Forseti Íslands heimsækir Hóla
Hólahátíðin verður helgina 16.-17. ágúst. Að þessu sinni verður Hólahátíð barnanna laugardaginn 16. ágúst og mun skátafélagið Eilífsbúar sjá um dagskrá fyrir börn og fjölskyldur í fögru umhverfi Hólastaðar. Farið verður í leiki og þrautir, gengið um í skóginum, söngstund í kirkjunni og grillað við Auðunarstofu. Á sunnudeginum verður að venju hátíðarmessa í Hóladómkirkju kl. 14, síðan veitingar efir messu og hátíðardagskrá í kirkjunni kl. 16:10.
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir mun flytja Hólaræðuna og munu forsetahjónin mæta til Hóla kl. 14 og taka þátt í dagskránni og þiggja síðan kvöldverðarboð í biskupsgarði.
Kór Hóladómkirkju og Skagfirski Kammerkórinn syngja við messuna auk þeirra Óskars Péturssonar og Ívars Helgasonar, en þeir syngja einnig á hátíðarsamkomunni eftir messu.
Organistar og meðleikarar verða þeir Jóhann Bjarnason og Valmar Väljaots. Stjórnandi Kammerkórsins er Elena Zharinova. Einnig verður söngatriði sérstaklega valið fyrir forsetakomuna og verður það auglýst síðar.
Sr. Gísli Gunnarsson Hólabiskup sagði í stuttu spjalli að hann reiknaði með fjölmennri Hólahátíð að þessu sinni og eins og alltaf eru allir velkomnir heim að Hólum.