Sterkari Skagafjörður fyrir eldri borgara

Á næsta kjörtímabili viljum við í Framsókn ráðast í samstarf við heilbrigðisráðuneytið um fjölgun hjúkrunar- og dvalarrýma á Sauðárkróki og skoða möguleika á þjónustuíbúðum og stækkun dagdvalar.

Undir forystu Framsóknar hefur verið gerður nýr samningur Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðaþjónustu. Um er að ræða samning til þriggja ára og er heildarfjármagnið um 130 milljarðar króna. Unnið verður að verkefnum sem miða að bættu rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auknum gæðum á þjónustu þeirra. Um 60 hjúkrunarrými á Húsavík eru í byggingu og framkvæmdir að hefjast á Ísafirði þar sem bætt verður við 10 rýmum. Nauðsynlegt er að næsta skref verði tekið á Sauðárkróki og farið verði í fjölgun rýma sem byggð er á þarfagreiningu á bæði hjúkrunarrýmum og hugsanlega þjónusturýmum.

Fjölga þarf hjúkrunar- og dvalarrýmum

Biðlistar eru eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki og er sá vandi ekki nýr af nálinni. Við greiningu á núverandi húsnæði er ljóst að þörfin á fjölgun hjúkrunarrýma er brýn. Huga þarf að fjölgun hjúkrunarrýma sem fyrst vegna biðlista og vöntunar á fullnægjandi rýmum miðað við ríkisheimildir. Miðað við mannfjöldaspá mun hópur fólks yfir 65 ára tvöfaldast frá því sem hann er til ársins 2035 og því blasir við að þörfin mun enn aukast á komandi árum. Þess má þó geta að þessi misserin er verið að vinna við endurbætur á núverandi hjúkrunarrýmum en þau eru barn síns tíma, mörg tvíbýli og sum án salernis. Ákveðnum áfanga var náð þegar farið var í endurnýjun á eldri rýmum en það dugar ekki til og ljóst að við þurfum fleiri rými.

Markmiðið með fjölgun rýma er að auka þjónustu við aldraða á svæðinu og veita þeim möguleika á að komast í öruggt umhverfi. Áherslan í dag er á að á hjúkrunarheimilum sé skapaðar aðstæður sem líkjast heimilum fólks og að umhverfi sé vistlegt.

Bætum lífsgæði eldra fólks

Samkvæmt stefnu heilbrigðisyfirvalda þá er markmiðið að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og kostur er. Því þarf að fylgja eftir með auknu fjármagni til eflingu þeirrar stoðþjónustu sem fyrir er svo slíkt geti orðið. Margir búa einir en vilja komast í húsnæði þar sem þeir búa við aukið öryggi en hafa ákveðið sjálfstæði. Þjónustuíbúðir eru einn valkostur þar sem fólk getur búið lengur sjálft en þó með aukinni þjónustu. Skoða þarf einnig þann möguleika í tengslum við uppbyggingu hjúkrunarrýma, þ.e. hvort hægt sé að koma því við að bjóða upp á slíkt úrræði samhliða.

Í tengslum við uppbyggingu hjúkrunarrýma hefur í sumum tilfellum hluti húsnæðisins verið skipulagður undir aðstöðu fyrir félagsstarf og aðra þjónustu sem þjónar ekki aðeins íbúum hússins heldur öðrum eldri borgurum á svæðinu. Opnast við það möguleiki á stækkun rýmis fyrir dagdvöl aldraðra en sú þjónusta er einn liður í því að gera einstaklingum auðveldara að vera lengur heima og styður það við stefnu stjórnvalda.

Við í Framsókn viljum að eldri borgurum líði vel í Skagafirði.

Hrund Pétursdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir