Stóraukinn stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga

Eftir æsispennandi tímabil vetrarins í körfuboltanum dylst engum hversu mikil og góð áhrif íþróttir hafa á samfélagið í heild sinni og þá sérstaklega á börnin okkar. Öflugt tónlistarlíf setur sannarlega líka svip sinn á fjörðinn. Við erum svo heppin að hér í sveitarfélaginu er margt í boði fyrir börn og ungmenni og margir tilbúnir að leggja mikið á sig svo börnin okkar njóti þessarar fjölbreytni.

Börn og unglingar í Skagafirði æfa vikulega hinar ýmsu íþróttagreinar. Þar öðlast þau reynslu og skapa dýrmætar minningar með félögum sínum. Aðrir kjósa að nema tónlist, vera í skátum eða öðru tómstundastarfi og skapa minningar þar. Þetta er mikilvægt forvarnarstarf, en íþrótta-, tónlistar- og tómstundaiðkun af ýmsu tagi er kostnaðarsöm fyrir fjölskyldur. Það góða framtak sem Hvatapeningar til niðurgreiðslu tónlistar, íþrótta og annarra tómstunda eru, þá er raunin sú að þeir hafa ekki hækkað hjá sveitarfélaginu frá því að þeir voru settir á árið 2007.

Hvatapeningar hækki í 30.000 krónur í fyrsta áfanga
Það er virkilega mikilvægt að öll börn hafi jöfn tækifæri til þessara iðkana óháð fjárhagsstöðu heimila. Við hjá VG og óháðum viljum hækka Hvatapeninga í sveitafélaginu Skagafirði úr 8.000 krónum upp í 30.000 krónur í fyrsta áfanga og með sérstakri viðbót vegna systkina óháð því hvaða íþrótt, tónlistarnám eða tómstund þau velja sér. Þá þarf að útfæra hvernig hægt sé að koma betur á móts við kostnað vegna íþrótta- og tómstundastarfs ungmenna yfir 18 ára aldri. Með þessu móti stuðlum við að jafnari tækifærum og aukinni íþrótta-, tónlistar- og tómstundaiðkun barna og ungmenna og um leið sköpum við heilbrigðara samfélag í firðinum okkar.

VÓ - Fyrir fólkið í firðinum

Álfhildur Leifsdóttir

Skipar 2. sæti á lista VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir