Torskilin bæjarnöfn - Dæli í Víðidal (Avaldsdæl)

Ferðaþjónustan Dæli í Víðidal. Mynd af Facebook.
Ferðaþjónustan Dæli í Víðidal. Mynd af Facebook.

Í Víðidalstungumáldaga 1394 stendur þessi klausa:
…. Kirkjubóndi á að taka lýsistolla og heytolla af þessum bæjum ef bygðir eru … hrijsum, neðrum fytium, hvoli, og er hann í audn. Valldarasi. Svolustodum. Bacahlid. Auxnatungum, gaffli. Raffnstodum. avalldsdæli, og er hun í auðn, og hlid. avalldzstodum. Kolugili. huarfuigja (DL III. 539). Máldaginn hefir svo verið endurritaður árið 146l og eru sömu bæir taldir þar upp (DI. V. 3a8). Það er tæplega vafamál að Ávaldsdæli, sem bæði brjefin telja, er Dæli í Víðidal. Í síðara brjefinu er því slept að sú jörð sje í eyði, og hefir hún þó verið bygð.

Ávaldsnafnið virðist svo alveg týnt eftir þetta (1461), a.m.k. finst það ekki í DI. úr því eða jarðabókum. Máld.brjefið sýnir líka, að Svölustaðir og Ávaldsstaðir o.fl. bæir sem nú eru í eyði, hafa verið bygðir 1461. Brjefin sýna líka, að Hrappstaðir í Víðidal hafa heitið Hrafnsstaðir, og er það töluvert algengt að Hrafns- í bæjanöfnum hefir breytst í Hrapps-, fyrst Hraffns-, stundum Hramns-, svo Hrapps-. Þá er það næsta merkilegt, að Ávaldsstaðir og Ávaldsdæli eru báðir í næstu sveit við landnám Ávalda Ingjaldssonar Skegg-Ávalda. „Hann bygði fyrstr at Hnjúk“, segir Hallfreðarsaga (bls. 40 o.v.). Bæjanöfnin styðja einmitt frásögn Hallfreðarsögu, því þau benda á að niðjar Ávalda (eða Ávaldi sjálfur) hafi búið í Víðidal, enda kemur Ávaldsnafnið hvergi annarsstaðar fyrir í íslenzkum fornritum. (Sjá um Skeggvaldastaði hjer síðar).

Nú er bærinn venjulega nefndur Dælir (sem kk. eint. orð), en það er vitaskuld rangt. Í fornmáli var orðið kvk. dæl-, ef. dælar-, flt. dælar-, og beygðist því eins og lægð, för- (o-stofn), en í yngra máli er nf. flt. dælir (orðinn i-stofn), sem önnur orð þessa beygingarflokks. Ýms örnefni hafa og geymt eldri myndina dæl: t.d. Torfdæl, Merkidæl, Rjúpnadæl, o.fl. (DI. III. 558 o.v.). Á bæjanöfnunum hefir breytingin orðið mjög snemma. Dæl í Víðidal stendur hátt, en rjett við bæinn er breitt og stórt gil, sem bærinn dregur víst nafn af. Dæl er líka samst. við dal og hefir upphaflega þýtt lítil daladrög. (T. bn. I. bls. l4).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir