Spurning um forgangsröðun - þarf eitt að útiloka annað?

Forstöðumenn safna-Berglind Þorsteinsdóttir, Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Sólborg Una Pálsdóttir
Forstöðumenn safna-Berglind Þorsteinsdóttir, Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Sólborg Una Pálsdóttir

Hvers vegna þarf að forgangsraða einu umfram annað og stilla upp tveimur valkostum um hvort sé mikilvægara fyrir samfélagið – menntastofnanirnar eða menningarstofnanirnar? Getum við ekki sammælst um að starfsemi beggja sé mikilvæg og hlúa þurfi að hvoru tveggja? Jafnvel væri ráð að fagna þeirri meðgjöf sem framkvæmdir munu hljóta frá stjórnvöldum í stað þess að stilla þeim upp á móti hvorri annarri og afþakka það fjármagn sem ríkið mun leggja fram til nauðsynlegra framkvæmda. Ljóst er að annað hvort þarf sveitarfélagið að standa straum af öllum kostnaði við varðveislurými eða fá til þess stuðning frá ríkinu í formi framlags til menningarhúss.

Forstöðumenn safnanna í Skagafirði fundu sig knúna til að setja á blað nokkur orð til að svara ummælum sem hafa verið látin falla í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum af kjörnum fulltrúum í Skagafirði undanfarna daga, varðandi bætta aðstöðu safnanna í Skagafirði í nýju menningarhúsi sem á að rísa á Sauðárkróki. Við hörmum að kjörnir fulltrúar skuli smætta hlutverk og starfsemi safnanna í Skagafirði á þann hátt að fjalla um þau sem „dýra geymslu“. Varðveislurýmin eru hryggjarstykkið í faglegu starfi safnanna. Það að fá sameiginlega aðstöðu myndi efla samstarf þeirra, rannsóknir, miðlun og viðburðahald.

Neikvæð umræða undanfarna daga og misseri um menningarhús veldur okkur verulegum vonbrigðum. Söfnin í Skagafirði eiga það sameiginlegt að vera með elstu söfnum sinnar tegundar á landinu. Nýlega fagnaði byggðasafnið 75 ára afmæli sínu, héraðsbókasafnið fagnar 120 ára afmæli sínu í ár og héraðsskjalasafnið er það elsta í landinu, 78 ára. Metnaður, framsækni og fagmennska hefur einkennt starfsemi safnanna sem hefur vakið athygli á landsvísu.

Orðalag í bókun VG og óháðra af byggðaráðsfundi sl. miðvikudag, þar sem orðrétt segir um fyrirhugað menningarhús: „Miðað við þessa rýmisgreiningu verður þetta dýr geymsla byggð á þeim fölsku forsendum að hægt sé að kalla þetta menningarhús“ lýsir í besta falli skilningsleysi á starfsemi safnanna. Í bókun VG og óháðra er réttilega bent á að Skagafjörður sé ríkur af listafólki og listhópum sem „efla og prýða menningu samfélagsins okkar,“ en það viðhorf skín í gegn að kjarnastarfsemi safnanna geri það hins vegar ekki og er vart hægt annað en að undrast yfir því viðhorfi kjörinna fulltrúa.

Þörf Byggðasafns Skagfirðinga fyrir varanlegt varðveislurými undir safnkostinn er afar brýn! Bráðabirgðavarðveislurýmið sem nú hýsir safnkost safnsins er smekkfullt og hefur safnið ekki getað tekið á móti stærri gripum undanfarin ár og mun það ekki vera mögulegt fyrr en í fyrsta lagi eftir 2027, þegar nýtt varðveislurými í menningarhúsinu verður tekið í notkun. Þá er fjöldi gripa óaðgengilegur til rannsókna og sýninga vegna þess hversu þétt er raðað í húsnæðinu. Þá steðjar einnig hætta að þeim þúsundum gripa sem safnið varðveitir vegna nálægðar við bifreiðaverkstæði í sama húsi, en bifreiðaverkstæðum fylgir stóraukin eld- og mengunarhætta sem safnkosti Byggðasafns Skagfirðinga stendur ógn af. Tjón á safnkosti er alltaf mikið áfall fyrir samfélagið því safnkosturinn er ávallt samsettur af safngripum sem eru einstakir eða hafa einstakt sögugildi. Samkvæmt niðurstöðum eftirlitsaðila á vegum Safnaráðs þá kemur rekstur bifreiðaverkstæði í veg fyrir að safnið uppfylli skilyrði Safnaráðs hvað varðar húsnæði viðurkenndra safna, en safnið fékk frest út árið 2021 til að flytja út úr núverandi húsnæði og er því runnið út á tíma.

Varðveislurými héraðsskjalasafnsins er einnig löngu sprungið og mun safnið ekki geta sinnt lögbundinni skildu sinni án stærra varðveislurýmis, þar með talið að taka á móti gögnum sveitarfélagsins og stofnanna þess frá síðustu 30 árum. Sömu sögu er að segja um bókasafnið, þar sem rými til afgreiðslu og útlána er engan veginn í takt við starfsemi bókasafna sem gegna eiga hlutverki samfélagsmiðstöðva í nútíma samfélagi. Listasafnið býr einnig við þröngan kost og án eiginlegs sýningarrýmis.

Áform um menningarhús á Sauðárkróki hafa verið pólitískt þrætuepli í áratugi og hefur það tafið fyrir framkvæmdum og viðhaldi á núverandi safnahúsi svo um munar. Með samningi við ríkið um menningarhús í Skagafirði sem var gerður árið 2005, í tíð meirihluta Sjálfsstæðismanna og Vinstri grænna, var mörkuð sú stefna að gera Miðgarð upp og byggja við Safnahúsið. Þar skyldi vera „menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, sem hýsi m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn, skjalasafn og safnageymslur” eins og segir í greinargerð um málið frá 2004. Byrjað var á framkvæmdum við Miðgarð en framkvæmdum við Safnahúsið var frestað ekki síst að beiðni ríkisins. Árið 2016 kom aftur hreyfing á málið og stofnaður var þarfagreiningarhópur sem starfaði til 2019. Í þessum hópi voru fulltrúar frá söfnunum auk kjörinna fulltrúa úr öllum flokkum, þar með töldum fulltrúa Byggðalista og VG og óháðra. Að lokinni vinnu var niðurstöðum skilað til Mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þarfagreiningarhópurinn var sammála um að vinna eftir áðurnefndri stefnumörkun með einni undantekningu, nú skyldi bæta sviðslistasal við fyrirhugað menningarhús. Árið 2023 var loksins ritaður samningur við Menningar- og viðskiptaráðuneytið um framkvæmdina. Þetta er sá tími sem það tók að koma málinu á þann stað sem það er í dag. Ef ætlunin er að hverfa frá eða fresta framkvæmdinni á þessum tímapunkti er ljóst að málið er aftur komið á byrjunarreit.

Markmiðið með menningarhúsinu er að þar verði mikið líf og miklir möguleikar fyrir menningarlíf í Skagafirði. Við sjáum fyrir okkur ótal tækifæri í safnfræðslu og samstarfi við leik-, grunn- og framhaldsskólana þar sem krakkar og ungmenni á öllum aldri geta komið í varðveislurýmið, skoðað safnkostinn og unnið verkefni því tengdu. Sömuleiðis verði listviðburðum gert hátt undir höfði með langþráðu rými fyrir listasýningar og sviðslistir. Við teljum að menningarhúsið yrði einmitt límið sem þarf til að styrkja og efla tenginguna á milli safnanna og menntastofnananna í Skagafirði.

Fátt er meira fjarri okkur en að vilja etja menntun og menningu saman sem andstæðum pólum enda um náskyld fyrirbæri að ræða. Þegar kjörnir fulltrúar gagnrýna hver forgangsröðin eigi að vera í útgjöldum sveitarfélagsins söknum við tillagna um lausnir í húsnæðismálum safnanna og þeim brýna vanda sem að þeim steðjar. Það er ljóst að við núverandi aðstæður er safnastarf í hættu og við það verður ekki unað mikið lengur.

 

Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga

Kristín Sigurrós Einarsdóttir forstöðumaður Héraðsbókasafns Skagfirðinga

Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga og forstöðumaður Listasafns Skagfirðinga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir