Tryggjum Guðbjarti 1. sætið á lista Samfylkingarinnar í prófkjörinu dagana 6.- 8. mars.

Guðbjartur Hannesson

Helgina 6. – 8. mars n.k. fer fram prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Ellefu öflugir frambjóðendur bjóða fram starfskrafta sína til að vinna fyrir almenning á alþingi Íslendinga. Einn þessara manna er Guðbjartur Hannesson. Guðbjartur eða Gutti eins og hann er gjarnan kallaður er þekktur og vinsæll einstaklingur á suðursvæði kjördæmisins enda á hann að baki farsælan feril sem skólastjóri, sveitarstjórnarmaður og forystumaður í félagsmálum innan skáta- og íþróttahreyfingarinnar.

Guðbjartur var fyrst kjörinn til setu á Alþingi árið 2007. Hann var formaður félags- og tryggingamálanefndar á nýliðnu kjörtímabili, sat í menntamálanefnd og fjárlaganefnd en er nú forseti Alþingis. Það hefur komið mörgum á óvart hversu öflugur þessi nýliði er á þingi. Okkur sem þekkjum Gutta kemur það ekki á óvart enda er hér öflugur leiðtogi á ferð.

Í störfum sínum á Alþingi lagði Guðbjartur þunga áherslu á almannahag og mun halda því áfram fái hann til þess umboð kjósenda. Hann telur baráttuna framundan snúast um nýtt og betra samfélag þar sem samábyrgð, jafnrétti og aukið lýðræði eru meðal þeirra gilda sem berjast þarf fyrir. Hann leggur einnig ríka áherslu á að auka vægi landsbyggðarinnar, bæði með eflingu atvinnulífsins þar, auknum tækifærum til framhaldsmenntunar í héraði og styrkingu háskólanáms og símenntunar.

Nú þegar þjóðarskútan siglir í ólgusjó er mikiklvægara en nokkru sinni fyrr að hafa öfluga og framsýna einstaklinga á Alþingi. Guðbjartur hefur allt til að bera til að vera öflugur fulltrúi okkar. Hann hefur margsannað að hann er leiðtogi í sínu liði og óhrædddur að berjast fyrir þá sem minnst mega sín. Guðbjartur mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir sitt fólk af óeigingirni og myndugleika.

Ég hef unnið lengi með Guðbjarti og veit hvaða mann hefur að geyma. Þess vegna legg ég honum lið í þessari kosningabaráttu. Hann er alþingismaður sem er traustsins verður.

Tryggjum Guðbjarti 1. sætið

Höf. Sigurður Arnar Sigurðsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir