232 milljónir úr Jöfnunarsjóði til Norðurlands vestra
Rúmar 232 milljónir renna til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra úr aukaúthlutun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en úthlutað verður úr sjóðnum fyrir þessi mánaðarmót.
Alls munu 1.400 milljónir króna renna til sveitarfélaganna en framlögunum er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.
Sveitarfélagið Skagafjörður fær mest eða 113,3 milljónir. Húnaþing vestra fær 39,1 milljón. Blönduósbær 25,3 milljónir, Skagaströnd 23,7 milljónir, Húnavatnshreppur 22.6 milljónir og Akrahreppur 7,9 milljónir. Skagabyggð fær ekkert.
Við úthlutun framlagsins er tekið mið af íbúafækkun í sveitarfélögum á tilteknu árabili, þróun útsvarsstofns, íbúaþróun og útgjaldaþörf sameinaðra sveitarfélaga. Áætlunin nú tekur til alls framlagsins en áður hafði komið til úthlutunar og greiðslu framlags að fjárhæð 400 milljónir króna vegna íbúafækkunar.