Vistmorði vísað til ríkisstjórnarinnar – þingflokkur Pírata fagnar

Alþingi vísaði þingsályktunartillögu Pírata um vistmorð til ríkisstjórnarinnar í dag. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og flutningsmaður tillögunnar, fagnar niðurstöðunni.

Alþingi hefur vísað þingsályktunartillögu Pírata um vistmorð til ríkisstjórnarinnar. Þingflokkur Pírata fagnar niðurstöðunni, en hún felur í sér mikilvægan áfangasigur í baráttunni fyrir réttindum náttúrunnar og komandi kynslóða.

Þingsályktunartillagan snýr að því að fela ríkisstjórninni að leggja tillögu fyrir þing aðildarríkja Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) um að vistmorð verði viðurkennt í Rómarsamþykktinni sem brot á alþjóðalögum sem falli undir lögsögu dómstólsins, og jafnframt að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um að vistmorð verði bannað að landslögum.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, segir niðurstöðuna ánægjulega:

„Barátta okkar fyrir viðurkenningu vistmorðs sem refsiverðs athæfis og innleiðingu í alþjóðlega og innlenda refsilöggjöf skilaði sér loks í dag þegar Alþingi vísaði þingsályktunartillögu okkar til ríkisstjórnarinnar.“

Tilgangur tillögunnar er að tryggja réttarstöðu náttúrunnar svo hægt sé að berjast fyrir réttlæti í þágu náttúrunnar og sameiginlegrar framtíðar okkar allra. Náttúruspjöll á nánast óhugsandi stærðargráðu eru framin á hverjum einasta degi af stórfyrirtækjum og stofnunum um heim allan.

Vistmorð (e. ecocide) er skilgreint sem ólögmæt eða gerræðisleg athöfn sem framkvæmd er þótt vitað sé að athöfnin kunni að leiða til alvarlegra og annaðhvort víðtækra eða langvarandi umhverfisspjalla. Kallað hefur verið eftir lagalegum úrræðum fyrir almenning til að sækja rétt sinn gagnvart aðilum sem með athöfnum eða athafnaleysi sínu bera ábyrgð á slíkum spjöllum – og formleg viðurkenning vistmorðs myndi einmitt svara þeirri þörf.

„Nú verður málið lagt í hendur ríkisstjórnarinnar til frekari útfærslu – og við munum sjá til þess að enginn afsláttur verði gefinn af réttindum Jarðarinnar. Eftir alla málfundina, ráðstefnurnar, greinarskrifin og samtölin við aðgerðarsinnana um allan heim er sérlega ljúft að fagna þessum merka áfangasigri,“ segir Andrés Ingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir