Stytting vinnuviku eykur lífsgæði og hamingju

Mynd: Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.
Mynd: Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.

Íslenskur vinnumarkaður hefur gjörbreyst frá því sem áður var. Tækniframfarir hafa verið gríðarmiklar undanfarna áratugi og fjölbreytni starfa er mikil. Sum þeirra eru þess eðlis að það er hægt að vinna þau í 40 tíma á viku án þess að það hafi skaðleg áhrif á meðan önnur stofna heilsu fólks í hættu, sé unnið svo lengi. Spurningin er sú hvort við ættum ekki frekar að miða lengd vinnuvikunnar við þekkingu dagsins í dag og nútímasamfélagið í stað þess að miða við samfélagið eins og það var fyrir 50 árum. Stytting vinnuvikunnar hefur verið baráttumál BSRB og aðildarfélaga undanfarin ár og var meðal þess sem ávannst í kjarasamningunum í mars síðastliðnum. 

Kjarabót og aukin lífsgæði

Stytting vinnuvikunnar er mikil kjarabót og útfærslan á dagvinnustöðum er sett í hendurnar á starfsmönnum og yfirmönnum á hverjum vinnustað. Það er gert vegna þess að á sama tíma og vinnuvikan verður stytt getur þurft að endurskoða vinnuferla og verkefni til að hægt sé að afkasta jafn miklu á skemmri tíma. Þar sem enginn þekkir verkefnin á vinnustöðum betur en fólkið sem sinnir þeim er það líka best til þess fallið að taka ákvörðun um útfærslu vinnutímastyttingarinnar. 

Vinnuvikan hjá dagvinnufólki styttist um allt að fjórar stundir í kjölfar útfærslu á hverjum vinnustað. Hjá vaktavinnufólki styttist vinnuvikan um fjórar stundir að lágmarki og í mesta lagi um átta stundir en styttingin er mismunandi eftir því hvernig vaktir viðkomandi starfsmaður gengur. Til að byggja á sama grunni þurfa dagvinnuvinnustaðir að að stytta vinnuvikuna í 36 stundir til að jafnræðis sé gætt milli dagvinnufólks og vaktavinnufólks. 

Tilraunaverkefni undanfarar breytingarinnar
Á síðustu árum hafa staðið yfir tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá bæði ríki og Reykjavíkurborg en því miður var ekkert sveitarfélag sem Samband íslenska sveitarfélaga semur fyrir reiðubúið að taka þátt í þeim. Reynslan af þessum tilraunaverkefnum er í stuttu máli sú að starfsmenn sögðu styttinguna fela í sér mun meiri lífsgæði en þeir áttu von á í byrjun. Einnig sögðust þeir hafa meiri tíma fyrir sig sjálfa, að andleg og líkamleg heilsa batnaði, meiri tími væri fyrir félagslíf og líkamsrækt og þannig mætti áfram telja. Styttri vinnuvika felur einfaldlega í sér aukin lífsgæði starfsfólks og stuðlar að hamingjusamara samfélagi.

Ákvæði um styttingu vinnuvikunnar taka gildi nú um áramótin og vil ég brýna fyrir bæði opinberum starfsmönnum og atvinnurekendum að láta ekki hjá líða að útfæra hana og fylgja þannig þessum mikilvægu breytingum eftir.

Meira ítarefni eins og útskýringarmyndbönd er að finna á www.kjolur.is, www.styttri.is og www.betrivinnutími.is

Arna Jakobína Björnsdóttir
Höfundur er formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir