Stjórnar hlaðvarpsþættinum FantasyGandalf - Frá morgni til kvölds Hugi Halldórsson

Hugi Halldórsson á toppi Table fjalls í Suður Afríku
Hugi Halldórsson á toppi Table fjalls í Suður Afríku

Króksarann Huga Halldórsson þekkja margir sem Ofur-Huga í skemmtiþáttunum 70 mínútum sem vinsælir voru á Popptíví á árunum 2000 til 2004 en eftir skólaárin á Króknum flutti kappinn suður og býr nú í Garðabæ. Lengi vel rak hann Stórveldið og síðar Heimsveldið sem framleiddi mikið af innlendu sjónvarpsefni en nú einbeitir hann sér að sportþætti sínum á hlaðvarpi, eða podcast, sem enginn íþróttaáhugamaður ætti að láta framhjá sér fara. Hann er hægt að finna undir nafninu Fantasy Gandalf. Hugi segir okkur frá því hvernig dagurinn líður frá morgni til kvölds.

Starf: Þáttastjórnandi í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf.

Hvenær byrjaðir þú í þessu starfi: Sumarið 2018 ákvað ég að reyna gera sem minnst og fá sem mest fyrir það. Fannst alveg galin hugmynd að láta vinnuna slíta sundur daginn hjá mér enda margt mikilvægara en vinnan.

Við hvað vannstu áður: Var sölustjóri hjá Vodafone í nokkur ár, þar áður í eigin rekstri í 10 ár.

Hvenær hefst venjulegur vinnudagur hjá þér? Vakna kl.07:30 og handstarta krökkum og konu á fætur. Kem þeim svo í skóla kl.09, fer í ræktina til kl.11, skoða tölvupósta, jafnvel sendi 2-3 pósta úr símanum, set í vél, brýt saman þvott, ryksuga og ditta að öðrum heimilisverkum. Á fimmtudögum er mesta álagið í starfinu frá kl.09-12 þá er ég að taka upp hlaðvarpsþáttinn minn FantasyGandalf...allir að subskræba.

Hvað færðu þér í morgunmat? Langoftast Havre Fras með léttmjólk. Stundum nenni ég að elda hafragraut af því það er ekki svo tímafrekt. Reyndar er ég ekki tímabundinn þannig að ég mætti elda grautinn oftar.

Hvernig myndir þú lýsa venjulegum vinnudegi hjá þér? Lítið álag, helst ekki neitt. Mjög þægilegt að segja mér til, ég á auðvelt með að fara eftir því sem ég segi.

Hvað er gert í kaffitímum? Ég er meira og minna í kaffi allan daginn, þannig bara spurning hvernig liggur á mér hvaða verkefni ég tek að mér í kaffinu. Stundum gott að hringja í vini mína sem eru fastir í vinnu

Hvernig eyðir þú hádegishléinu? Ég reyni kannski að hitta einhvern upp úr kl.11:30 þá helst í 2-3 klukkutíma áður en ég sæki börn í skóla uppúr kl.14.30

Hvað er best við starfið? Fyrir utan að þurfa ekki að gera neitt þá er voða þægilegt að hafa allt spik og span heima. Við hjónin höfum ekki rætt heimilisstörf síðan ég tók þau yfir með valdi. Það eru svo forréttindi að sækja börnin snemma og dunda með þeim eitthvað skemmtilegt fram að kvöldmat.

Ef þú þyrftir að skipta um starf hvað gætir þú hugsað þér að gera? Ég mundi vilja vera bassaleikarinn í U2. Grunar að það sé auðveldara en starfið mitt í dag.

Eitthvað minnisstætt úr vinnunni sem þú vilt deila með lesendum? Já það læddust einu sinni rauðar nærbuxur af frúnni með hvítum þvotti. Ég ákvað að vera ekkert að segja henni frá því enda eru töluverðar líkur á því að ég eigi sökina. Það hefur ennþá enginn á heimilinu minnst á að það vanti hluta af hvíta fatasafninu þeirra þannig ég slapp vel.

Áður birst í 13. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir