Unglingadeildin Trölli :: Hafdís Einarsdóttir skrifar

Myndir af Facebooksíðu Skagfirðingasveitar.
Myndir af Facebooksíðu Skagfirðingasveitar.

Unglingadeildin okkar, Trölli, var stofnuð árið 1992 og hefur því verið starfrækt í þrjátíu ár. Í upphafi starfsins var unglingadeildin Trölli sér eining innan SVFÍ (Slysavarnarfélags Íslands). Undanfarin ár hefur hún hins vegar verið rekin sem hluti af björgunarsveitinni Skagfirðingasveit.

Á þeim þrjátíu árum sem Trölli hefur verið starfrækt hafa hundruð unglinga tekið þátt í starfi deildarinnar; fengið þjálfun í ýmsum þáttum sem tengjast björgunarsveitarstarfi, eflst í félagslegum þroska, öðlast þekkingu á ábyrgari ferða- og útivistarhegðun og svo mætti áfram telja. Unglingarnir öðlast þekkingu sem skilar sér út í samfélagið okkar. Þekkingu sem aldrei verður tekin af þeim og mun ávallt nýtast þeim á einhvern hátt í lífinu.

Að hafa rúllað hundruðum unglinga í gegnum unglingastarfið þýðir líka að tugir félaga okkar hafa gefið af sínum tíma til þess að efla björgunarsveitarstarfið til framtíðar og leggja til samfélagsins. Sá tími er ómetanlegur og sér í lagi vegna þess að allir stunda þeir einnig æfingar, fjáraflanir og útköll með sveitinni.

Þegar sá hópur sem er á útkallslista í dag er skoðaður kemur í ljós að stærstur hluti þeirra sem þar er hóf björgunarsveitarferilinn sinn í Trölla. Mikilvægi deildarinnar er því mikið og eru félagar okkar fullkomlega meðvitaðir um það. Í dag eru á bilinu 25 til 30 unglingar starfandi með unglingadeildinni auk þess sem fimm félagar Skagfirðingasveitar halda utan um starfið. Þar að auki koma aðrir félagar inn og aðstoða þegar á þarf að halda.

Unglingadeildin æfir einu sinni í viku, mætir á tvo stærri viðburði á vegum félagsins ár hvert; auk annarra smærri viðburða. Starfið telur fleiri hundruð klukkustunda á ári hverju. Þar að auki fá þeir félagar unglingadeildarinnar sem eru komnir á framhaldsskólaaldur að mæta á æfingar hjá eldri deildinni. Þar tengjast ungir og aldnir; þeir ungu fá aukna ábyrgðartilfinningu og erfiðari æfingar og þeir eldri fá tækifæri til að miðla sinni þekkingu, allir eflast.

Að mínu mati er mikilvægasti þáttur unglingastarfsins sú þekking sem við skilum til samfélagsins og tilfinning unglingsins varðandi það að tilheyra einhverjum hópi (e. belonging). Það er þekkt að sú tilfinning skili einstaklingum innihaldsríkara lífi, meira sjálfstrausti og betri líðan. Öll viljum við jú að unglingunum okkar líði vel.

Allir eru velkomnir til starfa hjá okkur í unglingadeildinni (9. bekkur og eldri) og björgunarsveitinni, þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín í mismunandi verkefnum. Það geta allir lagt lið á einhvern hátt og fundið sér hlutverk, svo fremi sem einstaklingurinn hafi félagslegan þroska til að tilheyra hópi, virða aðra og vinna með þeim. Það er gott skref að byrja að æfa þessa þætti í unglingadeildinni.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa lagt unglingadeildinni Trölla lið undanfarin þrjátíu ár og sendi til þeirra stórt hrós fyrir vel unnin störf.

Hafdís Einarsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir