Vinna og vökustundir - Fróðleikur frá Byggðasafni Skagfirðinga

Bakkaljár frá Kálfárdal.
Bakkaljár frá Kálfárdal.

Nú er rispa í kjarasamningsgerð ný yfirstaðin og ýmsar nýjar áherslur bornar á borð s.s. stytting vinnuvikunnar. Út frá umfjöllun um kjaramál vöknuðu hugleiðingar um vinnutíma og vinnuaðstæður fólks á liðnum öldum. Aðskilnaður heimilis og atvinnu hafði ekki enn átt sér stað á seinni hluta 19. aldar og frumvinnsla matvæla og klæða hélt fólki við verkin frá sólarupprás til sólarlags og rúmlega það, ef marka má frásagnir Hrafnagils-Jónasar í bókinni Íslenskir þjóhættir. 

Árið markaðist af hringrás verkefna og vertíða í sveitum landsins, s.s. sláturtíð og frágangi matvæla að hausti, tóvinnu að vetri, sauðburðar og túnávinnslu að vori og sláttutíðar (heyskapar) að sumri. Önnur árstíðabundin verkefni bættust ofan á þau verk sem unnin voru dagsdaglega innan og utan heimilanna, s.s. matseld og umhirðu skepna, bús og barna. Lengri umfjöllun þyrfti til að gera öllum verkunum skil svo vel sé, en hér verður aðeins minnst á tóvinnu og sláttutíð.

Tóvinna
Eftir að sláturtíð lauk að hausti og fram að vori voru ýmis verk sem þurfti að vinna, þ.á.m. tóvinna, að vinna úr ullinni sem safnað hafði verið sumarið áður. Slík verk voru m.a. unnin á kvöldin og var sá tími kallaður kvöldvökur. Karlar kembdu ullina og konur spunnu, ýmist á rokk eða snældu, en allir þurftu að skila af sér nokkru prjóni þó mismikið væri. Vinnukonur áttu að prjóna eina alsokka á dag, eða kemba og spinna ull í einn sokk og prjóna hann.[1] Gott verk þótti ef tvær konur prjónuðu peysubol á dag, eða skiluðu sex peysubolum eða fjórum peysum á viku. Peysur og bolir bættust ofan á sokkaskilaskylduna. Karlar höfðu stundum prjónana með sér í útihúsin og prjónuðu á meðan þeir gengu á milli húsa. Það sama má segja um konur sem stundum höfðu snælduna með sér og spunnu garnið eða prjónuðu á göngu á milli staða. Um leið og börn höfðu færni til voru þau sett við prjónana, og um átta ára aldur urðu þau að skila vissu framlagi á dag eða viku. Hótun um heimsókn Grýlu gömlu ef þau stæðu sig ekki var áhrifaríkt agatæki. Börn voru einnig látin tæja og kemba ull.[2]

Vinnuskyldan var mikil og æði hörð og stundum dugði vökutíminn ekki til. Þá þurfti að sitja í rökkrinu til að klára verkin. „Þessi þráseta við prjónaskapinn var eðlilega ekki til heilsubótar, og það því fremur þegar kalt var í baðstofunum, og enda hvort sem var, sátu konur mest á fótum sínum, annað hvort uppi í rúmi eða á gæruskinni á gólfinu. Leiddi af því tíðarteppu og aðrar kvellisóttir, sem stóðu í sambandi við aðra aðbúð kvenna.“[3]

Sláttutíð
Yfir sumartímann tók við önnur vertíð sem ekki var síður krefjandi til viðveru og vöku, en það var sláttutíðin.[4] Betra taldist að hefja túnslátt með vaxandi tungli, en það þótti drýgja heyið. Heyskap átti ennfremur helst að hefja á föstudegi eða laugardegi, en síður á mánudegi og alls ekki „þann dag, sem var upp á Pálsmessu veturinn fyrr.“[5] Norðanlands var oft slegið á nóttunni, sér í lagi ef þurrt var yfir daginn, til þess þá að nýta þurrkinn sem best og ljárinn gekk vel í grasinu í næturrekjunni. Oft var staðið lengi við slátt, allt að 18 klukkustundir. Hverjum fullgildum manni var gert að slá „dagsláttuna á dag, 30 faðma á hlið, og mátti helmingurinn vera þýfður, en hitt átti að vera slétt.”[6] Fáir gátu staðið undir slíku dagsverki og um miðja 18. öld þótti gott ef slegnar voru 4-5 dagsláttur á viku. Skussi þótti sá sem sló minna en það, en svo voru stórtækir menn eins og förumaðurinn og þjóðsagnapersónan Magnús sálarháski sem er sagður hafa slegið 2-3 dagsláttur á dag. Frá Skagafirði er nefndur maður, Þórður, sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar, sem þótti svo góður sláttumaður að þrjár rakstrarstúlkur áttu fullt í fangi með að raka á eftir honum.[7]

[1] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 3-7.
[2] Sama heimild. Bls. 112-114.
[3] Sama heimild. Bls. 113.
[4] Á Norður- og Vesturlandi var ekki óalgengt að konur tækju fullan þátt í slætti, ekki aðeins rakstri eins og víða var annarstaðar. Ekki er hægt að segja að kynjahlutverkin hafi verið jafn skýr og afmörkuð áður fyrr og stundum er haldið fram.
[5] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls.79.
[6] Sama heimild. Bls. 79.
[7] Sama heimild. Bls. 79-80.

 Áður birst í 21. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir