„Það verður alltaf þörf fyrir prentun,“ segir Guðni prentari sem rifjar upp aðkomu sína sem prentari Feykis í tilefni 40 ára afmæli blaðsins

Guðni Friðriksson við gömlu GTO 52 eins lita prentvélina sem gerði það mögulegt að prenta Feyki í heimabyggð. Að baki Guðna er fjórlitaprentvélin sem nú sinnir því hlutverki að prenta Feyki, og allt í lit. Mynd: PF.
Guðni Friðriksson við gömlu GTO 52 eins lita prentvélina sem gerði það mögulegt að prenta Feyki í heimabyggð. Að baki Guðna er fjórlitaprentvélin sem nú sinnir því hlutverki að prenta Feyki, og allt í lit. Mynd: PF.

Guðni Friðriksson hefur séð um að prenta Feyki í 34 ár og stendur enn við prentvélina. Hann segir mestu breytinguna í gegnum tíðina hafa verið í sambandi við uppsetningu, sem nú fer fram í tölvu, og svo þegar fjórlitaprentvélin kom í hús og allt blaðið litprentað. „Það er tvímælalaust mesta breytingin,“ segir hann en Feyki langaði að rifja upp með Guðna þátt prentsins í útgáfusögu blaðsins.

„Það koma líka inn tæki til að raða og hefta í staðin fyrir alla handavinnuna. Þetta eru breytingar sem verða með tilkomu betri tækjabúnaðar.“ Þegar Guðni er spurður út í framtíð prentverks á Íslandi með tilsjón af þeim breytingum sem hafa orðið síðustu ár t.d. með flutning bókaprentunar úr landi og að prentsmiðjur hafa margar lagt upp laupana, segir hann að það verði alltaf eitthvert prent á landinu þó búið sé að spá dauða prentsins í einhverja áratugi. „Ég hef enga trú á að það hverfi. Þetta breytist kannski eitthvað og verður öðruvísi en það verður allt þörf fyrir prentun,“ segir hann.

Á fyrstu árum Feykis er hann prentaður í Dagsprenti á Akureyri en árið 1987 tók prentsmiðjan SÁST við því verki en þar á bæ höfðu starfsmenn séð um setningu og umbrot blaðsins frá júlí ´85. Prentsmiðjan SÁST var stofnuð af þeim Stefáni Árnasyni og Sveini Tuma Árnasyni en Guðni var á kominn til starfa sem prentari í stað Tuma. „Þá vorum við fluttir út á Aðalgötu 2 þar sem Guðbrandur hafði sína aðstöðu og setningarvélina sem við keyptum þegar hann flutti suður. Guðbrandur var setjari hjá POP á Akureyri og setti m.a. upp Feyki þar. Svo ákveður hann að taka við ritstjórninni á Feyki og flytur hingað með setnigargræjuna, sem var náttúrulega allt annað tæki en er í dag. Svo fær hann starfstilboð hjá Mogganum og flytur suður en við kaupum setningargræjuna og förum að setja Feyki sem er þá enn prentaður á Akureyri. Þá voru keyrðir út strimlar með texta á sem voru svo límdir upp á þar til gerð blöð og svo var tekin af þessu filma og prentað. Mikil handavinna. Öll myndvinnsla fór fram í myrkraherbergi með Repromaster og allt miklu ófullkomnara en er í dag.

Við vorum í bílskúr á Skagfirðingabrautinni, hjá Sæmundi Hermanns, til að byrja með en við þessi kaup er ákveðið að flytja á Aðalgötu 2. Við tókum neðri hæðina í gegn, sem var þá bara ruslakompa, og fluttum litla prentvél sem við vorum með en árið 1987 kaupum við GTO 52 vél og upp úr því var farið að ræða það að við tækjum að okkur að prenta Feyki.“

Guðni segir að prentvélin hafi ekki verið keypt í þeim tilgangi að prenta Feyki, það hafi komið í framhaldinu.

„Ég man ekki betur en við höfum setið úti í Ólafshúsi og verið að ræða við Hilmi Jóhannesson, sem þá var í stjórn Feykis, en þá var hugmyndir uppi um að sameina Feyki og Sjónhornið. Við nánari athugun kom þó í ljós að það gengi ekki upp en það varð úr að við fórum að prenta Feyki og fyrsta tölublaðið, prentað á Króknum, kom út 1. apríl 1987.

Það þurfti að breyta stærðinni á Feyki, minnka aðeins, af því að þessi vél var ekki með eins stóran prentflöt og dagblaðaprentvél,“ segir Guðni en sú stærð hefur haldið sér allar götur síðan.

Flutningar á Borgarflöt
Á Aðalgötunni, í gamla barnaskólanum, er prentað þangað til flutt var á Borgarflöt 1, þar sem Nýprent og Feykir eru enn í dag. „Þar er haldið áfram að prenta á þessa eins lita vél en 1999 er svo farið í að kaupa tveggja lita vél og svo 2015 er fjárfest í fjögurra lita vél. Á þessum tíma verður geysileg þróun í setningu, tölvuvinnslu, plötugerð og öðru slíku. Sem dæmi þarf hver örk að fara allt að fjórum sinnum í gegnum eins lita vélina, sérferð fyrir hvern lit en bara einu sinni í þeirri fjórlita sem nú er. Brotvél var keypt líka sem gat brotið þessa arkarstærð en svo var blaðinu raðar saman í höndunum. Nú er allt tölvustýrt og gæðin í forvinnslunni, myndvinnslu, plötugerð og annað, hefur stökkbreyst og er alveg bylting frá því sem var bæði í gæðum og tíma.“

Aðspurður hvort hann geti borið saman hve lengi var verið að prenta Feyki þá og nú segir Guðni það varla sambærilegt þar sem lítið var prentað í lit, kannski í mesta lagi einn aukalitur. „Svo er upplagið allt annað, var miklu meira en er í dag og þessi gamla vél var miklu hæggengari en sú sem er núna. Blaðið var þá átta síður en núna tólf. Maður var kannski uppundir fjóra tíma að prenta blað í tveimur litum en núna skutlast þetta í gegn á einum og hálfum tím í fjórlit, en upplagið er minna.“

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir