstætt á línuleiðina alla, milli Blöndu og Fljótsdals, þegar ákveðið verður á hvaða köflum jarðstrengir verði lagðir.

Nánar er fjallað um takmarkanir á jarðstrengslögnum á 220 kV spennu á Norðurlandi í skýrslunni „Jarðstrengslengdir í meginflutningskerfinu – Mat á mögulegum jarðstrengslengdum í nýju 220 kV flutningskerfi á Norðurlandi, kerfisgreining“, gefin út árið 2017. Skýrsluna er hægt að nálgast á www.landsnet.is.  Í skýrslu danska flutningsfyrirtækisins Energinet, „Technical Issues Related to New Transmission Lines in Denmark“, sem kom út í haust er greint frá samskonar takmörkunum á strenglengdum í nýrri línu í Danmörku. Skýrsluna er að finna á heimasíðu þeirra www.energinet.dk.

Það er mikilvægt að taka umræðuna og skiptast á skoðunum um verkefni eins og þetta. Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir máli að framkvæmdir á okkar vegum séu teknar í sátt við samfélagið og þar skipta verkefnaráð fyrir framkvæmdina með helstu hagsmunaðilum miklu máli.  Framundan er að setja slíkt ráð á laggir fyrir Blöndulínu 3 og væntum við mikils af því samstarfi en reyslan af ráðunum, m.a. í Hólasandslínu 3, tengingu á milli Hólasands og Akureyrar, er mjög góð og væntum við þess sama af verkefnaráði Blöndulínu 3.

Bestu kveðjur norður.

Steinunn Þorsteinsdóttir
upplýsingafulltrúi Landsnets.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir