Það er allt svo gott fyrir norðan:: Áskorandapenninn Guðrún Hulda Pálmadóttir, brottfluttur Hofsósingur

Hver er konan: Guðrún Hulda Pálmadóttir
Maki: Gísli Einarsson
Hverra manna: Dóttir Binnu og Pálma. 
Hvar elur þú manninn : Borgarnesi
Afkomendur: Rakel Bryndís , Rúnar og Kári og ömmustelpurnar þrjár, Bryndís Hulda, Kristbjörg Anna og Herdís Lilja.
Áhugamál: Fólkið mitt, útivist og lopapeysur.
Heima er: Hofsós

„Það er allt svo gott fyrir norðan,“ þetta er það sem ég hef sagt börnunum mínum á hverjum degi, oft á dag alveg frá því þau fæddust. Þessu hef ég líka tönglast á við vini mína og vinnufélaga í hvert sinn sem eitthvað norðlenskt ber á góma, miklu oftar en þeir kæra sig um. Auðvitað á ekki að þurfa að taka það fram að allt sé gott fyrir norðan, en því miður þá eru ekki allir búnir að átta sig á því enn.

Þeir sem þekkja mig vita að þegar ég segi að allt sé svo gott fyrir norðan þá er ég að sjálfsögðu að meina Skagafjörð, og með Skagafirði er ég náttúrulega mest að meina „Út að austan“ og þá sérstaklega Hofsós „City“ og sveitirnar þar í kring.

Þess ber að geta að í tæplega þrjátíu ár (vel ríflega helming ævi minnar) hef ég átt heima í Borgarfirði og auðvitað er sanngjarnt að spyrja af hverju ég búi ekki fyrir norðan fyrst allt er svo frábært þar? Því er auðsvarað. Einhver verður jú að breiða út boðskapinn og það er engin þörf á að stunda trúboð í sjálfum söfnuðinum!

Ég nota líka hvert tækifæri til að skreppa „heim“ í Skagafjörðinn til að fá mér frískt loft, eins og ég kalla það kinnroðalaust.

Hofsós, bærinn minn,  er ekki einn af fjölmennustu þéttbýlisstöðum landsins. Í raun nær hann varla einu sinni að teljast þéttbýli samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Það hefur tíðkast, sjálfsagt alla tíð, að gera grín að smábæjum og gera lítið úr þeim í samanburði við stærri þéttbýlisstaði, m.a. á þeim forsendum að þeir hafi upp á svo lítið að bjóða. Það er bara alls ekki rétt! Ég skammast mín ekki fyrir að vera úr smábæ eða þorpi. Þvert á móti er ég stolt af bænum mínum, já og smæð hans.

Í mínum huga hefur smábær, eins og Hofsós, upp á að bjóða meiri og mikilvægari hluti en svo margir stærri bæir og borgir jafnvel. Þá er ég ekki bara að tala um að þar er flottasta sundlaug landsins, og þó víðar væri leitað.

Einn af helstu kostunum er samstaða og samkennd íbúanna. Að því sögðu eru að sjálfsögðu ekki allir sammálla um allt, alltaf. En þegar eitthvað þarf að gera er gengið í hlutina, hvort sem það er að útbúa leiksvæði eða efna til mannfagnaðar svo fátt eitt sé nefnt. Já og að maður tali nú ekki um að ef eitthvað bjátar á einhversstaðar, þá eru allir til staðar með huggandi faðm og hjálparhönd.

Ég vil nefna sérstaklega hvernig íbúar Hofsóss, og nágrennis, hafa síðustu áratugi fóstrað nokkuð sem mér er kært, minningarsjóð Rakelar Pálmadóttur, systur minnar, sem lést af slysförum haustið 1988. Á hverju hausti er haldin vegleg hátíð á vegum Minningarsjóðsins, þar sem starfsfólk og nemendur grunnskólans hafa veg og vanda af veisluhöldunum og undantekningarlaust er húsfyllir í Höfðaborg. Tekjur sjóðsins eru svo nýttar í uppbyggingarstarf í grunnskólanum. Mér þykir óendanlega vænt um að minningu elsku systur minnar skuli haldið á lofti með þessum hætti.

Það skal tekið fram að mér líður vel þar sem ég bý í dag, í Borgarnesi, og líka að mér þykir vænt um Skagafjörð í heild sinni. Hofsós er hinsvegar, og verður, bærinn minn!

Í takt við þá sjálfhverfu sem kristallast hér að framan þá ætla ég að skora á miðjubarnið mitt, Rúnar Gíslason, að taka við pennanum en hann er einmitt búinn að vera síðustu þrjú árin í ferska loftinu fyrir norðan, þar sem allt er svo gott!

Guðrún Pálmadóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir