Gönguferð í garðinum
Tindastólsmenn spiluðu fyrsta Evrópuleik sinn í Síkinu í kvöld en andstæðingarnir voru góðir gestir i liði Gimle frá Bergen í Noregi. Það má kannski segja að menn hafi rennt nokkuð blint í ENBL-deildina og ekki gott að segja til um styrkleika andstæðinganna svona fyrirfram. Óvæntur og öruggur sigur í Bratislava gaf mönnum vonir um að Stólarnir ættu að geta lagt Gimle í parket en að sigurinn yrði svona afgerandi eins og raun bar vitni, því áttu örugglega ekki margir von á. Lokatölur 125-88 og Stólarnir með fullt hús stiga að loknum tveimur leikjum.
Það var raunar ekki útlit fyrir eitthvað burst í byrjun leiks því Gimle-menn voru skarpari framan af leik. Það var helst fyrir óvæntan stórleik Ragga sem Stólarnir misstu gestina ekki framúr sér. Raggi skellti í þrist á lokasekúndu fyrsta leikhluta og heimamenn leiddu 25-23. Leikurinn var áfram jafn í öðrum leikhluta en um hann miðja tóku Stólarnir leikinn yfir og komust mest 20 stigum yfir. Staðan var 59-42 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var síðan eins og gönguferð í garðinum eða kannski frekar nettur sundsprettur í Síkinu. Gestirnir ógnuðu í raun aldrei forystu Tindastóls sem voru fljótt búnir að ná yfir 30 stiga forskoti. Gimle-menn náðu að klóra það forskot niður í 20 stig í lok þriðja leikhluta, staðan 88-68, en í fjórða leikhluta léku heimamenn á alsoddi, gerðu 37 stig á meðan Norðmennirnir gerðu 20 stig og sigurinn því ótrúlega öruggur.
Raggi með stjörnuleik
Raggi gerði 28 stig í leiknum og tók átta fráköst, Taiwo var mættur á parketið á ný og gerði 22 stig, Ivan var með 20 stig og 14 fráköst, Basile gerði 15 stig og átti níu stoðsendingar, Drungilas var með 14 stig og sex fráköst, Arnar Bjöss 14 stig og fimm stoðsendingar, Júlíus Orri gerði tíu stig og öll á lokamínútunum og svo gerði Viðar tvö stig, þannig að bræðurnir gerðu samtals 30 stig. Pétur var svo með fimm stoðsendingar.
Tölfræðin hans Ragga var mögnuð í leiknum en hann var grimmur undir körfu gestanna og skoraði þar tíu sinnum í tólf tilraunum. Þá tók hann þrjú 3ja stiga skot og setti tvö þeirra niður og bæði vítin sem hann fékk í leiknum setti hann niður. Hann tók fjögur varnarfráköst og fjögur sóknarfráköst auk þess sem hann stal boltanum tvisvar, blokkaði eitt skot og fékk þrjár villur á þeim 26 mínútum sem hann spilaði.
Það er kannski hægt að nota strákinn eftir allt?!
- - - - -
Myndirnar sem hér fylgja tók Davíð Már. Fleiri myndir eru væntanlegar...