Tókst að spæla egg á heitu höfðinu – læknir telur að brögð séu í tafli

Elvar Kárason lagðist í rúmið á dögunum sem ekki er nú í frásögur færandi, nema fyrir það að hann fékk óvenju háan hita og prófaði við það tækifæri að spæla egg á hárlausu höfði sínu.

„Já ég fékk mikinn hita, á milli 30 og 40 gráður held ég alla vega og leið afar illa. Þar sem ég lá í rúminu með þennan mikla hita fór ég að velta fyrir mér að fólk segir stundum í hálfkæringi að það sé með svo mikinn hita að það sé hægt að spæla egg á enninu eða höfðinu eftir því hvort er. Ég ákvað fyrst ég hafði ekkert að gera að prófa þetta bara og útkoman var hreint út sagt mjög góð,“ sgaði Elvar við Dreifarann.

Hann tók egg úr ísskápnum, braut það og setti ofan á hvirfilinn og innan 10 mínútna var eggið orðið vel spælt og bara girnilegt að sögn Elvars „Ég átti nú von á því að þetta gæti tekið smá tíma, en það kom mér því á óvart að þetta tók ekki nema um 10 mínútur og eggið var bara fallega spælt og afar lystugt“, sagði Elvar.

Dreifarinn hafði samband við lækni á vakt og fannst honum þetta vera afar ólíklegt í alla staði, yfirleitt þyrfti mun hærri hita til að spæla egg en líkamshiti fólks væri, þó það væri með háan sótthita. Elvar heldur hins vegar fast við sinn keip, stendur á því að hafa gert þetta og vísar í ömmu sína, 95 ára, sem varð vitni af þessum gjörningi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir