Skagafjörður í sýndarveruleikamyndbandi um minnkun matarsóunar með þrívíddarprentun matar úr fiskafgöngum

Aðsendar myndir.
Aðsendar myndir.

Framtíðareldhúsið, eða Future Kitchen, er ný myndbandssería sem gerð er af Matís. Verkefnið, sem styrkt er af EIT Food, er fræðsla um sjálfbærni, uppruna matar, leiðir til minnkunar matarsóunar og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Meðal annars má fræðast um það hvernig þrívíddarprenta má fagurlega löguð matvæli úr næringarríkum fiskiafgöngum sem annars færu til spillis.

Fræðslu þessari er miðlað á lifandi og raunverulegan hátt, meðal annars með sýndarveruleikaupplifun. Upplifa má í einu sýndarveruleikamyndbandinu fiskveiðar á íslenskum miðum, nánar tiltekið í Skagafirði, þar sem áhorfandinn upplifir sig staddan úti á skagfirskum miðum, í bát Hrólfs Sigurðssonar MÁ SK-90, þar sem Hrólfur dregur fisk í bátinn. Áhorfandi sýndarveruleikamyndbandsins getur virt Hrólf fyrir sér í návígi, en einnig himin og haf og allt umhverfi bátsins í 360°. Í næstu senu myndbandsins er áhorfandinn staddur í fiskvinnslu og síðast fylgist hann með þrívíddarprentara þar sem fiskafgangar, sem annars færu til spillis, enda sem fagurlega formuð þrívíddarprentuð matvæli. Viðhorfskannanir á vegum verkefnisins, framkvæmdar hérlendis af Matís og í Englandi af Cambridgeháskóla, sýna fram á að áhorfendur eru afar ánægðir með þá upplifun sem sýndarveruleikaumhverfið sem menntunarleið gefur, en sýndarveruleikagleraugu gefa besta upplifun og tilfinningu fyrir því að áhorfandinn sé sjálfur staddur í miðju myndbandinu og fylgist með framgangi mála á staðnum.

Verkefnið Future Kitchen er leitt af Matís í samstarfi við Cambridgeháskóla, EUFIC, Evrópuráð nýsköpunar á sviði matar, og framsækin evrópsk fyrirtæki, en verkefnið er stutt af EIT Food, Evrópustofnun fæðu með áherslu á nýsköpun og sjálfbærni, sem starfrækt er undir EIT, Evrópustofnun um nýsköpun og tækni, á vegum Evrópusambandsins. Myndböndin eru öllum aðgengileg til fróðleiks, upplifunar og skemmtunar á vefsíðunni FoodUnfolded (www.foodunfolded.com) ásamt öðrum fróðleik um framfarir tengdar mat og uppruna matar.

 

Rakel Halldórsdóttir. 
Höfundur er ráðgjafi hjá Matís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir