Svo kemur febrúar

Áskorandapenninn – Þóra Margrét Lúthersdóttir Forsæludal

Ég er ein þeirra sem byrja nýtt ár á fögrum fyrirheitum um heilsusamlegri lífsstíl, að sigrast á fitupúkanum og morgunljótunni og verða að öllu leiti betri og fullkomnari útgáfa af sjálfri mér.

Fyrstu dagar janúarmánaðar fara því í að setja mér fastar, og oft á tíðum flóknar, reglur um hvað ég megi gera og hvað ég megi ekki. Hvenær ég eigi að gera hlutina og hvernig eigi að framkvæma þá. Svo hamast ég eins og hamstur í hlaupahjóli við að aðlaga mínar daglegu skyldur að þeim heraga sem ég ætla að beita sjálfa mig.

Svo finnst mér ekki sanngjarnt að aðrir fjölskyldumeðlimir megi borða hvað sem er, hvenær sem er og ræði þau mál daglega við þau. Jafnframt predika ég yfir þeim nauðsyn þess að hreyfa sig meira. Börnin mín taka þessu öllu af mikilli eftirvæntingu enda enn á þeim aldri að finnast gaman að hoppa og sprikla. Meira að segja eru þau dugleg að borða grænmeti og flesta hinna ofurhollu (misgóðu) rétta sem eldaðir eru. Það er „hinn“ fjölskyldumeðlimurinn sem verr gengur að virkja í gleði og glimmerrok hreyfingar og hollustu. Suð, nöldur, tuð, predikanir, hótanir og málamiðlanir virðast engin áhrif hafa á viðkomandi. Á meðan ég nota alla mína kvenlegu lævísi til að fá mitt fram sperrir hann sig fram, þenur út á sér perustefnið og klappar hraustlega á það svona eins og mér til ögrunar.

Svo kemur febrúar – þorrablótin, með sinn stórgóða skemmda mat og kalda bjór og freista nautnaseggsins sem í mér býr og miðað við reynslu undangenginna ára þá er febrúar sá mánuður sem herskipulagi um „betri mig“ er stungið ofan í skúffu og ekki tekið fram fyrr en í janúar að ári.

Börnin gleðjast að nýju yfir því að nú megi öðru hverju fá gos og slikkerí og „hinn“ fjölskyldumeðlimurinn ásamt perustefninu sínu getur nú látið fara vel um sig á sófanum án truflunar. Ég gleðst líka yfir því að hafa lifað af janúarmánuð og þrátt fyrir að vera hvorki fullkomin á líkama eða sál er ég án nokkurs vafa alveg EINSTÖK

Þóra skorar á Turid Rós Gunnarsdóttur að koma með pistil.

Áður birst í 6. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir