Til fjalla ræður vatnahalli merkjum - Eyjólfur Ármannsson skrifar

Aðalmeðferð vegna þjóðlendukrafna ríkisins á hendur landeigendum í Ísafjarðasýslum fór fram í fimm málum 4. og 5. október sl. í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Á þriðjudeginum 4. október fórum fram skýrslutökur og málflutningur í málum nr. 1–3/2021, sem er í máli nr. 1; fjalllendi norðan Geirþjófsfjarðar, máli nr. 2; fjalllendi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, og máli nr. 3; fjallendi milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar auk Nesdals. Á miðvikudeginum 5. október var aðalmeðferð í máli nr. 4; fjalllendi milli Önundar-, Súganda-, Skutuls- og Álftafjarða auk Stigahlíðar og Hestfjalls, og máli nr. 5; fjalllendi við Glámu auk almenninga við Hestfjörð, Skötufjörð og Ísafjörð. Samtals eru átta mál til meðferðar í Ísafjarðarsýslum.

Skýrslutökur fóru fram fyrir málflutning. Þeir sem gáfu skýrslur voru ýmist landeigendur eða staðkunnugir svæðunum. Hjá öllum kom skýrt fram að þeir litu svo á að landamerki til fjalla færi eftir reglur um vatnaskil. Kröfur ríkisins í máli nr. 3 eru miklar og ná til Nesdals á milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar og svæðisins inn af dalnum.

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 10B - Ísafjarðarsýslur - bárust óbyggðanefnd í september 2020. Kröfurnar ná til 45 svæða en upplýsingar um afmörkun þeirra eru í kröfulýsingu og á kortum sem sjá má á heimasíðu óbyggðanefndar. Sjá link HÉR

Þjóðlendukröfur ríkisins - fjallsbrún

Kröfur ríkisins um þjóðlendumörk.

Þjóðlendukröfur ríkisins í Ísafjarðarsýslum ná yfir um 40% lands sýslnanna. Af 200 blaðsíðna kröfulýsingu eru 157 blaðsíður með texta úr sóknarlýsingum og landamerkjalýsingum á svæðinu. Ríkið vísar til landamerkjalýsinga í kröfum sínum í þjóðlendukröfum sínum.

Kröfugerð ríkisins er kröfulína dregin eftir fjallsbrún, sem ríkið hefur skilgreint sem „frambrún fjalls þar sem skörp skil eru oft í hæðarlínum s.s. frambrún kletta eða önnur skil, nema annað sé tekið fram.“ Þegar landamerkjum er líst í fjall telur ríkið að merki jarðar séu í fjallsbrún. Skiptir engu hvort merkja sé getið í fjallsbrún eða ekki.

Ríkið telur fjallsbrún vera landamerki jarðar inn til landsins ef landamerki aðliggjandi jarða við ströndina er sagt í landamerkjalýsingu í fjallshlíð. Einnig ef landamerkjalýsing er óskýr, land lítt aðgengilegt, lítt gróið, og í töluverðri hæð gerir ríkið kröfu um að landið sé þjóðlenda.

Af kröfugerð ríkisins að dæma mætti helst halda að Vestfirðingar hefðu aldrei komið upp á fjalllendi sitt og að það væri fjarlægt ónumið víðerni sem biði þess enn í dag að vera uppgötvuð. Skjalaskoðun við skrifborð í Reykjavík gæti gefið þá hugmynd að allt ósagt í skjölum um land ofan fjallsbrúnar sé ónumið land. Svo er ekki og hefur aldrei verið. Eftir að Gísli Súrsson skaut Þórodd til bana fór Gísli úr Lambadal upp á fjallið vestan Haukdals eða að húsabaki líkt og sögur segja um þá dramatísku atburði. Að fara að húsabaki er ekki að fara yfir ónumið og óþekkt land.

Landmerkjalýsingar og ákvæði Jónsbókar um vatnaskil

Kröfulína landeigenda. Svæði 10B,
annesið á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Allir sem hafa gengið á fjöll á Íslandi hafa líklega velt fyrir sér hver sé eigandi fjalllendisins og hvar mörk aðliggjandi jarða séu, t.d. þegar gengið er yfir fjöll á milli fjarða. Landamerkjalög 1882 nefna að oft séu glögg landamerki sem náttúran hefur sett, svo sem fjöll, gil, ár eða lækir. En hver eru mörk aðliggjandi jarða til fjalla þegar þessi glöggu landamerki frá náttúrunnar hendi eru ekki til staðar?

Þegar gengið er yfir fjalllendið á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er farið yfir mörk aðliggjandi jarða í sitthvorum firðinum. Landamerkjum þessara jarða til fjalla, sem skilja að firðina, er ekki lýst í landamerkjalýsingum. Sama á reyndar einnig við um mörk jarða til sjávar (netlög). Þegar Lokinhamraheiðin er gengin á milli Lokinhamradals og Haukadals er gengin er farið yfir mörk aðliggjandi jarða. Þessum landamerkjum er ekki lýst í landamerkjabréfi, sem hefði verið auðvelt með vísan til fjallstopps því ekki er flatlendi á heiðinni Hver er skýringin á að þessum mikilvægu landamerkjum jarða er ekki lýst í landamerkjalýsingum?

Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar“ í Gísla sögu Súrssonar er ein frægasta setning Íslendingasagna. Hún er um vatnaskil og margræð, líkt og kennt hefur verið í efri bekkjum grunnskóla. Reglan um að vatnaskil skilji að jarðir til fjalla er lifandi í réttarvitund almennings og hefur verið um aldir.

Grágás, lagasafn þjóðveldisins (930-1262), og Jónsbók, sem Magnús lagabætir Noregskonungur færði Íslendingum og samþykkt var á Alþingi 1282, hafa ákvæði sem fjalla um landamerki jarða til fjalla þar sem „vatnföll deilast“. Að land á fjalli tilheyri jörð sem vatn rennur til eða vötn halla að felur í sér náttúruleg mörk bújarðar. Það eru landmerki sem náttúran hefur sett þó þau teljist ekki glögg líkt og gil, á eða lækur.

Ekki þarf að lesa margar landamerkjalýsingar frá Vestfjörðum, sem gerðar voru innan hins skamma frests eftir gildistöku landamerkjalaga 1882, til að sjá að þar eru nágrannabændur aðliggjandi jarða við strandlínuna, þar sem Vestfirðingar búa og hafa búið frá landnámi, að koma saman til að lýsa mörkum jarða sinna gagnvart hvor öðrum, alls óvanir skjalagerð en búið að aldagamalli þekkingu bændasamfélagsins á ákvæðum hinnar merku lögbókar Íslendinga í árhundruð Jónsbókar um mörk jarða; um netlög til sjávar og vatnaskil til fjalla þó hvorugs sé getið í landamerkjalýsingum.

Ef lög líkt og Jónsbók gerir kveða á um mörk jarða til fjalla og menn treysta lögunum er óþarfi að endurtaka þau í landamerkjalýsingu. Landamerkjalýsingar samkvæmt fyrstu landamerkjalögum nútímans frá 1882, þar sem í fyrsta sinn er kveðið á um gerð landamerkjalýsinga og skráningu þeirra hjá stjórnvöldum (sýslumönnum) verður að lesa með hliðsjón af ákvæðum Jónsbókar til að fá fullnægjandi mynd af mörkum jarða. Landamerkjalýsing sem þannig er lesin er ekki óskýr þó hún lýsi ekki landamerkjum til fjalla.

Landamerkjabréf fyrir og eftir núgildandi landamerkjalög frá 1919

Frá aðalmeðferð í þjóðlendumálunum.

Í landbrigðabálki Jónsbókar, kap. 6, Um landamerki og lagakaup segir: „Eigi er skylt að ganga á merki þar er fjöll þau eru, er vatnföll deilast millum heraða, ok eigi er skylt að ganga úr búfjárgangi á fjöll upp, kveða skal þar á merki.“ Samhljóða texti er í báðum handritum þjóðveldislaganna, Grágásar. Ákvæðið er því fornt, frá fyrstu dögum byggðar á Íslandi eða frá þjóðveldisöld 930-1262.

