Um hækkun hvatapeninga í Sveitarfélaginu Skagafirði

Nú á haustmánuðum samþykkti Félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar tillögu meirihlutans um hækkun á hvatapeningum sem ætlaðir eru til að auðvelda börnum að stunda íþróttir og tómstundastarf. Nam hækkunin 17.000 kr. á hvert barn sem verður að teljast rausnarleg hækkun, en styrkurinn fór úr átta þúsund krónum í tuttugu og fimm. Hækkun hvatapeninga höfðu allir flokkar á sinni stefnuskrá í vor, enda löngu orðið tímabært, þó upphæðir og útfærslur væru mismunandi.

Ekki má þó gleyma að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur stutt dyggilega við bakið á tómstundaiðkun barna í gegnum tíðina t.d. með gjaldfríum aðgangi barna og unglinga að sundlaugum sveitarfélagsins og rausnarlegum styrkjum til íþróttafélaganna sem að sjálfsögðu gerir þeim kleift að halda æfingagjöldum í lágmarki.

Það verður nefnilega að segjast eins og er að við erum afskaplega heppin með íþróttafélög hér í Skagafirði. Þau hafa stillt æfingagjöldum sínum í hóf þannig að þegar upp er staðið hafa foreldrar í sveitarfélaginu ekki greitt hærri upphæðir vegna íþróttaiðkunar barna sinna en annarsstaðar á landinu þrátt fyrir lægri hvatapeninga.

Það hefur nefnilega viljað brenna við að þar sem tómstundastyrkir sveitarfélaganna til barna hafa hækkað, hafa gjaldskrár félaganna einnig hækkað í kjölfarið og kostnaður heimilanna staðið í stað.

Það kom því ekki til greina af hálfu meirihlutans að hækka hvatapeninga einhliða. Því var lagt til að ásamt því að hækka hvatapeningana yrði farið í viðræður við UMSS um aukinn styrk til félaganna gegn því að þau myndu ekki hækka æfingagjöld sín á árinu. Þannig var tryggt að hækkunin skilaði sér öll til fjölskyldnanna.

Þá voru að tillögu meirihlutans hafnar viðræður við UMSS um endurskoðun styrkveitinga og æfingagjalda og eru þau mál nú til skoðunar hjá félögunum. Um er að ræða kerfisbreytingu sem þarfnast mikils undirbúnings og vonumst við til þess að þeirri vinnu verði lokið í vor. Verði niðurstaða þeirrar vinnu jákvæð mun tekið tillit til þess í fjárhagsáætlun næsta árs og nýtt fyrirkomulag koma til framkvæmda um áramót.

Um er að ræða svipaða leið og farin hefur verið í Grindavík þar sem hvert barn greiðir aðeins eitt æfingagjald sem er í dag 40.000 kr. en getur stundað eins margar íþróttagreinar og það kærir sig um. Engir hvatapeningar eru greiddir heldur rennur sú upphæð til íþróttafélagsins ásamt styrkjum frá sveitarfélaginu. Þetta fyrirkomulag krefst í upphafi mikillar yfirlegu hjá stjórnum félaganna svo fjármagn til rekstrar sé tryggt og síðan mun reyna á yfirstjórn UMSS að skipta fjármagninu á sanngjarnan hátt. Áfram mun þurfa að skrá sig til þátttöku og brýnt að mætingaskylda sé til staðar til að starfið dali ekki.

Tryggt verður að áfram verði hægt að sækja um hvatapeninga vegna tónlistarnáms og annars frístundastarfs sem ekki flokkast undir íþróttir.

Við höfum frábært starfsfólk á fjölskyldu- og frístundasviði og kann ég þeim bestu þakkir fyrir þá miklu vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi og ekki síður sem framundan er til að þetta megi verða.

Að lokum má geta þess að Félags- og tómstundanefnd samþykkti á dögunum tillögu meirihlutans að beina því til Sveitarstjórnar að sækja um að sveitarfélagið gerist þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag sem er lýðheilsuverkefni sem hvetur til aðgerða til að bæta heilsu, líðan og lífsgæði íbúa.

Gerum lífið betra í Skagafirði

Guðný Axelsdóttir
Formaður Félags- og tómstundanefndar í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir