Seyðisfjörður – Hvað er til ráða? -14 km jarðgöng eða láglendisvegur

Gangnamunni Norðfjarðarganga í Fannardal.
Gangnamunni Norðfjarðarganga í Fannardal.

Hver er staða Seyðisfjarðar sem samfélags eftir mikil aurflóð úr Strandartindi og velþekkt snjóflóðasvæði úr Bjólfinum, allt frá því í janúar 1882 og snjóflóðið 1885 sem var eitt það mannskæðasta á Íslandi? Hversu mikið landrými er fyrir byggð einstaklinga og þá fyrirtækja aðallega í sjávarútvegi? Smyril-Line hefur boðað að farþegaflutningar i 3-4 mánuði að vetri verði lagðir af. Það er augljóslega ekki arðbært að flytja farþega sjóleiðina milli Evrópu og Íslands yfir háveturinn.

Mánuðirnir mars til október er að mestu greiðfærir fyrir farartæki og fólk um Fjarðarheiði til Egilsstaða með fögru útsýni. Farþegum Norrænu ekki í kot vísað. Jarðgöng til Seyðisfjarðar 14 km löng leysa ekki vandamál farþegaflutninga um Atlandshafið að vetrarlagi. Kostnaður við slík göng er talinn vera frá 42 – 50 milljarða króna. Alls kyns kröfur og reglur um brunavarnir og flóttaleiðir verða verða sífellt meiri í löngum jarðgöngum. Þá er fyrirsjáanlegt að verja mörgum milljörðum í snjóflóða- og aurflóðavarnir svo byggð haldist í Seyðisfirði. Það er ástæða til að staldra við og íhuga stöðuna þjóðin getur ekki borgað hvaða reikninga sem er. Hvað er þá til ráða?

Láglendisvegur til Norðfjarðar

Hægt er að samtengja firðina þrjá, Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Norðfjörð það er góður kostur. Það vinnst margt með jarðgöngum um 4,5 km löngum úr Seyðisfirði undir Hrútatind í Mjóafjörð. Þá vegur um Fjarðarströnd í Mjóafirði til Reykjadals. Jarðgöng úr Gilsártindi um 3,5 – 4 km að lengd undir Hoflaugartindi, en þá er komið út í Norðfjarðarsveit. Frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar væri því rösklega 20 mínútna akstur á sameinað atvinnusvæði. Þar með væri kominn láglendisvegur alla leið um Norðfjarðargöngin undir Hólafjalli sem eru 7908 metra löng til Eskifjarðar og á atvinnusvæðið í Reyðarfirði. Þaðan í framhaldinu er láglendisleið um Fáskrúðsfjarðargöng (tæplega 6 km löng) og suður um til Reykjavíkur.

Reynslan af Norðfjarðargöngum

Hugsanlegur gangnamunni í Hoflaugartindi,
Gunnólfsskarð til hægri.

Reynslan af gangnagerðinni (Norðfjarðargöngum) undir Hólafjalli er góð þar sem bergtegundir voru mjög ákjósanlegar til gerðar gangna, reynslan sýnir það afdráttarlaust. Berglögin frá síð- og miðmíósen 10-15 milljón ára gömul einn elsti hluti Íslands. Sömu bergtegundir eru í hugsanlegum tvennum jarðgöngum sem nefnd hafa verið. Það er margt sem bendir til þess að valkosturinn með láglendisvegi yrði allt að 20 milljörðum króna lægri en 14 km göng undir Fjarðarheiði. (Vaðlaheiðargöng 7500 metra löng áttu að kosta 8 milljarða en urðu endanlega 18 milljarðar. Hvað fór úrskeiðis þar?). Það er nokkuð augljóst að ef ráðist verður í 14 km jarðgöng undir Fjarðarheiði verður óratími í tengingu milli fjarðanna þriggja sem fjölmargir styðja sem besta valkostinn. Fagridalur í 350 metra hæð yfir sjó væri enn til staðar með þeim takmörkunum á vetrum sem honum fylgir, þegar farið er frá Seyðisfirði til atvinnusvæðisins í Reyðarfirði.

Laxeldi á landi í Mjóafirði

Frá Reykjadal á suðurströnd Mjóafjarðar til austurs er mikið og gott landsvæði til laxeldis og væntanlega kjörið svæði fyrir stórfyrirtæki eins og Síldarvinnsluna sem er í fararbroddi í laxeldi á landi. Jarðgöng undir Hoflaugartind til Gilsártinds væri gott fyrsta skref til láglendisvegar til Seyðisfjarðar. Það eru ótal möguleikar sem skapast við slíka fyrstu framkvæmd. Fólkið á Brekku í Mjóafirði og nágrenni kæmist árið um kring leiðar sinnar og búseta myndi eflast á svæðinu. Það er rík áhersla að staldra við og íhuga þá valkosti sem hér hafa verið nefndir. Opin umræða er sjálfsögð um slík stórverkefni sem hér er til umfjöllunar. Enn er svigrúm til skynsamlegrar niðurstöðu.

Áhugamaður um samgöngur víða um land í áratugi
Hörður Ingimarsson

Áður birst í 9. tbl.  Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir