Torskilin bæjarnöfn :: Auðkúla í Svínadal

Auðkúla og hin fallega áttstrenda kirkja sem vígð var árið 1894. Hún var svo friðuð 1. janúar 1990. Mynd: Ljósmyndasafn Héraðsskjalasafns Austur Húnavatnssýslu.
Auðkúla og hin fallega áttstrenda kirkja sem vígð var árið 1894. Hún var svo friðuð 1. janúar 1990. Mynd: Ljósmyndasafn Héraðsskjalasafns Austur Húnavatnssýslu.

Landnáma fræðir oss um upprunann: „Eyvindr auðkúla hjet maðr, hann nam allan Svínadal ok bjó á Auðkúlustöðum“ (Ldn. bls. 135). Skjal finst fyrir því, að bæjarnafnið hefir haldist óstytt til ársins 1489 (DI. VI. 648). En 1510 er það ritað Auðkúla og allar götur úr því, ýmist Kúla eða Auðkúla (DI. IX. 55 og v. í því bindi).

Jafnvel er það ekki sett sem eldra nafn -Auðkúlustaðir - í F., svo djúp er gleymskan og hafði þó dr. Finnur Jónsson bent á rjetta nafnið (Safn IV. B. bls. 509). Heimildirnar sýna, að nafnið hefir styzt um aldamótin 1500, eins og svo mörg önnur bæjanöfn sem breyzt hafa um þær mundir.

Samnefni finst aðeins eitt á landinu: Auðkúla í Hrafnseyrarkirkjusókn í Arnarfirði (V.-Ísafj.s.). Má telja víst að sá bær hafi einnig heitið Auðkúlustaðir til forna - kendir við auknefnið, en styzt afarsnemma.

Af hverju Eyvindur hafi fengið viðurnefnið auðkúla, verður ekki vitað með vissu. Sennilega þó af auðlegð, og táknar þá sama og „auðgi“, sem ýmsir fengu að auknafni í fornöld.

Fremur styðst þetta líka en hitt við merkinguna í n.o. auðkýfingur, sem líklega hefir verið auðkúfur í fornmáli (kýfa af kúfr þ.e. hrúga e-u upp). Þótt hinsvegar „auðkýfingur“ sje gamalt orð (frá 12. öld), sbr. þennan glæsilega vísupart:

Þá er glæsimaðr
ok gullskati,
auðkýfingar
ok oflátar. 1)

Trúlegt þætti mjer, að fornmenn hafi kallað auðuga uppgangsmenn „auðkúlur (enar mestu)“, en það orð hafi aldrei í bækur komist, nema sem auknafn.

1 Kenningaþulir Sn. Edda bls. 274.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 18. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir