Sterkur Skagafjörður

Skagafjörður er góður búsetukostur enda sveitarfélagið bæði víðfeðmt og fallegt með fullt af möguleikum. Einn megin styrkur atvinnulífs í Skagafirði er hversu blandað atvinnulífið er. Í grunninn erum við framleiðslusamfélag sem byggir á landbúnaði og sjávarútvegi en samhliða því höfum við einnig byggt upp öflugt þjónustusamfélag þar sem bæði starfar mikið af sjálfstæðum fyrirtækjum en einnig opinberar stofnanir.

Þessi trausti grunnur tryggir fjölbreytt atvinnulíf sem síðan er grundvöllur fyrir allri þjónustu sem íbúar þurfa á að halda í sínu daglega lífi. Þar má nefna byggingafyrirtæki, hárgreiðslustofur, verkfræðistofur og ýmis konar verslanir og þjónustu sem gengur vel vegna þess að grunnstoðir atvinnulífsins eru í lagi.

Við sem bjóðum okkur nú fram fyrir Framsókn í komandi sveitarstjórnarkosningum leggjum áherslu á að halda áfram að efla og tryggja góða innviði í öllu sveitarfélaginu. Það ætlum við að gera meðal annars með því að hefja uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð samkvæmt fyrirliggjandi áætlun. Fara í hönnun á nýjum leikskóla fyrir yngra stig Ársala á Sauðárkróki en byggður var nýr leikskóli á Hofsósi á kjörtímabilinu sem er að líða og nú er unnið að lokafrágangi nýrrar viðbyggingar við eldra stig leikskólans Ársala á Sauðárkróki. Einnig er ætlunin að byggja nýtt húsnæði fyrir tónlistarskólann við Árskóla á Sauðárkróki og halda áfram endurbótum á Grunnskólanum austan Vatna, svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta mikilvæg verkefni sem tryggja íbúum um allan fjörð gott aðgengi að góðum leik- og grunnskólum.

Einnig þarf að vera tryggt að nægt framboð sé af lóðum í þéttbýliskjörnum héraðsins og á það jafnt við um lóðir fyrir einbýlishús, parhús og raðhús en minni fjölbýlishús eru líklegust til að uppfylla kröfur og markmið um t.d. hlutdeildarlán sem er góð leið fyrir þá sem eru tekjulágir en vilja frekar kaupa sína fyrstu íbúð en leigja. Mikil vinna hefur verið í gangi við skipulag og hönnun íbúðalóða á Sauðárkróki, Hofsósi, Varmahlíð og á Steinsstöðum. Þessari vinnu þarf að ljúka og tryggja jafnframt að framboðið verði nægjanlegt áfram en skipulagsferlar í kringum hönnun nýrra gatna eru tímafrekir.

Aukin ásókn hefur verið í byggingu á iðnaðarhúsnæði á Sauðárkróki og er það gott en með nýju aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar er búið að leggja grunn að nýjum svæðum fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Þessi svæði þarf að vinna með áfram þannig að atvinnurekendur hafi aðgang að lóðum fyrir uppbyggingu á atvinnuhúsnæði.

Ég hef mikla trú á framtíð Skagafjarðar og er það sannfæring mín að mikilvægt sé að tryggja öfluga búsetu í bæði dreifbýli og þéttbýli. Það gerir héraðið sem heild sterkara. Skagafjörður hefur upp á mörg tækifæri að bjóða og við verðum að nýta þau með það að markmiði að hér byggist áfram upp fjölbreytt atvinnulíf og gott mannlíf.

Það er megin markmið okkar sem bjóðum fram fyrir Framsókn í komandi sveitarstjórnarkosningum í Skagafirði að tryggja öfluga innviði fyrir íbúa og atvinnulíf um allan Skagafjörð. Við biðjum því um þinn stuðning til að við getum áfram leitt öfluga uppbyggingu í Skagafirði. Merkið X við B á kjördag.

Einar E. Einarsson
oddviti lista Framsóknar í sveitarstjórnarkosningum 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir