Sauðárkrókur 150 ára - Fyrstu árin undir Nöfum

Byggð að myndast undir Nöfum. Sauðárkrókur árið 1898 (HSk).
Byggð að myndast undir Nöfum. Sauðárkrókur árið 1898 (HSk).

Á þessu ári eru 150 ár síðan Árni Einar Árnason, járnsmiður (klénsmiður), fékk leiguland hjá Einari Jónssyni, bónda og hreppsstjóra á Sauðá, til að koma sér upp þurrabúð undir Nöfum. Settist hann þar að og varð þar með fyrsti ábúandi Sauðárkróks árið 1871. Upphaflega ætlaði Árni að helga sig iðn sinni en fljótlega tók greiðasala yfir þar sem gestir voru tíðir í kaupstaðinn. Fólki fjölgaði hratt og töldust íbúar yfir 500 um aldamótin 1900.

Í Sögu Sauðárkróks, sem Kristmundur Bjarnason tók saman, segir að byggðin á Króknum hafi fyrst verið öll á fremur mjórri malarspildu undir Nöfunum, bröttum malarkömbum upp af bænum, norðan við ós Sauðár, sem þá rann fram úr Sauðárgili og til norðurs um eyrar undir Nöfunum, þar sem nú er íþróttavöllur, sundlaug og tjaldstæði bæjarins. Byggðin færðist síðar suður fyrir ána og rann hún þá gegnum bæinn en síðar var ánni veitt til suðurs þar sem hún kemur úr Sauðárgili og rennur hún nú fyrir sunnan byggðina.

Í sýningarskrá um gömlu verkstæðin sem Byggðasafn Skagfirðinga hýsti er fróðleg samantekt um Sauðárkrók á 19. öldinni og grípum við niður í hana.

„Framan af 19. öld voru verbúðir á mölunum við vestanverðan Skagafjörð, þar sem Sauðáin krækti sér um Flæðarnar á leið til sjávar. Í byrjun árs 1858 fengu kaupmenn leyfi til verslunar við Sauðárkrók. Sunnan við Sauðá, á myndinni, eru torfhús. Það eru gamlar búðir vermanna. Fyrsti íbúinn, sem tók sér fasta búsetu á Króknum, kom þangað árið 1871 og byggði timburhús. Á næstu árum settust fleiri að á mölinni undir Nöfunum. Árið 1898 bjuggu þar um 550 manns, 130 ófermd börn og á 3. tug iðnaðarmanna.

Sauðárkrókur var þá orðinn öflugur verslunarstaður með margþætta þjónustu við íbúa staðarins og fjölmennar byggðir Skagafjarðar. Störf voru einkum tengd verslun, viðskiptum og iðnaði. Mörg hús voru í byggingu samtímis og mikið umleikis. Fram yfir aldamótin 1900 starfaði nærri helmingur vinnufærra karlmanna á Sauðárkróki við iðn- og þjónustugreinar og fjöldi verkamanna vann hjá fyrirtækjum í þorpinu. Margir byggðu afkomu sína af sjósókn, þótt útgerð hafi ekki verið áberandi atvinnuvegur á Króknum eins og í sumum öðrum íslenskum þorpum á sama tíma.

Þorpið undir Nöfunum þótti vel skipulagt. Götur voru beinar og nokkuð breiðar og hús reist meðfram þeim. Ludvig Popp kaupmaður hafði mest áhrif á skipulagið. Aðalgatan lá eftir miðju þorpinu, frá verslunarhúsum hans í norðri, til kirkjunnar í suðri sem var byggð 1892.

Fyrstu hús þorpsins voru reist við Lindargötu. Hvíta stóra húsið á myndinni, næst brekkunni til hægri, er Hótel Tindastóll. Það var byggt 1884, meira og minna úr viðum verslunarhúss sem staðið hafði í Grafarósi frá 1835. Húsið sem Árni Einar Árnason, vert og klénsmiður reisti 1871 var nefnt Fyrsta ból. Það er nú horfið en Erlendarhús, sem stendur norðan við Hótel Tindastól, aðeins framar í götunni, með kvisti, er á sömu lóð. Það var byggt 1874.

Fyrsta verslunarhúsið reis á Króknum 1873. Barnaskóli var settur á fót 1882. Árið 1886 var stofnaður sparisjóður og 1890 var opnað pósthús. Kaupfélag Skagfirðinga hóf starfsemi sína 1889 og setti mikinn svip á byggðina upp frá því. Héraðslæknir settist að á Króknum 1896.

Sýslumaður flutti þangað 1890 frá Gili í Borgarsveit. Með sér flutti hann laglega timburstofu þar sem skrifstofa hans hafði verið. Stofa þessi, er í dag kölluð Gilsstofa og hýsir skrifstofur Byggðasafns Skagfirðinga, á safnsvæðinu í Glaumbæ. Stóra hvíta byggingin á myndinni frá 1898, með flaggstönginni, sunnan Kaupvangstorgs, til vinstri við Hótel Tindastól, er hús Kristjáns Gíslasonar kaupmanns. Búið er að byggja við sýslukontórinn, það er Gilsstofuna, sem orðin er óþekkjanleg miðað við upphaflegt útlit. Saga stofunnar er merkileg heimild um nýtingu húsviða, bygginga og timburflutninga á 19. öld.

Menningarstarf var með miklum blóma á Króknum síðasta áratug 19. aldar og klúbbar og félög störfuðu af þrótti. Leikfélag var stofnað 1888. Hið skagfirska kvenfélag var stofnað 1895 og um svipað leyti varð Ræðuklúbbur Sauðárkróks mikilvirkur félagsskapur, þar sem „heldri“ borgarar ræddu aðkallandi mál. Góðtemplarafélag var stofnað 1898. Það reisti Góðtemplarahúsið 1898 (Gúttó) sem var aðal samkomustaður Sauðkrækinga ásamt Hótel Tindastóli.

Sauðkrækingar höfðu ástæðu til bjartsýni þegar ný öld gekk í garð árið 1900. Þorpið óx og dafnaði og var rómað fyrir fjölbreytt verslunar- og menningarlíf.“

Klénsmiður gerist vert
Bærinn var upphaflega í Sauðárhreppi, en varð að sérstökum hreppi, Sauðárkrókshreppi, árið 1907, sem varð svo Sauðárkrókskaupstaður 1947. Hinn hluti Sauðárhrepps varð að Skarðshreppi.

Í Sögu Sauðárkróks segir um Árna vert: „Þegar Árni flutti til Sauðárkróks ákvað hann að helga sig iðn sinni, eins og áður segir og stunda hvorki landbúskap né sjávarútveg, sem mjög var títt, að iðnaðarmenn hefðu að ígripavinnu. Hins vegar ávað hann að hafa greiðasölu og hýsa gesti, jafnskjótt og húsrúm leyfði. Er þess að vænta, að Sauðárshjónum hafi getizt vel að því, svo mikil var gestanauðin þar. Það hafði reynzt bagalegt, eftir að skipakomum til Sauðárkróks fjölgaði, að lestamenn, er þangað sóttu í lausakauptíð, urðu að hafast við í tjöldum eða undir beru lofti, hvernig sem viðraði. Á þessum árum höfðu bændur jafnan nokkurra daga dvöl í kaupstað, meðan á sumarkauptíð stóð, gjaldvörunni þurfti að koma út í skip og kaupstaðarvarningi í land og binda í klyfjar. 

Ef eitthvað var að veðri, svo að illfært væri milli skips og lands, vildi teygjast úr tímanum og vistin þá kaldsöm á mölinni. Hér bætti Árni fljótlega ú brýnni þörf. Hitt mun sjaldnast hafa verið hans sök, að gestir gerðust stundum háværir í drykkjustofu hans og af hlutust pústrar blátt auga og blóðnasir. Að vísu var Árni drykkfelldur og talinn heldur óeirinn við öl, drakk stundum með gestum sínum, ef hann fékk við komið sökum hlutsemi Sigríðar, sem var hinn mesti skörungur og hafði tekið sér alræðisvald innanstokks.

Um Árna er eftirfarandi vísa, en ókunnugt um höfund og tilefni. Ef til vill hefur einhver varpað henni að honum í drykkjustofunni:
Höggvum, skerum, hengjum vér og rotum
æruskertan amorshrók,
Árna vert á Sauðárkrók.

 

Leiðréttingar
Eyrún Sævarsdóttir, verkefnastjóri hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, hafði samband eftir að greinin hafði birst bæði í blaði og á neti og vildi koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

„Húsið sem Árni vert reisti 1871 var aldrei kallað Fyrsta ból, heldur aðeins Vertshús/Árna verts hús. Hann reisti annað hús neðar á sömu lóð (Lindargata 7) með Theóbald syni sínum árið 1897 sem þeir nefndu Fyrsta ból og stendur það hús enn. Erlendarhús stendur ekki á sömu lóð heldur þremur húsum norðar (Lindargata 13).“

Leiðréttist það hér með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir