Skagafjörður og Ísland allt

Einhverra hluta vegna hafa ýmis framfaramál í Skagafirði ekki fengið umfjöllun við hæfi, nema einstaka mál sem hafa tímabundið hlotið náð fyrir augum ráðherra vegna þess að stutt er í alþingiskosningar. Reglulega hafa íbúar viðrað áhyggjur sínar vegna vegarins milli Fljóta og Siglufjarðar. Jarðskrið vegarins um Almenninga eru hættumerkin og hugsanlega er bara spurning um hvenær, fremur en hvort, stór hluti hans fellur í sjó fram. Slíkt gæti gerst fyrirvaralaust í jarðskjálfta og væru þá mannslíf í húfi auk lokunar vegtengingar við Siglufjörð. Þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um framkvæmdir í vegakerfinu er það skylda þeirra að taka tillit til hættulegra aðstæðna eins og þarna eru og skoða samhengi hlutanna. Ný jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar eru skynsamlegasta lausnin og verða að komast á dagskrá hið fyrsta.

Á undanförnum árum hefur af og til komið upp sú staða að veður og færð hamla umferð um Öxnadalsheiði. Ekki er ásættanlegt að gera ekkert í málinu, ekki síst þegar íslensk stjórnvöld hafa mörg undanfarin ár verið að færa þjónustu frá smærri þéttbýlisstöðum til hinna stærri. Til að mynda þarf fólk að sækja meiri og meiri heilbrigðisþjónustu til Akureyrar vegna fjársveltis Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki og í öðrum bæjarfélögum. Lokað var fyrir fæðingarþjónustu á Sauðárkróki fyrir allmörgum árum og upp hafa komið mál þar sem konur hafa þurft að eiga börn sín í bílum á leiðinni til Akureyrar vegna ófærðar á Öxnadalsheiði. Slík staða er óásættanleg með öllu og með ólíkindum að ekki skuli nú þegar verið búið að gera jarðgöng undir heiðina. Slík göng hafa verið í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar allt frá árinu 2000 þar sem tveir valmöguleikar eru nefndir, annarsvegar stutt göng sem taka af háheiðina og myndu kosta um 2 milljarða.

Hinn möguleikinn er svo göng undir alla heiðina og hljóðar kostnaður uppá 5,5 milljarða í áætluninni. Ekki þarf að fara í neinar vegaframkvæmdir samfara þessum göngum eins og á við um aðra margfalt dýrari kosti sem komið hafa í umræðuna, en þjóðvegur 1 beggja vegna Öxnadalsheiðar er mjög góður, enda nýlegur að hluta. Þá er vegurinn um Norðurárdal afar snjóléttur og þarfnast sjaldan moksturs. Þjóðhagsleg hagkvæmni og öryggi ganga undir Öxnadalsheiði er ótvírætt og fullyrða má að þau borgi sig upp á stuttum tíma.

Malarvegir Skagafjarðar – á náttúruminjaskrá?

Vegir í Skagafirði hafa ekki verið hátt skrifaðir þegar fjármunum hefur verið útdeilt úr hendi ráðamanna. Malarvegir hafa nánast ekkert viðhald fengið og það farið minnkandi miðað við líðandi sumar. Slíkir vegir eru um allan fjörð, allt frá Fljótum og Skaga, í Hjaltadal, Hegranesi, Sæmundarhlíðinni og fram í Lýtingsstaðahreppi hinum forna og á Kjálka í Akrahreppi og víðar. Þá eru ótaldir fáfarnari vegir heim að bæjum sem hafa ekkert viðhald fengið. „Malarvegir“ í héraðinu standa oft ekki undir nafni því stundum er um að ræða moldarslóða eða stórgrýtisurð sem margoft hefur valdið skemmdum á bílum vegfarenda. Tími er til kominn að „malarvegir“ komist á dagskrá yfirvalda og að markvisst verði farið að leggja á þá bundið slitlag og á sama tíma viðhaldi þeirra sinnt almennilega. Í millitíðinni er eðlilegt að íbúar, sem ekki fá eðlilega þjónustu ríkisvaldsins í viðhaldi vega og verða jafnvel oft á tíðum fyrir tjónum á bifreiðum sínum og meira sliti, fái skattaafslátt í samræmi við stefnu Miðflokksins um „Jafnræði óháð búsetu fyrir alla“.

Reiðvegir Skagafjarðar

Umferðaröryggismál þarfnast endurskoðunar yfirvalda. Ekki dugir að fara af stað korter í kosningar með átak í þeim málaflokki til sjálfsupphafningar og atkvæðaveiða ráðherra. Ekki síst þegar þær hundruðir milljóna sem notaðar voru til verksins reyndust hafa verið teknar úr viðhaldsfé vega og þar með öryggismál fáfarnari vega skert sem því nemur. Eitt er umferðaröryggismálið sem alls ekki hefur hlotið náð hjá ráðherra, en það eru reiðvegir meðfram vegum landsins. Þeir eru alltof fáir og lélegir í Skagafirði, Mekka hestamennskunnar á Íslandi. Reiðvegir eru ekki einkamál hestamanna heldur fyrst og fremst umferðaröryggismál sem ber að sína tilhlýðilega virðingu í stað afskiptaleysis sem lengi hefur verið stundað. Gera þarf úttekt á reiðvegamálum í héraðinu, forgangsraða eftir bíla- og hestaumferð og setja í gang uppbyggingu reiðvega hratt og örugglega. Þá hafa gamlir ónýtir slitlagsvegir í firðinum valdið hættu fyrir vegfarendur árum saman og mál að linni. Vegurinn í Hjaltadal, vegurinn um út-Blönduhlíðina og vegurinn sunnan við Varmahlíð hafa ekkert viðhald eða endurnýjun fengið svo árum skiptir. Þessir vegir þurfa endurnýjunar við, en ekki dugir að lappa eingöngu upp á allra fjölförnustu vegi og skilja hina eftir áratugum saman.

Samfélagið í Skagafirði

Horfa þarf til alls samfélagsins í Skagafirði með það í huga hvernig það virkar fyrir mismunandi svæði innan þess. Um leið þarf að reyna að tryggja að atvinnu- og þjónustusvæðið Skagafjörður virki sem ein heild. Til að mynda má skoða hvort tækifæri felist í betri vegtengingum innan héraðs sem bæta myndu þjónustuleiðir, auka möguleika ferðaþjónustu og bæta hag íbúanna. Einn er sá kostur sem kemur í hugann sem uppfyllti allt slíkt, en vegtenging frá innanverðum Lýtingsstaðahreppi yfir á Kjálkaveg í Akrahreppi yrði mikil lyftistöng fyrir innanverðan Skagafjörð og á ýmsan hátt fjörðinn allan. Við þetta opnaðist ný leið fyrir alla þjónustuaðila við heimilin og fyrirtækin ásamt því að ný tækifæri myndu opnast fyrir ferðaþjónustuaðila.

Ný hringtenging myndi auka umferð ferðamanna í gistingu og afþreyingu og tenging við hina ýmsu hálendisvegi myndu opnast betur. Þá myndu flúðasiglingafyrirtæki okkar Skagfirðinga fá nýja leið að jökulsánum svo þau þyrftu ekki lengur að keyra um hlaðið á þremur sveitabæjum sem hefur verið óþægilegt fyrir þá sem þar búa. Að endingu ber að nefna að slík leið eykur öryggi íbúa og ferðamanna á svæðinu því þá opnast önnur leið út af því og leiðin styttist sömuleiðis á sjúkrahúsið á Akureyri ef alvarleg slys eða veikindi koma upp.

Ísland allt

Miðflokkurinn hefur sett fram áætlunina Ísland allt, en það er stórtækasta áætlun sem kynnt hefur verið til að efla byggðir landsins alls. Grunnhugmyndin er sú að allir landsmenn eigi rétt á sömu þjónustu og lífsgæðum óháð búsetu. Það virðist augljóst að þannig eigi það að vera, en Miðflokkurinn er með skýra áætlun um hvernig það geti orðið að veruleika.

Áætlunin snýst um að líta á heildarmyndina, ekki bara afmarkaðan landshluta eða eitt svið atvinnu, innviða eða þjónustu. Með því að líta á heildaráhrifin og langtímaáhrifin getum við leyft okkur að ráðast í miklar fjárfestingar í þeirri vissu að eitt muni styðja annað og áhrifin verði á endanum hagkvæm fyrr allt Ísland. Allt helst þetta í hendur, heilbrigðismál, menntun og önnur þjónusta ríkisins, samgöngur, nýir hvatar í skattkerfinu, atvinnuuppbygging, orkumál, fjarskipti og annað sem varðar daglegt líf fólks.

Kosið verður til Alþingis næstkomandi laugardag. Þá höfum við kjósendur möguleika á að hafa áhrif á hvernig stjórn landsins verður næstu fjögur árin, hvaða stefna verður valin inn í framtíðina.

  • Ef við viljum breytingar fremur en stöðnun er Miðflokkurinn eina aflið til jákvæðra breytinga fyrir samfélagið allt.
  • Ef við viljum ekki áframhaldandi hnignun landsbyggðarinnar með hækkandi sköttum sem í mörgum tilfellum bitna sérstaklega landsbyggðafólki er valið einfalt því Miðflokkurinn mun ekki láta það gerast.
  • Ef við viljum koma í veg fyrir áframhaldandi öfgahyggju, með stofnanavæðingu og lokun hálendisins fyrir almenningi, eftir geðþótta ókjörinna embættismanna og alræðisvaldi ráðherra til frekari eignaupptöku lands kjósum við Miðflokkinn sem einn flokka stendur raunverulega gegn ríkisvæðingu hálendisins.
  • Ef við viljum koma í veg fyrir áframhaldandi hnignun íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa staðið fyrir kjósum við Miðflokkinn, eina flokkinn sem hefur sett fram raunhæfa og trúverðuga landbúnaðarstefnu í 24.liðum sem miðar að stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggu og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi landbúnaðar.
  • Ef við viljum að við séum öll jafnrétthá og samstíga inn í framtíðina, eins og við höfum öll barist saman við alheimsfaraldur veiru, þurfum við að kjósa Miðflokkinn sem einn flokka hefur raunverulegan hag heildarinnar að leiðarljósi í stefnumálum sínum eins og fram kemur í 10 áhersluatriðum flokksins fyrir kosningarnar um næstu helgi.

Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

Högni Elfar Gylfason
Höfundur skipar 5.sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Tilvísanir:
https://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Jardgangnaaaetlun/$file/jardg_aaetlun.pdf
https://www.althingi.is/altext/151/s/0042.html
https://www.midflokkurinn.is/static/files/10-ny-rettindi-fyrir-islensku-thjodina.pdf

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir