Torskilin bæjarnöfn :: Undornfell í Vatnsdal

Undirfell er eyðibýli, kirkjustaður og áður prestssetur í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og stendur undir samnefndu felli. Á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austur Húnavatnssýslu segir að Ingimundur gamli á Hofi í Vatnsdal hafi haft nautabú sitt þar sem Undornfell er nú. Þar kemur einnig fram að þegar jörðin Undirfell var auglýst til sölu í blöðum 1984 var tekið fram í auglýsingunni að öllum tilboðum frá sjálfstæðismönnum yrði hafnað, svo og framsóknarmönnum sem kosið hefðu þann flokk eftir 1978. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu/Björn Bergmann.
Undirfell er eyðibýli, kirkjustaður og áður prestssetur í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og stendur undir samnefndu felli. Á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austur Húnavatnssýslu segir að Ingimundur gamli á Hofi í Vatnsdal hafi haft nautabú sitt þar sem Undornfell er nú. Þar kemur einnig fram að þegar jörðin Undirfell var auglýst til sölu í blöðum 1984 var tekið fram í auglýsingunni að öllum tilboðum frá sjálfstæðismönnum yrði hafnað, svo og framsóknarmönnum sem kosið hefðu þann flokk eftir 1978. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu/Björn Bergmann.

Landnáma minnist á bæinn: „Þórir (Ingimundarson) hafði goðorð ok bjó at Undurnfelli“ (132). Vatnsdæla (66) veit betur: „Þórir hafrsþjó bjó at Nautabúi; þat heitir nú at Undunfelli.“ Þar hefir því verið nautabú Ingimundar goða. Forliður nafnsins brenglast svo á ýmsa vegu, en bendir þó furðumikið á upprunanafnið: Árin 1344: Undon- (DI. IV. B.). 1360: Undan- (DI. III. B.). 1394: Unden- og Undin- (DI. III. B.). Á 16. öld mun fyrst fara að votta fyrir Undir- en fyrri ekki (sbr. DI. II. 477, 489 [l429] o. v.). Undorn (eða undurn) var eyktamarksheiti í fornmáli.

Í þessu bæjarnafni merkir það vafalaust tímann, um 3-leytið e. hád., því að sjálfsögðu hefir fellið heitið nafninu upphaflega, en af því, að bærinn stóð undir fellinu, færðist nafnið á bæinn fljótlega, en Nautabú hvarf úr sögunni. Eins og mönnum er vitanlegt, stendur Undornfell að vestanverðu í dalnum, og á hálsinum syðst, sjeð frá bænum, er hátt fell í rjettri stefnu við sól um kl. 3 e. hád. Hlýtur það að vera Undornfell hið forna, því ekki hefði bærinn verið kendur við fjöllin að austanverðu.

6. erindi í Völuspá: 

„Morgin hjetu
ok miðjan dag
undorn ok aptan“

getur frekar bent á þennan tíma, en dagmálaleytið (kl. 9), því eyktanöfnin eru talin í röð: morgunn, miður dagur (hádegi), undorn kl. 3, aptan og miðaptan. Orðið undurn er þekt í Naumudal og Þelamörk í Noregi og þýðir (einmitt) miðdegisverð (um kl. 3) og sænskan undarn merkir miðdegis- (milli-) máltíð. Hefir því þessi merking orðsins geymst þarna furðu lítið breytt. (Í forn-þýzku merkja orðin undarn og undern einnig miðdegi ([kl. 3]). Hvort rjett er að engilsax. undern og gotn. undaurni-mats hafi táknað dagmál, læt jeg ósagt (sbr. A. Torp Etym.l. Ordb., bls. 837), en afstaða hins umrædda bæjar við fellið virðist ákveða rjetta merkingu orðsins undorn hjer á landi. Mætti ekki láta svo merkilegt nafn niður falla.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 39. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir