Þá sjaldan maður bregður sér í leikhús á Blönduósi :: Björk Bjarnadóttir skrifar

Indiana Hulda Gunnarsdóttir, fimm ára og Egill Mikael Ponzi næstum fjögurra ára ásamt galdrakonu.   MYND: BJÖRK BJARNADÓTTIR
Indiana Hulda Gunnarsdóttir, fimm ára og Egill Mikael Ponzi næstum fjögurra ára ásamt galdrakonu. MYND: BJÖRK BJARNADÓTTIR

Við mæðginin, Björk og Egill Mikael, næstum fjögurra ára, kíkjum oft norður á Blönduós til að heimsækja ömmu og afa. Alltaf er kátt í koti en nú var einstaklega mikil spenna fyrir því að fara norður því við vorum einnig að fara að sjá leikritið Blíðu og dýrið, eftir Nicholas Stuart Gray, hjá Leikfélagi Blönduóss. Lítil frænka kom líka með okkur til ömmu og afa, hún Indiana Hulda, sem er fimm ára. Hún var svo spennt að fara á leikritið að spurt var hvern dag, hvort leikritið yrði í dag, en við mættum á Blönduós þrem dögum fyrir sýninguna sem var sýnd þann 30. apríl.

Loksins rann upp dagurinn mikli, sól skein í heiði og norðanáttin blés sterklega. Ekki hefur verið sýnt leikrit í níu ár hjá Leikfélagi Blönduóss, og vorum við öll afar áhugasöm að sjá og upplifa leikrit í Félagsheimilinu á Blönduósi. Kjólar, buxur, skyrtur og jakkar voru dregin fram, og skórnir pússaðir. Að taka sig til fyrir leikhúsið og koma litlum kroppum í sparifötin og finna spenninginn var svo gaman. Svo hentust allir út í bíl og spenning-urinn óx, svo var það miðasalan litla og loksins var gengið inn í leiksalinn. Lítil augu ljómuðu þegar gengið var inn í annan heim.

Að stíga inn í sýningarsalinn var töfrum líkast. Þar blasti fagurt sviðið við með allri sinni dularfullu sviðsmynd: skógur og falleg tónlist. Þegar ég settist niður í gamla sýningarsalnum þá heltust yfir mig minningar. Þarna sá ég hina frægu bíómynd ET í fyrsta skipti og einnig man ég þegar ég stóð einu sinni uppi á sviðinu á sumardaginn fyrsta á sumarskemmtuninni ásamt bekkjarfélögum mínum að leika fræga landnámsmenn og konur. Ég var Leifur heppni og ég sagði fyrir framan fullan sal af fólki: „Ég hef fundið Vínland hið góða!“ Á annarri sumarsýningu lék-um við bekkurinn öll þau dýr sem búa á bóndabæjum og ég mundi að salurinn veltist um af hlátri meðan á atriðinu okkar stóð. Svo sáum við vinkonurnar, þá líklega 12 ára, farsann og leikritið Spanskfluguna hjá Leikfélagi Blönduóss og ég held við höfum farið næstum því á allar sýningarnar, því við elskuðum þetta leikrit svo mikið og hlógum endalaust að okkur fannst. Pabbi minn, Bjarni Pálsson, talar enn um leiksýninguna Skugga-Svein sem hann sá sem lítill pjakkur hjá Leikfélagi Blönduóss. Þessar leikhúsminningar og fleiri til eru ómetanlegar. Ég gleymi líka aldrei slikkeríi sem var ávallt í boði í sælgætissölunni fyrir langa löngu: það voru lítil kramarhús sem voru úr sellófan og í þau var búið að setja nokkra afar góða konfektmola sem var svo gott að maula á meðan sýning stóð yfir – ógleymanlegt.

Galdrar leikhússins

Leikhús er eitt það magnaðasta fyrirbæri sem maðurinn hefur búið til. Manneskjur hafa mikla þörf fyrir að láta segja sér sögur og þegar þær eru sagðar í gegnum leikhús með öllum göldrunum, sem eru til dæmis; ljósabúnaður, tónlist, búningar, brúður, reykur, sviðsmynd, svið, leiktjöld og leikarar, þá verður sagan ógleymanleg, situr í minninu það sem eftir er. Leikhúsin eru ævaforn fyrirbæri og þau er hægt að finna allt frá tímum Forn-Grikkja og sérstakir byggingarmeistarar þeirra tíma kunnu að byggja útileikhús þar sem hljóðið barst svo vel til allra, sérstök list. Táknið fræga fyrir leikhús kemur einmitt frá Forn-Grikkjum, sem eru grímur harmleikja og gleðileikja, og það er leikhúsið. Það lýsir harmi og gleði og það gerði leikritið Blíða og dýrið svo sannarlega.

Meðan allt þetta flaug í gegnum huga minn, bættust sífellt fleiri sýningargestir í salinn og ég gladdist yfir hverjum gesti sem bættist við. Því ég veit að bak við hverja leiksýningu búa ótal handtök, miklar æfingar, alls kyns pælingar og vesen, ásamt gleði og tilhlökkun.

Fallegt, spennandi og skemmtilegt

Svo hófst leikritið og það kom á óvart, það var svo gaman og við hlógum, urðum smá döpur og við urðum spennt og við urðum smá hrædd. Sviðsmyndin var falleg og hentaði þessu leikriti mjög vel, lýsingin var góð og tónlistin passaði einkar vel við allt verkið.

Mér þótti mjög gaman að sjá lausnina með brúðuhanann, en hann var fagurlega útbúinn, svartur og glansandi, strengjabrúðuhani sem búinn var til af Gretu Clough og Morgan Bresko. Tveir brúðuleikarar stjórnuðu hreyfingum hanans og töluðu fyrir hann, það var engu líkara en lifandi hani væri mættur upp á svið og var þetta meistaralega vel gert af þeim Skugga og Skugga, sem voru leiknir af Óskari Sólberg Róbertsyni og Baltasar Guðmundssyni. Einnig birtust Skuggarnir á milli atriða sem bjó til gott flæði á milli atriðanna.

Dýrið var stórkostlegt, með gervi sem hræddi minn litla fjögurra ára son mikið. Einnig var leikur Víkings Leós Þórðarsonar sem Dýrið mjög sterkur og góður. Blíða var uppáhaldið hjá okkar litlu fimm ára frænku. Sú stutta spurði alltaf hvar Blíða væri núna þegar hún var ekki á sviðinu. Blíða er leikin af Emilíu Írisi Benediktsdóttur og túlkar hún einkar vel hina góðu persónu Blíðu sem þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Bræður hennar tveir voru leiknir af Pálma Ragnarssyni og Hafþóri Erni Laursen Ólasyni. Þeir náðu fullkomlega að leika hina huglausu bræður og komu þeir salnum oft til að hlæja. Móðir bræðranna og Blíðu er frú Klemma Kaupakona, leikin af Önnu Margréti Jónsdóttur. Hún er hin áhyggjufulla móðir sem stendur í stórræðum og Anna Margrét flytur sitt hlutverk vel og gaf okkur í salnum mikla tilfinningu fyrir hennar ótta. Doddi Dreki var leikinn af Freydísi Ösp Stefánsdóttur og var drekinn mikið umræðuefni eftir sýninguna. Búningur drekans var svo flottur, þarna var mættur grænn og fallegur dreki, sem bar af á sýningunni. Leikur Freydísar Aspar var einkar sannfærandi þar sem hún lék ungan óreyndan dreka. Gala Galdraþula er leikin af Maríönnu Þorgrímsdóttur og er hún einna mest inni á sviðinu. Hún gerir þetta frábærlega, að vera hin annars hugar galdraþula sem hefur afar lítið tímaskyn.

Allt í allt: Einstaklega fallegt, spennandi og skemmtilegt barnaleikrit sem börn jafnt og fullorðnir geta notið saman. Sagan hélt áhorfendum vel og gott flæði var í söguþræðinum, öll skipti á milli atriða gengu hratt og vel fyrir sig. Afar góðir leikarar sem stóðu sig með prýði.

Upp úr stóð hjá börnunum að fá að fara með ömmu og afa í leikhús í þeirra heimabæ. Ómetanleg minning í minningabankann – takk fyrir Leikfélag Blönduóss.

Einnig vil ég bæta við: Innilega til hamingju með töfrum hlaðna sýningu, kæra Leikfélag Blönduóss og allir aðrir sem stóðu á bakvið sýninguna. Með von um fleiri leiksýningar og mikla þátttöku allra sem búa á Blönduósi og í nágrenni.

Björk Bjarnadóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir