Síðasta prófkjörið
17 einstaklingar hafa gefið kost á sé í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi sem fram fer næstkomandi laugardag.
Mikið af hæfu fólki býður fram krafta sína og þar á meðal er Ásbjörn Óttarsson sem gefur kost á sér í forystusæti.
Ásbjörn er dugmikill og öflugur landsbyggðarmaður sem hefur mikla reynslu, bæði úr atvinnulífinu og af sveitarstjórnarmálum. Honum treysti ég til að láta rödd landsbyggðarinnar heyrast við Austurvöll.
Ásbjörn er hreinn og beinn og kemur ávallt til dyranna eins og hann er klæddur og þá ekki alltaf í sparifötunum, hann hefur sterkar skoðanir og kemur þeim á framfæri þannig að eftir er tekið.
Mér finnst nauðsynlegt að þeir sem bjóðast til að leiða landið okkar uppúr þessum öldudal hafi einhverntíman orðið svangir, einhvertíman kalt, einhverntíman blankir og unnið í óstraujuðum fötum.
Ásbjörn uppfyllir allt þetta og þá hefur hann sterka hugsjón og kraft sem þarf til að framkvæma hana.
Þetta afl þarf að virkja
Nýafstaðin eru prófkjör hjá flestum flokkum þar sem þáttakan var afar dræm. Einhverra hluta vegna hugnast fólki frekar að berja potta og pönnur til að fá fram breytingar en að taka þátt í prófkjöri.
Hvet ég Sjálfstæðisfólk í Norðvesturkjördæmi að nýta sér það tækifæri sem nú gefst til að hafa áhrif á hverjir veljast til forystu og taka þátt í prófkjörinu á laugardaginn.
Símon Sturluson Stykkishólmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.