Líkt og eigi var skylt að ganga á merki þar sem fjöll þau er er vatnföll deilast, var óþarfi að skrifa upp ákvæði 6. kafla landbrigðabálks Jónsbókar. Það gerðist almennt ekki fyrr en eftir gildistöku laga um landamerki o.fl. nr. 41/1919, að landamerkjalýsingar fjalla um vatnaskil til fjalla. Grundvallarmunur er á landamerkjabréfum á Vestfjörðum gerðum fyrir og eftir gildistöku núgildandi landamerkjalaga frá 1919. Gott dæmi um það er landamerkjabréf Kirkjubóls og Skóga í Mosdal á Langanesi í Arnarfirði frá árinu 1922.

Tvö landamerkjabréf eru til fyrir Skóga í Mosdal frá 1892 og 1922. Eldra landamerkjabréfið er gert í gildistíð landamerkjalaga nr. 5/1882, það yngra í tíð núgildandi laga um landamerki nr. 41/1919. Grundvallarmunur er á þessum tveim landamerkjabréfum er lítur að lýsingu merkja á Skógarhlíðarfjalli í Mosdal. Í eldra bréfinu frá 1892 er merkjum lýst sem sjónhending í fjallsbrún. Í yngri bréfinu frá 1922 er merkjum á sama stað lýst með mikilvægri viðbót um vatnaskil og lýst sem „sjónhending í fjallsbrún og þaðan á fjallinu upp og út eftir fjallinu eftir því sem vötnum hallar til Skógalands.“

Í landamerkjabréfi Kirkjubóls frá 1922, sem er aðliggjandi jörð að Skógum, er merkjum á sama fjalli lýst með sama hætti; „alt eftir því, sem vötnum hallar til Kirkjubólslands.“

Engin breyting varð á stærð jarðarinnar Skóga á árunum 1892-1922 enda það ekki ástæða breyttrar landamerkjalýsingar. Breytingin er að í yngra landamerkjabréfi Skóga frá 1922 er vatnshallaregla Jónsbókar til fjalla komin í landamerkjalýsingu jarðarinnar. Sama á við um Kirkjuból.

Þess má geta að kröfugerð ríkisins á Skógarhlíðarfjalli er undarleg og ekki eftir fjallsbrún heldur eftir vatnaskilum, hábrún fjallsins; „í línu eftir því sem vötnum hallar milli Skóga og Kirkjubóls“.

Vatnaskil - hin náttúrulegu mörk bújarða

Í landamerkjalýsingu Stapadals í Arnarfirði frá 1884, segir: Til fjalla ræður vatnahalli merkjum. Þetta er almenn fullyrðing sem er ótengd landamerkjalýsingu, staðháttum eða örnefnum jarðarinnar. Það er ekki bara í landamerkjum Stapadals sem vatnshalli ræður merkjum til fjalla á Vestfjörðum. Vatnaskil ráða merkjum til fjalla á Vestfjörðum. Það eru hin náttúrulegu mörk bújarðar sem kveðið er á um í elstu lögum Íslands, Grágás og Jónsbók.

Óbyggðanefnd hefur nú tekið fyrrnefnd þjóðlendumál til úrskurðar. Hvernig óbyggðanefnd úrskurðar í deilum ríkisins við landeigendur í Ísafjarðarsýslum á eftir að koma í ljós. Hvort óbyggðnefnd muni líta til hinnar fornu reglu Grágásar og Jónsbókar um að merki jarða til fjalla séu þar sem vatnsföll deilast eða óljósrar skilgreiningar ríkisins á fjallsbrún skal ekki fullyrt um.

Reglan um að til fjalla ráði vatnaskil eða vatnahalli landamerkjum á Vestfjörðum er skýr og var það hjá öllum sem gáfu skýrslur við upphaf aðalmeðferðar 4. október sl. fyrir óbyggðanefnd í máli nr. 1; fjalllendi norðan Geirþjófsfjarðar, máli nr. 2; fjalllendi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, og máli nr. 3; fjallendi milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar auk Nesdals. Var sá vitnisburður í samræmi við skýran og rótgróinn skilning Vestfirðinga um landamerki til fjalla, réttarvitund almennings og forn lög í landinu sem hafa verið í gildi frá upphafi byggðar.

Eyjólfur Ármannsson
Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, lögfræðingur LL.M. og fyrrum smali frá Hrafnabjörgum í Lokinhamradal og gætir hagsmuna jarða í þjóðlendumálum í Arnarfirði og Dýrafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir