Vegagerð á Reykjaströnd -Hörður Ingimarsson skrifar

20. september. Víðimels-Sveinn beið á ýtunni á tippnum eftir næsta bíl frá Vatnsleysu og fyrr en varði hvarf fallegi blágrái liturinn og vegurinn að verða næstum fullgerður.
20. september. Víðimels-Sveinn beið á ýtunni á tippnum eftir næsta bíl frá Vatnsleysu og fyrr en varði hvarf fallegi blágrái liturinn og vegurinn að verða næstum fullgerður.

Það var 27. júlí 2021 sem opnuð voru tilboð í Reykjastarandarveg númer 748 sem nær frá Þverárfjallsvegi að Fagranesánni. Samið var við Vegagerðina um verkið 25. ágúst 2021 við samstarfsaðilana Steypustöð Skagafjarðar ehf. og Víðimelsbræður ehf. Sauðárkróki og tilboðið hljóðaði upp á 364.594.200 krónur.

Lengd kaflans er 5,5 kílómetrar, helstu magntölur eru:

Fylling úr skeringum og námum 16.150 m3
Flágafleygar úr skeringum og námum, 20.550 m3
Ræsalögn 420 m
Styrktarlag með efnisvinnslu úr bergi 26.500 m3
Burðarlag með efnisútvegun 8.400 m3
Tvöföld klæðning með efnisútvegun 36.200 m2
Frágangur fláa 101.900 m2
Netgirðingar með vegi 6.450 m
Verklok 1. október 2022.

Ráðist í verkið

13. maí. Stefán Reynisson eftirlitsmaður
Vegagerðarinnar allan verktímann á „Ströndinni“.

Hafist var handa síðsumars í fyrra og rösklega staðið að verki. Lokið að mestu við ræsi og ýmsar skeringar. Þegar verkfært var í vor hafist handa með vélar og tæki. Einhverjar tafir urðu vegna aðkomu að efnisnámum svo mölun gæti hafist. Fyrr en varði var verkið komið í fullan gang. Gríðarlegir efnisflutningar stanslaust í um fimm mánuði. Brotaefni í burðarlag um 60 cm þykkt á allan vegarkaflann úr námunni í gamla Brúarlandinu. Síðan efnislag 12-14 cm úr námum í landi Vatnsleysu á Gljúfuráreyrum rösklega 20 km akstur önnur leiðin, síðan 10 cm fínlag áður en olíumalarlag kemur að síðustu sem slitlag.

Til gamans má geta þess að rjómabú sem hét Framtíðin starfaði frá 1905–1920 á Gljúfuráreyrum á svipuðum slóðum og efnistakan fer nú fram svo afurðirnar eru með ýmsum hætti frá svæðinu. Feiknamikil umferð um Reykjastrandarveg var allan verktímann, ótrúleg umferð ferðamanna ekki síst útlendinga. Þetta kom verktökunum verulega á óvart og var heftandi og tefjandi. Að auki var talsverð vætutíð og ekki hefðbundin sumartíð á „Ströndinni“.

Jafndægri á hausti

5. júní. Það var malað og malað og margir urðu
efnishaugarnir, jafnvel gröfurnar þurftu helgarfrí.

Á jafndægrum á hausti 23. september er efnisflutningum svo til lokið að undanskildu slitlaginu. Reiknað er með að það verði lagt á veginn nú síðustu dagana í september ef veður leyfir. Þá verður glæsilegasti og burðarmesti vegur í Skagafirði fullbyggður sem standa mun óhaggaður um aldir.

Kirkjuvegurinn út í Fagranes þótti erfiður og torfarinn og kirkjan var því aflögð og flutt að Sjávarborg en ný kirkja tekin í notkun á Króknum 1892 í gamla Sauðárhreppnum sem síðan 1907 var skipt í Skarðshrepp og Sauðárkrók.

Margreynt hetjulið vegagerðarmanna

19. september. Það seig á seinni hluta útlagningu burðarlagsins. Fagur liturinn
á veginum eðalsteinar úr Tindastóli.

Eftir áralanga bið eftir vegabótum var kærkomið að fylgjast með framkvæmdum. Gamla „Fjarðargengið“ var áberandi við verkið en nú í eigu Víðimelsbræðra. Samstarfið var afar gott við Steypustöðina. Þetta reyndist samhentur hópur og verkið lofar „meistarana“. Reykjastrandarvegurinn verður góður minnisvarði fyrir alla þá er að verkinu komu. Svo fáeinir séu nefndir þá var Sveinn Árnason frá Víðimel á ýtunni á tippnum. Á bílunum, Jón Árnason frá Víðimel, Eiríkur Sigurðsson Sigga í Drangey, Jón Sigurðsson frá Reynistað, Böðvar Finnbogason frá Þorsteinsstöðum, Davíð Örn Konráðsson og Ingimar Ástvaldsson báðir úr Króknum, Jakob Svavarsson frá Síðu og Blönduósi, Þorri Árdal Birgisson Valagerði, Garðar Þór Eiðsson af Hólaveginum og Emil Hauksson Króksari. Þessir tíu ofangreindir bílstjórar komu að verklokunum en flestir höfðu keyrt frá upphafi verksins. Fjölmargir fleiri komu að lagningu vegarins. Verkstjóri Feykir Sveinsson frá Víðimel, einstaklega farsæll stjórnandi.

Við bergbrotið og mölunina í Tindastóli Friðrik Pálmason af Svaðastaðaætt og Andri Traustason frá Syðra-Vallholti. Annar mannskapur sá um vinnsluna í landi Vatnsleysu.

Hver verður framtíðin?

23. september. Og það var malað mánuðum
saman og svona leit náman út við verklok
Reykjastrandarvegar. Tindastóllinn ekki samur.

Draumsýn gamla kunningja míns, Jóns heitins Drangeyjarjarls Eiríkssonar um vegabætur á Ströndinni er að nokkru framkomin en vegurinn frá Daðastöðum um Hólkot norður fyrir Ingveldarstaði er afleitur. Að ekki sé talað um leiðina að Reykjum í sjálfa ferðamannaparadísina Grettislaugina og Drangeyjarútveginn.
Nýjar kynslóðir verða að halda verkinu áfram við Reykjastrandarveg vonandi verður biðin ekki of löng.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir