160 nemendur í tónlistarnámi í vetur

Tónlistarskóla Skagafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn sl. föstudag í Félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi.
Í yfirliti sínu yfir starf síðasta skólaárs sagði Sveinn Sigurbjörnsson, skólastjóri, að í vetur hafi um 160 nemendur stundað nám við skólann. Undanfarin ár hefur kennsla Tónlistarskóla Skagafjarðar verið samþætt í húsakynnum Varmahlíðarskóla og Grunnskólans austan Vatna. Þetta hefur gefið mjög góða raun á þessum stöðum og almenn ánægja er meðal nemenda, foreldra og starfsmanna með þessa skipan enda er hlutfall nemenda í tónlistarnámi mun hærra þar en á Sauðárkróki. Með þessari samvinnu tónlistarskólans og grunnskólanna hefur tekist að gera öflugt starf tónlistarskólans enn betra enda er litið á starfsemi tónlistarskólans sem afar mikilvægan þátt í skólastarfinu á hverju svæði fyrir sig. Framtíðarsýn margra hefur verið sú að slíkt yrði einnig gert á Sauðárkróki. Nú er komin reynsla af tónlistarskólanum í Árskóla og almennt hefur það lagst vel í nemendur, foreldra, og starfsfólk Árskóla, þó ekki sé allt fullkomið við flutninginn, sem dæmi vantar þar stærri samspilsstofu og tónleikasal.
Minningarsjóður Jóns Björnssonar, sem Eiður Guðvinsson kom á fót, veitti Hákoni Inga Rafnsyni verðlaun fyrir góðan námsárangur. Þá fengu Ester María Eiríksdóttir og Jón Örn Eiríksson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur og dugnað við námið úr minningarsjóði Aðalheiðar Erlu Gunnarsdóttur frá Syðra-Vallholti.
Tveir kennarar hætta nú störfum, Ellinore Anderson víóluleikari sem hefur kennt í tvö ár við skólann og Kristín Halla Bergsdóttir fiðlu og víóluleikari sem hefur kennt við skólann síðan 2004 og er það mikil blóðtaka að sjá á eftir henni þó búið sé að ráða fiðlukennara fyrir næsta vetur.