Við erum tungan - Áskorandapenninn - Jón Freyr Gíslason Staðarbakka Miðfirði

„Er þetta bodyguardinn þinn?“ - „Haa! hvað er það?“ - „Æjj þú veist...bodyguard.“  Þetta samtal ungra bræðra sem ég heyrði um daginn fékk mig til að velta vöngum. Velta vöngum yfir því hvaða framtíð bíður móðurmáls okkar, tungumálsins sem Íslendingar hafa verið ötulir við að nota í aldanna rás, ef orð á borð við lífvörður komst ekki inn í orðaforða níu ára drengs árið 2019 þegar enska orðið fór beint inn.

„Ég vissi ekki hvað lífvörður né bodyguard þýddi þegar ég var níu ára! Þetta eru ansi háar væntingar til barna hjá honum þessum!“ - gætu einhverjir lesendur hugsað. Orðaforði barna er auðvitað persónubundinn en málið er að viðhorf þeirra og margra fullorðinna til íslenskunnar hefur breyst gríðarlega á síðastliðnum árum eftir að enskan bankaði upp á.

Mér féllust hendur þegar ég hugsaði um hve fáir virðast kippa sér upp við hraðminnkandi máltilfinningu Íslendinga fyrir sínu eigin móðurmáli. Þessi þróun lýsir sér þannig að við erum byrjuð að miða margt sem við segjum, skrifum og jafnvel hugsum út frá enskunni, í sumum tilfellum einnig skandinavískum tungumálum. Við setjum allt í einu spurningarmerki við ósköp venjuleg íslensk orð og setningar sem hafa hingað til ekki verið álitin of gamaldags eða heimóttarleg. Við eigum líka sífellt erfiðara með að fallbeygja og muna hvernig orðin breytast eftir tíðum sem bætir gráu ofan á svart.

Fæ það oft á tilfinninguna að í hraðanum sem einkennir nútímann gefi fólk sér einfaldlega ekki tíma til að tala og skrifa íslensku. Hvers vegna? Því enskan „selur“ og er það sem fólkið úti í heimi talar. Hví að nota tungumál sem aðeins um 400.000 manneskjur í heiminum skilja þegar við getum talað ensku eins og allir hinir og allt verður svo miklu auðveldara? Þú veist, hver nennir að tala icelandic, seriously? „Ég expressaði mig..“ „Það er echo inni í þessum helli!“ „..einn frægasti aktívisti Bandaríkjanna..“ „..sé aftur accepted sem ehv ögrandi..“ „..ég náði ekki að vefja hausnum mínum í kringum..“

Þetta eru brotabrot af setningum sem ég hef heyrt og lesið.  Lítum við núna ósjálfrátt á ensku orðin sem flottari valkostinn? Eru orðin tjáning, bergmál og aðgerðar-/baráttusinni allt í einu kjánaleg og orðasamböndin „tekinn í sátt“  og „koma því ekki inn í hausinn“ of formleg?  Er þetta heilbrigð þróun á tungumálinu eða einfaldlega útskipting íslenskra orða? Erum við að gleyma okkur sjálfum í móki alþjóðavæðingarinnar?

Við erum vel stæð og vel menntuð þjóð sem hefur alla burði til að styðja við íslenskuna, bæði skriflega og munnlega. Það er ekki einungis  í höndum yfirvalda að varðveita og þróa hana, almenningur á stærstan þátt í því. Ég vil hvetja alla til að nota íslenskuna og vera stolta af því.  Talið við börnin og lesið fyrir þau á íslensku. Talið við hvort annað og innflytjendur á íslensku. Notið fjölbreytt orð og verið opin fyrir því að læra ný. Verið óhrædd við að gera mistök, það er mun betra en að reyna ekki yfir höfuð að nota tungumálið. Búið til nýyrði og komið þeim í „umferð“. Stillið tækin og síðurnar á íslensku þegar það er hægt. Styðjið við útgáfur á íslensku afþreyingarefni og búið til eftirspurn. Höfðið til Íslendinga til jafns við ferðamenn.

Hið ástkæra ylhýra er gjaldgengt hvar sem er á Íslandi. Hvort sem það er á tölvuleikjamóti eða ljóðamessu, á viðskiptafundi eða í slúðri unglinga og hvort sem það er í stafrænum heimi eða raunheimi. Íslenskan er eins lifandi tungumál og við viljum hafa hana. Enskan mun vafalítið vera hér eftir hundrað ár verandi alþjóðatungumálið en íslenskan má ekki við því að við takmörkum notkun hennar við sífellt færri orð, svið og aðstæður. Hnattvæðingin er góð að mörgu leyti en gleymum ekki okkur sjálfum í öllum asanum, okkar eigin menningu sem er samtvinnuð tungumálinu. Fjölbreytnin í heiminum er það sem gerir hann skemmtilegan og tungumálið okkar er hluti af þeirri mynd.
Ég skora á Guðrúnu Helgu Magnúsdóttur að taka við pistlakeflinu.  

Áður birst í 33. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir