Um Riishús á Borðeyri, endurbyggingu þess, sögu og starfsemi :: Áskorandapenninn Kristín Árnadóttir

Þegar þessi orð eru skrifuð skartar Hrútafjörðurinn sínu fegursta, spegilsléttur og bjartur og húsin á tanganum kúra í sólskininu, flest frá fyrri hluta síðustu aldar. Eitt þeirra sker sig þó úr; elsta húsið við Húnaflóa og jafnframt með þeim fallegri; Riishúsið á Borðeyri, byggt 1862.

Það var mikil blessun að sú ákvörðun var tekin um 1990, að endurbyggja skyldi þetta mikilvæga hús í sögu staðarins og getum við þakkað það fyrst og fremst einum manni, bóndanum knáa, Sverri Björnssyni í Brautarholti (1932-2020), sem leiddi endurbyggingarstarfið af stakri prýði og hreif aðra með sér. Myndaður var félagsskapur sem nefnist: Félag áhugamanna um endurbyggingu Riishúss og var hafist handa við endurreisnarstarfið 1994. Hér réðu skynsemin og hógværðin för; ekki skyldi taka lán til framkvæmdanna, heldur safna peningum og var leitað í ýmsa sjóði og stofnanir, m.a. til Minjastofnunar (áður Húsafriðunarnefndar) og sveitarfélagsins, en þegar féð var uppurið, var gert hlé og hafist handa við fjáröflun á ný.

Til að gera langa sögu stutta, þá höfum við enn ekki lokið verkinu, en neðri hæðin er komin í sitt upprunalega horf, að mestu. Á undanförnum árum höfum við, nefndarfólk og stuðningsmenn, getað opnað dyr hússins yfir sumarmánuðina, með kaffihúsi, nytja-og handverksmarkaði ásamt söguskoti með ýmsum munum frá sokkabandsárunum og enn berast merkir gripir til hússins.

Það er með miklu stolti og gleði sem við tökum á móti ferðamönnum, bæði erlendum og innlendum, sem margir sýna húsinu og sögunni mikinn áhuga, panta sér kaffi og belgíska vöfflu, kaupa jafnvel prjónles og kleinupoka, smádót úr nytjamarkaðnum, taka myndir og lofa fegurð húss og umhverfis. Í fyrra skráðum við heimsóknir ferðamanna frá 23 löndum úr öllum heimsálfum, fyrir utan Íslendingana, sem fagna því að kynnast sögu staðarins.

Aftur til miðrar 19. aldar, er ungur athafnamaður, menntaður í verslunarfræðum í Englandi, Pétur Eggerts, kom hingað til að stunda verslun, þótt ekkert væri húsið á eyrinni, en Hrútafjörður þótti heppilegur þar sem skip gátu siglt inn fjörðinn og varpað hér akkerum. Pétur byggði sér lítinn torfbæ og húsið sem er aðallega til umfjöllunar hér, sem íbúðarhús fyrir verslunarstjóra sinn. Hann reisti enn fremur stórt vöruhús og verslunin blómstraði. Pétur Eggerz hefur verið nefndur faðir Borðeyrar og það með rentu. Riis-hús er kennt við vinsælan og heiðarlegan danskan kaupmann, Richard Peter Riis, sem rak verslunina í um 30 ár, frá 1890-1919, og naut trausts og virðingar viðskiptavina sinna, bændanna.

Borðeyri á sér merkilega sögu, hér var vagga verslunar og gjörbreyting varð á kjörum íbúanna með versluninni hér á sínum tíma og ber okkur að halda þeirri minningu á lofti. Riishús er í huga okkar margra, djásn okkar og stolt og er talið vera með dýrmætustu minjum núverandi sveitarfélags okkar, Húnaþings vestra.

Sendi pennann til Ingibjargar Rósu Auðunsdóttur, sauðfjárbónda og ferðamálafræðings, Kollsá.

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir