Nýr slökkviliðsbíll til sýnis hjá Brunavörnum Skagafjarðar í Varmahlíð

MYND SKAGAFJRÖRÐUR.IS
MYND SKAGAFJRÖRÐUR.IS

Opið hús verður hjá Brunavörnum Skagafjarðar í Varmahlíð, föstudaginn 31. október frá kl. 14:00-15:30. Nýr slökkviliðsbíll verður til sýnis fyrir gesti og gangandi og einnig verður starfsemi og búnaður slökkviliðsins kynntur. 

Nýr bíll mun leysa af hólmi ríflega 50 ára gamla bifreið Brunavarna Skagafjarðar í Varmahlíð. Um er að ræða undanfaraslökkvi- og björgunarbifreið af Perfekt gerð. Bifreiðin er byggð á MB Sprinter undirvagn og er yfirbyggð hjá Perfekt í Póllandi. Þetta kemur fram á vef Skagafjarðar. 

Fyrir bílaáhugafólk þá kemur fram að bifreiðin er sjálfskipt með 9 gírum og hefur leyfilega hámarksþyngd 5.500 kg. Hún rúmar sex slökkviliðsmenn í húsi. Bifreiðin er fullbúin með merkingum, forgangsljósum og gulum aðvörunarljósum.

Yfirbyggingin er úr áli. Dælubúnaður er One Seven OS-900 TeC, sjálfstæð með bensínvél og loftþjöppu. Hann hefur afkastagetu upp á 780 l/mín við 8 bör. Afkastageta með froðublöndu 900 l/mín. Ef eingöngu dælt vatni er afkastagetan 170 l/mín. Stýribúnaður er í 4,3“ skjá með öllum aðgerðum.

Vatnstankurinn er 1.000 lítra, úr tæringarþolnum efnum, með vatnshæðarmæli, og froðutankurinn 100 lítra með froðumagnmæli. Í yfirbyggingunni er einnig miðstöð sem staðsett er í dælurými.

Annar búnaður felur í sér rafdrifið spil með toggetu upp á tæp sex tonn, bæði með snúrutengdri og þráðlausri fjarstýringu, hlífðargrind með LED ljóskösturum, loftdrifið ljósamastur með tveimur 180W flóðljósum og tengingu fyrir húsarafmagn 230V/50Hz.

Fleiri fréttir