Stóðréttir - Kristinn Hugason skrifar

Myndatexti: Laufskálarétt árið 1986. Ljósmynd úr safni SÍH tekin af Sigurði Sigmundssyni.
Myndatexti: Laufskálarétt árið 1986. Ljósmynd úr safni SÍH tekin af Sigurði Sigmundssyni.

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
Eins mig fýsir alltaf þó
aftur að fara í göngur.
(Jónas Hallgrímsson)

Göngur og réttir eru gildur þáttur íslenskrar þjóðmenningar og við sem höfum vanist því að búfé gangi frjálst á afréttum getum varla hugsað okkur annan hátt þar á og teljum raunar mörg hver að frjálsræðið sé skepnunum mikilvægt. Sauðfjárbændur hafa þannig komið fram með slagorðið Icelandic lamb; Roaming free since 874. (Íslenski dilkurinn; reikar um frjáls frá 874). Á árabilinu 1948 til 1953 kom út hjá bókaforlaginu Norðra á Akureyri safnritið Göngur og réttir í ritstjórn Braga Sigurjónssonar, var það gríðarmikið að vöxtum; fimm bindi og rétt í tæpar 1800 blaðsíður samtals. Mest var þar eðlilega fjallað um fjárgöngur o.þ.h. um land allt en smölun stóðs og stóðréttir í framhjáhlaupi. Er hér um afskaplega fróðlegt rit að ræða og mikill fengur af að það skuli hafa verið tekið saman og gefið út. Í ritinu kemur fram, s.s. alkunna er, að hross og fé gengu saman í högum, jafnvel á heiðum uppi. Var misjafafnt eftir því hvernig háttaði til hvort hrossum og fé var smalað saman eða í sitthvoru lagi eins og nú er nær alsiða. Stóðrekstur á heiðar upp er ekki lengur leyfður. Var bann það eðlilega mjög umdeilt á sínum tíma, sjá t.d. 4. tbl. 1. árg Eiðfaxa en beitarfræðin kveða á um að til bóta sé að ólíkar búfjártegundir gangi saman í högum og nærtækara sé því að grípa til ítölu sé hætta á ofnýtingu frekar en útilokunar. Þetta atriði verður ekki frekar rætt hér.

Stóðréttir eru norðlenskt fyrirbrigði en áður fyrr var það raunar svo að bændur voru tregir að reka stóð á afdali og heiðar upp. Það var þjóðmálafrömuðurinn og garpurinn Skúli Magnússon landfógeti sem kom því til leiðar, þá er hann var sýslumaður hér í Skagafirði, að gerð var sýslusamþykkt árið 1739 um hrossahald í sýslunni. Í henni var m.a. gerð krafa um að reka skyldi hross á afrétt að sumrinu, til varnar ofbeit heimalanda.

Ekki hef ég undir höndum neinar tölur um hrossafjölda í einstökum stóðréttum fyrr og nú en í mínu ungdæmi fyrir um hálfri öld heyri ég jafnan að menn álitu Stafnsrétt í Svartárdal stærstu réttina, enda kom beitarpeningur þangað af afar víðfeðmu svæði. Fóru menn í Stafnsrétt í áþekkum tilgangi og fólk fer nú í Laufskálarétt; að sækja í líf og fjör, sýna sig og sjá aðra og vitaskuld að kíkka á falleg hross. Hagyrðingurinn prýðisgóði; Jón Sigurðsson í Skollagróf, orti svo um Laufskálarétt á sínum tíma:

Lokið er fjallafrelsinu,
fátt um spretti snjalla.
íður hausts að helsinu,
hljóðnuð gleðibjalla.

Nú í haust var birt opinberlega skrá yfir allar réttir haustsins, stóðréttir voru þar 17 talsins. Í V-Hún.; Miðjarðarrétt, Víðidalstungurétt og Þverárrétt í Vesturhópi. Miðfjarðarrétt fór fram laugardaginn 8. september sl. og er hún fyrsta rétt haustsins en Víðidalstungurétt fer fram laugardaginn 6. október nk. og er hún ásamt fleiri réttum sem fram fara þann sama dag síðasta réttin þetta haustið. Í A-Hún. eru réttirnar þessar: Auðkúlurétt, Hlíðarrétt, Skrapatungurétt og Undirfellsrétt. Í Skagafirði eru stóðréttirnar eftirtaldar: Árhólarétt í Unadal, Deildardalsrétt, Flókadalsrétt í Fljótum, Laufskálarétt, Selnesrétt á Skaga, Skarðarétt í Gönguskörðum og Staðarrétt. Í Eyjafirði eru þrjár réttir og fara allar fram einn og sama daginn; laugardaginn kemur 6. október. Í framfirðinum eru Þverárrétt og Melgerðismelarétt og út í Svarfaðardal er Tungurétt.

Yfirbragð þessara rétta er mjög misjafnt á sumum þeirra; Laufskálarétt og einhverjum fleiri jafnvel, úir og grúir af áhugasömum gestum en á öðrum fáeinir aðrir en einbeittir hrossaeigendur að draga stóð sitt í dilka og koma því að svo búnu í hausthagana, því að eins og í vísunni segir:

Haustið strengir hélubönd,
hleður snjó í fjöllin.
Senn eru að baki sumarlönd
sölna grös um völlinn .
(Jón Sigurðsson í Skollagróf)

Áður birst í 37.tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir