Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Prófkjörið á laugardaginn er gríðarlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn er auðvelt skotmark og augljóst er að ákveðnir fjölmiðlar eru ekki að gæta sanngirnis. Það er því hlutverk Sjálfstæðisflokksins að koma hreint fram, viðurkenna þau mistök sem hafa verið gerð og halda því til haga sem vel hefur verið gert.

 

 

 

Ég vil að gildi Sjálfstæðisstefnunnar séu höfð í öndvegi. Að einstaklingnum sé treyst, að atvinnufrelsi sé tryggt og að þeim sé veitt hjálp sem á henni þurfa að halda. Ríkisvaldið skapar ekki verðmæti, það gerum við sjálf. Það eru þess vegna Íslendingar sem munu endurreisa Ísland.

Stór hluti ungs fólks hefur misst trúna á Sjálfstæðisflokknum. Ímynd hans er á margan hátt neikvæð og á flokkurinn þátt í því að svo varð. Það breytir því hins vegar ekki að stór hluti ungs fólks er sammála gildum Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er mikilvægt að ungur einstaklingur sé á listanum fyrir kosningarnar í apríl. Framboðslistinn á að vera fjölbreyttur og endurspegla það mannlíf sem er í kjördæminu. Ungur frambjóðandi á meira erindi við unga kjósendur, enda reynsluheimur þeirra sambærilegur.  

Við í stjórn Þórs, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, höfum sýnt það og sannað að það er hægt að fá ungt fólk til að taka þátt í pólitík. Við endurvöktum félagið í desmeber sl. og hefur það blómstrað síðan þá. Við höfum fjölgað verulega í félaginu, gefið út málgagn og haldið fundi. Fyrir vikið hefur umræða um gildi hugmyndafræði Sjálfstæðisstefnunnar aukist til muna meðal ungs fólks á Akranesi.

Til þess að ég geti unnið að því að afla fylgis við Sjálfstæðisflokkinn meðal ungs fólks og sýna fólki fram á að hugmyndafræði okkar sjálfstæðismanna sé best til þess fallin að byggja upp landið þarf ég þinn stuðning. Ég veit að það er hægt, þótt það verði erfitt og ég mun leggja mig alla fram. Ég vona því að þú setjir mig í 5. sætið á laugardaginn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Höfundur er formaður Þórs og bíður sig fram í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir