Ungt fólk í Skagafirði – Hvað skiptir okkur máli

Í Sveitarfélaginu Skagafirði býr margt ungt fólk með mismunandi áhugasvið. Mitt áhugasvið liggur helst inn á svið íþrótta- og félagslífs. Sjálfur spila ég knattspyrnu með meistaraflokk Tindastóls en ég hef æft knattspyrnu frá fimm ára aldri. Á líðandi skólaári hef ég setið í stjórn nemendafélags FNV og tekið virkan þátt í öllu því félagslífi sem fram fer í skólanum og utan hans.

Að mínu mati er það mjög mikilvægt að sveitarfélagið haldi áfram að vinna að því að styrkja íþróttastarf og tónlistar- og félagsstarf í öllu héraðinu. Íþróttir og tónlist er feikilega mikilvægur félagslegur þáttur hjá krökkum og svo er hreyfingin auðvitað holl fyrir alla. Í þessu starfi eignast maður vini til lífstíðar, hvort sem það eru strákar eða stelpur. Öflugt starf og gott aðhald yngri flokka í íþróttum skilar sér svo í góðum árangri meistaraflokka, eins og sjá má í árangri körfuboltaliðs Tindastóls þar sem margir heimamenn gegna lykilhlutverki. Sá góði stuðningur og hvatning frá Sveitarfélaginu Skagafirði sem verið hefur þarf að halda áfram svo að fleiri svona lið með ungu heimafólki verði til.

Það er umtalað hjá unglingum í Skagafirði að félagslíf hér á svæðinu sé ekki nógu gott, ég tek ávallt undir í þeim samræðum. Lítið er í boði fyrir unglinga á aldrinum 17-21 árs og hafa þau engan stað til að hittast og slappa af, vera saman. Á þessum aldri finnst fólki gaman að fara á skemmtanir og böll og mörgum finnst vera of lítið í boði sérstaklega fyrir krakka á aldrinum 16-17 ára þar sem þau geta ekki farið á grunnskólaböll og ekki á önnur böll þar sem þau hafa ekki aldur til þess. Það eru fáir skemmtistaðir í Skagafirði og það mætti þó nýta þá staði betur. Sveitarfélagið gæti komið til móts við þennan aldurshóp með því að efla starfið í Húsi frítímans.

Eitt af mínum hjartans málum er nemendafjöldi og námsframboð í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra. Það myndi styrkja skólastarfið ef að nemendafjöldinn væri meiri ásamt því að það styrkir líka samfélagið okkar hér í friðinum. Það er staðreynd að margir krakkar sem útskrifast úr grunnskólum í Skagafirði kjósa að flytja á Akureyri og aðra staði til að stunda framhaldsnám. Þarna er tækifæri til þess að hvetja þessa nemendur og auðvelda  þeim að stunda nám í heimabyggð án þess að flytja að heiman. Inn í þetta spilar svo það félagslíf sem er í boði eins og nefnt var hér að ofan. Námsframboð skólans hefur farið minnkandi að undaförnu og  hagfræði- og íþróttabraut hafa verið lagðar niður sökum þess að ekki eru nógu margir nemendur sem sækja þessar námsbrautir og finnst mér það sorglegt. Ég er sjálfur að útskrifast af hagfræðibraut þann 25. maí næstkomandi og er það næstseinasti árgangurinn sem gerir það í bili.

Allir vilja sjá ungt fólk blómstra í samfélaginu og liður í því er að bæta úr þeim þáttum sem hér hafa verið taldir upp. Ungt fólk á að geta stundað íþróttir og annað félagsstarf og sótt nám í heimabyggð ásamt því að geta verið virk í góðu félagslífi. Í Skagafirði er fullt af flottum ungmennum sem er vert að reyna að halda sem lengst í heimabyggð.

Jón Grétar Guðmundsson.

Höfundur skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir