Torskilin bæjarnöfn - Kjalarland á Skagaströnd

Þetta nafn finst ekki í DI. En samt leikur enginn efi á því, að það er óbrjálað nafn, og óbreytt er það í öllum jarðabókum. (Sjá J. og Ný J.bók – Jarðabók 1703 (Kialar).)

Kjalarland stendur sunnan við Hallá (sem kemur ofan Hallárdal). Töluverðum kipp sunnar („innar“ - málv.) rennur Hafursstaðaá, einnig vestur í sjó. Milli ánna liggur allbreiður melur, víða nokkuð hár og hrygg-myndaður. Melur þessi er kallaður Kjölur, og hefir heitið því nafni svo lengi sem elztu menn muna. Á það bendir almenn málvenja þar um slóðir: Að „fara yfir Kjölinn“, þegar menn fara „upp í Dal“ eða „ofan á Strönd“. Vitanlega hefur melurinn fengið nafnið af löguninni (líkur báti á hvolfi). Að þetta örnefni sje gamalt, má ráða af því, að austan við melinn liggur allstór mýri sem heitir Kjalarmýri, og það örnefni er þekt um árið 1520 (í landamerkjabrjefi Hafursstaða), næsta bæ sunnan við Kjalarland. (DI. VIII. 751.) Skýringin fæst því þarna: bærinn verið kenndur við melinn, eins og mýrin. 

   Keimlíkan uppruna getur Kjalardalur í Skilmannahreppi í borgarfirði haft, þótt ekkert verði fullyrt um það. Kjalarnes´s örnefni eru einna kunnust af þessum Kjalar- nöfnum, og sum eiga sjer aðrar rætur. Frægust Kjalarörnefni munu þó vera Kjölur (milli Hofsjökuls of Langjökuls) og Kjölurinn í Noregi (fjallgarðurinn langur og kjölmyndaður). Þess er getið til, og virðist mjög sennilegt, að orðið „kjölur“ sje komið af germ. kelu, engils. cele, og mun tákna bugðu eða beygju (lögun). (Torp: bls. 278.)

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir