196 athugasemdir við aðalskipulag Húnavatnshrepps
Á fundi hreppsnefndar Húnavatnshrepps kom fram að alls bárust 196 athugasemdir við aðalskipulag Húnavatnshrepps. Athugasemdir um að Húnavallaleið sé ekki á aðalskipulaginu voru samtals 190, þar af voru 164 algjörlega samhljóða, en í 26 athugasemdum komu fram mismunandi áherslur varðandi Húnavallaleið.
Hreppsnefnd yfirfór framkomnar athugasemdir og taldi ekki forsendur til að gera breytingar á aðalskipulaginu vegna athugsemda varðandi Húnavallaleið. Athugasemd barst frá eigendum jarðanna Köldukinnar og Köldukinnar 2, þar sem mótmælt var legu reiðvegar um lönd þeirra. Hreppsnefnd samþykkti að verða við athugasemdinni og að reiðvegur verði fjarlægður af skipulagi.
Athugasemd barst frá eiganda jarðanna Grænuhlíðar og Smyrlabergs, þar sem óskað er eftir að reiðleið um þessar jarðir verði afmáð af skipulagsuppdrætti. Einnig að texti varðandi áningarhólf við Smyrlaberg verði fjarlægður úr greinargerð. Hreppsnefnd samþykkti að verða við athugasemdinni og að reiðvegur og umfjöllun um áningahólf verði fjarlægt af skipulagi.
Athugasemd barst frá landeigendum Gilár/Marðarnúps um að hverfisvernd Gilárgils/Marðarnúpsgils (H8) verði felld niður. Hreppsnefnd samþykkti að verða við athugasemdinni og fella út hverfisvernd á svæði merktu H8-Gilárgil/Marðarnúpsgil í endanlegum frágangi skipulagstillögunnar. Athugasemd barst frá Landeigendum á Hjallalandi um að orðið Hvammsskriður í landi
Hjallalands verði tekið út úr skipulagsuppdráttum og greinargerð og nafninu breytt í skriður í Vatnsdalsfjalli. Hreppsnefnd samþykkti að verða við athugasemdinni og að nafni í uppdráttum og greinargerð verði breytt úr Hvammsskriður í skriður í Vatnsdal.
Athugasemd barst frá Vegagerðinni um að á skipulagið vanti malarslitsnámu í landi Syðri- Löngumýrar og einnig námu á Blöndueyrum í landi Ytri-Löngumýrar. Hreppsnefnd samþykkti að verða við athugasemdinni og námunum verði bætt inn á uppdrætti og greinargerð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.